Snýst Landsréttarmálið um afsögn?

Í umræðunum um skipun dómara í Landsrétt, sem dómsmálaráðherra klúðraði með eftirminnilegum hætti vorið 2017, hafa langflestir gagnrýnendur skipunarinnar hamrað á því að ráðherrann hafi brotið lög – og sé því lögbrjótur – og þræti fyrir hafa gert mistök þrátt fyrir lögbrot sín. Þegar þessi póll er tekinn í hæðina er niðurstaðan venjulega sú að ráðherra sem hafi brotið lög beri að segja af sér og af því leiði að allt heiðarlegt og sanngjarnt fólk eigi nú að krefjast þess að Sigríður Andersen segi af sér.

Í þessu er dálítil rökvilla sem hefur auðveldað Sigríði og samherjum hennar vörnina en spillt málstað gagnrýnendanna. Rökvillan er þessi: Í stjórnkerfinu þarf iðulega að láta reyna á mál fyrir dómstólum þegar ágreiningur ríkir. Niðurstaða slíkra mála á að tryggja að ef það gerist að kerfið brjóti á einstaklingum sé það viðurkennt og bætt. Þegar slíkt gerist geta ástæðurnar verið af ýmsu tagi. Vantað getur skýran skilning á ákveðnum lögum, það getur verið uppi ágreiningur um túlkun laga í ákveðnum tilfellum, það getur verið um pólitíkan árekstur að ræða sem verður ekki útkljáður án aðkomu dómstóla og svo framvegis. Falli dómur ráðherra eða ráðuneyti í óhag er ráðherra ekki vegna dómsins augljóslega óhæfur til að gegna embættinu.

Vandinn í Landsréttarmálinu er allt annar. Skipun dómaranna var fyrst og fremst stjórnsýslulegt klúður. Dómsmálaráðherra hafði það mikilvæga hlutverk að leiða til lykta myndun nýs dómstigs. Það skipti öllu máli að gera það með þeim hætti að almenningur gæti verið sáttur við nýtt kerfi og nokkuð öruggur um að því fylgdi öflugri réttarvernd og betra dómskerfi. Með því að standa þannig að skipun dómaranna að gagnrýni á hana skyggi á alla aðra umræðu um réttinn, nýja dómstigið, nýtt hlutverk Hæstaréttar og dómskerfið í heild sinni hefur mikið tjón verið unnið á trúverðugleika dómsvalds í landinu. Spurningin hlýtur því að vera sú hver geti snúið þessu við eða fundið einhverskonar lausn á málinu.

Þess vegna væri held ég mun sterkara að beina sjónum að því hvað þurfi til að komast yfir eða í kringum klúðrið. Mér finnst í sjálfu sér engu máli skipta hvort Sigríður Andersen segir af sér eða ekki vegna mistaka, valdníðslu eða lögbrots. Þessi orð eru í þessu samhengi fyrst og fremst mælskutæki. Spurningin ætti að vera sú hvort þessi tiltekni ráðherra njóti þess trausts sem ráðherra þarf að hafa til að geta komið málum fram og haft áhrif – og til að geta stuðlað að rósemi í kringum og tiltrú á nýtt dómsstig.

Mjög margt bendir til þess að svo sé ekki og að þrátt fyrir þingið hafi fellt vantrauststillögu á hana megi líta svo á að hún eigi svo mjög á brattann að sækja með að njóta nægilegs trausts almennings að hún hljóti að teljast veikur ráðherra. Það er líklegt að þetta mál muni halda áfram að grafa undan henni. Umræðan í fjölmiðlum og samfélaginu bendir til þess að allt sem hún gerir muni orka tvímælis. Ráðherra í slíkri stöðu getur ekki haldið styrk í pólitík, varla einu sinni gagnvart samherjum sínum sem stöðugt þurfa þá að halda hlífiskildi yfir henni.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því hvernig lukkast að umbreyta dómstólunum og ætti fyrst og fremst að leggja sig fram um aðgerðir sem styðja við það verkefni. Ef það krefst afsagnar eins ráðherra ætti slíkt varla að standa í veginum fyrir því að stjórnvöld geri það sem þau þurfa að gera. Það er kominn tími til að við hættum að sjá afsögn sem niðurlægingu stjórnmálamanns og sjáum hana frekar sem eitt af því sem stjórnmálamenn þurfa stundum að gera til að bjarga sjálfum sér og koma góðu til leiðar.

Jón Ólafsson