Skilgreiningar á spillingu

Hvað er spilling?

– Spilling er misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Spilling þrífst þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða engin. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæi hvað varðar upplýsingar og gjörðir valdhafa, sem almenning getur skilið, treyst og fylgst með.

Hvað er “gagnsæi”?

– ‘Gagnsæi” (eða gegnsæi) má lýsa sem þeirri meginreglu að fólk, sem þarf að reiða sig á ákvarðanir teknar innan stjórnsýslunnar eða í viðskiptalífinu, geti fengið upplýsingar um hvernig slíkar ákvarðanir eru teknar og á hvaða grundvelli. Það er skylda opinberra aðila, framkvæmdastjóra og stofnana að starfa á skýran, skiljanlegan og fyrirsjáanlegan hátt.

Spilling á Íslandi?

– Þótt Ísland komi yfirleitt vel út í alþjóðlegum samanburði hvað varðar spillingu berast samt stöðugar fréttir af spillingu í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi og ákveðið úrræðaleysi við að uppræta hana. Félagið Gagnsæi hefur verið stofnað til að kanna hvernig má gera íslenskt samfélag meðvitaðara um spillingarhættur, heilindi og fyrirbyggjandi aðgerðir, en einnig viðbrögð við spillingu í þeim tilfellum þar sem hún greinist.

Hvers vegna er spilling vandamál?

– Spilling eykur fátækt í heiminum. Spilling grefur undan lýðræði og vernd mannréttinda, veikir hagkerfið, hefur skaðleg áhrif á viðskiptalíf, veikir stjórnsýslu og eyðir trausti á opinberum stofnunum. Því þarf að vinna gegn spillingu hvar sem hún birtist.

Er hægt að mæla spillingu?

– Stutta svarið er: nei. Það er engin leið að komast að því nákvæmlega hversu miklu er eytt í óviðeigandi greiðslur og greiða. Spilling er í eðli sínu feluleikur og þegar upp kemst um spillingu er það vegna þess að eitthvað fór í handaskolun hjá þeim sem voru að svindla og vegna þess að lágmarks eftirlit var til staðar. En það sem er hægt að mæla er tjónið sem spilling veldur. Og það er hægt að hlusta á hversu margar viðvörunarbjöllur hringja í einu og hvernig kerfið bregðast við þeim.