Framboð til stjórnar á aðalfundi 2023

Kosið er til stjórnar ár hvert. Kjörtímabil stjórnarmeðlima eru tvö ár og í stjórn eru sjö. Formaður er kjörinn annað hvert ár og varaformaður hitt árið. Á aðalfundi 2023 ætti því að kjósa varaformann og þrjá stjórnarmeðlimi. Hins vegar hafa þeir Indriði Þorláksson og Halldór Zoega óskað eftir að kjörnir verði nýir stjórnarmeðlimir fyrir þá. Að auki hefur Jóhann Hauksson formaður óskað eftir að kjörinn verði nýr formaður en hann býður fram sem almennur stjórnarmaður. Því verður kosið um sex embætti á aðalfundi í ár.

Eftirfarandi hafa boðað framboð á aðalfundi sem fer fram þriðja október næstkomandi:

Árni Múli Jónasson – framboð til formanns
Árni hefur lengi unnið að mannréttindamálum, sem framkvæmdastjóri hjá Landssamtökunum Þroskahjálp frá 2015, hjá Rauða krossinum á Íslandi og Íslandsdeild Amnesty International, m.a. sem formaður stjórnar deildarinnar. Hann starfaði um skeið að málefnum fiskveiðistjórnunar, m.a. sem aðstoðarfiskistofustjóri og Fiskistofustjóri. Árni hefur einnig verið bæjarstjóri og skrifstofustjóri í ráðuneyti og hjá sveitarfélagi. Þá starfaði hann um tíma hjá umboðsmanni Alþingis.

Árni Múli er með meistarapróf (LL.M.) í alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Í meistararitgerð hans, „International Law against Corruption – An Icelandic Perspective“, er m.a. fjallað um hvernig spilling grefur undan mannréttindum fólks og hvernig virðing fyrir mannréttindum vinnur gegn spillingu. Árni lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og hlauti leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1995. Hann er jafnframt með B.A.-próf íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands.
Árni var framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, í hlutastarfi, um skeið árið 2021. Hann er nú framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Útlistun hagsmuna:

  • Ég var í fyrsta sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum árið 2013 og var um skeið á árinu 2015 ráðgjafi þingflokks Bjartrar framtíðar.
  • Ég var í síðasta sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi árið 2016.
  • Þá var ég í 2. sæti á framboðslista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum 2021 og er félagi í flokknum en hef ekki verið virkur í flokksstarfi frá kosningunum 2021.
  • Ég er styrktaraðili Íslandsdeildar Amnesty International og er sennilega skráður í Rauða krossinn á Íslandi og Samtök hernaðarandstæðinga.


Hilmar Hildar Magnúsar

Hilmar býr í Reykjavík en er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Hann hefur BA gráðu í arkitektúr frá Arkitektskolen i Aarhus og MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Hilmar hefur unnið við ýmislegt um ævina, s.s. fiskvinnslu, gestamóttöku, ræstingar og þjónsstörf. Hann vann lengi á arkitektastofum og til skamms tíma hjá utanríkisráðuneytinu. Hilmar hefur starfað á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara síðan 2012, m.a. við lýðræðisþróun og alþjóðamál, og er í dag verkefnastjóri húsnæðis- og alþjóðamála í atvinnu- og borgarþróunarteymi. Hilmar syngur í kór og spilar á píanó og hefur mikinn áhuga á samfélags-, stjórnmálum, listum og menningu. Hann hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og árið 2019 skrifaði hann, flutti og framleiddi eigin útvarpsþætti um arkitektúr og vopnuð átök fyrir Rás 1. Hilmar á einn 10 ára son.

Útlistun hagsmuna: Verkefnastjóri húsnæðis- og alþjóðamála í atvinnu- og borgarþróunarteymi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. (2021 – )
Utan stjórnmálaflokka síðan 2013 en þar áður um nokkurra ára skeið félagi í Samfylkingunni. Stýrði kosningabaráttu fyrir flokkinn á norðanverðum Vestfjörðum við Alþingiskosningarnar 2009 og kosningabaráttu Í-listans, sameiginlegs framboðs Samfylkingar, VG, Frjálslynda flokksins og óháðra við sveitarstjórnarkosningar í Ísafjarðarbæ 2010. Bæjarfulltrúi fyrir Fönklistann í Ísafjarðarbæ á árunum 1996-97. Félagi í nokkrum frjálsum félagasamtökum, þ.m.t. Íslandsdeild Transparency International, og setið í stjórn og gegnt öðrum trúnaðarstörfum fyrir Samtökin ’78, þar af formennsku á árunum 2014-16. Athafnastjóri hjá Siðmennt síðan 2018. Hvorki í stjórnum félaga né fyrirtækja. Helstu fjárhagslegu verðmæti eru fasteign í Reykjavík og hlutur í jarðarskika í Skálavík vestari á Vestfjörðum.

Sigurborg Haraldsdóttir framboð til varaformanns

Sigurborg Ósk er menntuð í landslagsarkitektúr og borgarskipulagsfræði. Hún hefur starfað við kennslu á háskólastigi, á arkitektastofu og í stjórnmálum þar sem hún sat í borgarstjórn frá 2018 til 2021. Hún var formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur og vann meðal annars að húsnæðisuppbyggingu og við öll mikilvægustu umhverfismál sveitarfélaga. Sigurborg var á sama tíma formaður Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins. Hún sat í Skipulagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og var stjórnarmaður í stjórn Faxaflóahafna. Sigurborg var einnig varaformaður Umhverfis- og heilbrigðisráðs og sat í innkauparáði Reykjavíkurborgar. Sigurborg er búsett með fjölskyldu á Húsavík.

Útlistun hagsmuna: Ég hef verið virk í starfi Pírata frá 2014 og sat í Borgarstjórn fyrir hönd Pírata frá 2018 til 2021. Núna sit ég ekki í neinni stjórn annarri en fyrirtæki eiginsmanns míns sem starfar aðallega við sjúkraþjálfun.

Hallfríður Þórarinsdóttir

Hallfríður hefur frá 2019 verið framkvæmdastjóri: Mirru, fræðslu- og rannsóknarseturs. Mirra – www.mirra.is – vinnur að rannsóknum á innflytjendum og margmenningu á Íslandi auk fræðslu og ráðgjafar um sama efni. Hallfríður er með doktorspróf (Ph.D.) í menningarmannfræði (Cultural Anthropology)frá The New School of Social Research í New York. Titill doktorsritgerðar Hallgerðar er: Hreinleiki og vald: hreinleikastefna í íslenskri þjóðernishyggju og þjóðarímynd („Purity and Power: the Policy of Purism in Icelandic Nationalism and National Identity“).
Auk faglegrar þekkingar á fjöl/margmenningu og þeim áskorunum og auði, sem henni fylgja hefur Hallfríður líka reynslu af búsetu í Frakklandi og Svíþjóð ásamt búsetu vestan hafs að ógleymdri búsetu víðsvegar á landsbyggðinni. Þessa reynslu telur hún ómetanlega í starfi sínu. Hún er lundlétt, skapgóð, hrein bein í samskiptum og óhrædd við gagnrýna hugsun. Dr. Hallfríður hefur iðulega verið afar virk í hverskonar félagsstarfi einkum því, sem miðar að réttlátara og betra samfélagi. Hún á sér fjölmörg áhugamál m.a. ferðalög, útivist, bóklestur og margt fleira.

Útlistun hagsmuna: Hallfríður situr ekki í neinni stjórn eins og er. Hún er félagi í nokkrum félögum, s.s. Amnesty Int., Neytendasamtökunum, Skógræktarfélögum (RVK og landsins), Sósíalistaflokknum svo eitthvað sé nefnt.

Jared Biebler

Jared hefur starfað í Bandaríkjunum, Ísland og Sviss sem vélaverkfræðingur, forritari, viðskiptafræðingur, eignastjóri, og rannsóknarmaður. Hann var eitt af fyrstum rannsóknarmönnum hjá FME eftir 2008-kreppunni. Bókin hans Iceland’s Secret segir frá þessum tíma. Í dag starfar hann fyrir eigið fyrirtæki sitt, Kötlu AG, í Bern.

Útlistun hagsmuna:
– Eigandi Kötlu AG (Hf.) — ráðgjafafyrirtæki í Bern (Sviss) — starfar þar

Jóhann Hauksson

Núverandi formaður Gagnsæis, Transparency International Iceland. Starfsferill Jóhanns Haukssonar hefur að mestu verið hjá fjölmiðlum. Eftir háskólanám í félagsvísindum kenndi hann í ein fimm ár við MH. Hann var fréttarmaður á RÚV í 20 ár eða svo frá 1987, dagskrárstjóri þar í þrjú ár og yfirmaður svæðisstöðva. Eftir 2005 vann hann sem blaðamaður og fréttastjóri einkum hjá Fréttablaðinu og DV. Nærri tvö ár var hann upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann býr nú í Danmörku með konu sinni Ingveldi G. Ólafsdóttur. Jóhann hefur gefið út eitt og annað, skrifaði meðal an nars Þræði valdsins eftir bankahrunið, bók um spillingu á Íslandi. Hann hefur að undanförnu unnið að þýðingu á heimspekiriti sem kemur út á næstu dögum.

Jóhann á tvö börn, Sigtrygg Ara ljósmyndara og Erlu sem kennir jóga og er í fjalla ferðabransanum.