Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi, ár hvert.
Nú er stjórn félagsins skipuð eftirtöldum einstaklingum:
Jóhann Hauksson, formaður
Jóna Þórey Pétursdóttir, varaformaður
Geir Guðmundsson, gjaldkeri
Edda Kristjánsdóttir
Halldór Ó. Zoega
Þorbjörg Marinósdóttir
Þórarinn Eyfjörð
Fyrir almennar fyrirspurnir: transparency „at“ transparency.is
Nánari upplýsingar um stjórnarmeðlimi

Jóhann Hauksson, fyrrum blaðamaður og upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins.
Starfsferill Jóhanns Haukssonar hefur að mestu verið hjá fjölmiðlum. Eftir háskólanám í félagsvísindum kenndi hann í ein fimm ár við MH. Hann var fréttarmaður á RÚV í 20 ár eða svo frá 1987, dagskrárstjóri þar í þrjú ár og yfirmaður svæðisstöðva. Eftir 2005 vann hann sem blaðamaður og fréttastjóri einkum hjá Fréttablaðinu og DV. Nærri tvö ár var hann upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann býr nú í Danmörku með konu sinni Ingveldi G. Ólafsdóttur. Jóhann hefur gefið út eitt og annað, skrifaði meðal an nars Þræði valdsins eftir bankahrunið, bók um spillingu á Íslandi. Hann hefur að undanförnu unnið að þýðingu á heimspekiriti sem kemur út á næstu dögum.
Jóhann á tvö börn, Sigtrygg Ara ljósmyndara og Erlu sem kennir jóga og er í fjalla ferðabransanum.
Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur og meistaranemi í mannréttindalögfræði við Edinborgarháskóla – fyrrum forseti Stúdentaráðs
Jóna var forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2019-2020 og sat í stjórn Byggingarfélags námsmanna til tveggja ára. Störf hennar fyrir Stúdentaráð fólu meðal annars í sér þátttöku í skipulagningu loftslagsverkfallanna hérlendis og mótmælum á aðkomu Háskóla Íslands að aldursgreiningum ungs fólks og barna á flótta með tanngreiningum. Fyrir störfin var hún ein af Topp Tíu Framúrskarandi ungum Íslendingum hjá JCI Iceland árið 2020.
Jóna útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 2018 og mun útskrifast nú í júní 2021 úr meistaranámi við deildina. Jóna var deildarfulltrúi laganema við lagadeild HÍ, sinnti aðstoðarkennslu við deildina og var aðstoðarmaður lektors samhliða meistaranámi. Hún starfaði sem laganemi hjá Fulltingi slf. 2017-2019. Jóna mun hefja LLM nám í Human Rights Law við University of Edinburgh í september 2021. Í febrúar hlaut Jóna kjör sem ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda og mun sækja allsherjarþing SÞ sem slík í september 2021.

Geir Guðmundsson, verkfræðingur og verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Gjaldkerinn okkar hann Geir er stúdent frá MR og hefur lokið prófi í verkfræði frá HÍ auk viðbótarnáms og rannsóknavinnu við Tækniháskólann í Karlsruhe, Þýskalandi (nú KIT). Geir hefur starfað sem verkfræðingur og verkefnistjóri á sviði nýsköpunar og tækniþróunar undanfarin 30 ár á fjölmögrum sviðum eins og hugbúnaðarþróun, orkumálum, hönnun stoðtækja, heilbrigðistækni, sjálfvirki, umhverfismálum, veiðarfæraþróun, ráðgjafar til sprotafyrirtækja, gróðurhúsatækniþróunar, stýri- og mælitækni, framleiðslutækni o.fl. Undanfarin 13 ár hefur hann unnið sem verkefnistjóri á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og 10 ár þar á undan á Iðntæknistofnun. Á þeim árum hefur hann stjórnað fjölmörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum, studdum að innlendum og erlendum samkeppnisjóðum.
Geir er einn af stofnendum og fyrrum formaður Stjórnarskrárfélagsins sem berst fyrir endurbótum á stjórnskipan Íslands og auknu lýðræði og borgararéttindum þ.a.m. auknu gagnsæi í stjórnsýslu. Geir hefur verið félagi í Gagnsæi frá stofnun og setið í stjórn frá 2019 sem gjaldkeri.

Edda Kristjánsdóttir, þjóðréttarfræðingur
Edda er Hafnfirðingur að uppruna en hefur búið og starfað erlendis síðan 1992, aðallega í New York og Hollandi. Hún lauk lögfræðiprófi (J.D.) frá New York University School of Law 1998 og hóf lögfræðiferil sinn á lögmannsstofu í New York, en áhugi á þjóðarétti leiddi til flutninga til Hollands 2001, þar sem hún var aðstoðarmaður dómara hjá Alþjóðadómstólnum í Haag og fulltrúi hjá Alþjóðagerðardómnum, og sérhæfði sig í regluverki fyrir fjöldakröfur fórnarlamba mannréttindabrota. Frá 2006 vann Edda í rúman áratug við kennslu og fræðastörf hjá þjóðaréttardeild Amsterdam háskóla, þar sem hún hafði aðalumsjón með gerð netgagnagrunns fyrir Oxford University Press, um beitingu þjóðaréttar í landsrétti í yfir 70 löndum (International Law in Domestic Courts – ILDC). Síðustu ár hefur Edda starfað sem sjálfboðaliði fyrir flóttamannasamtökin Vluchtelingenwerk í Haarlem, Hollandi og fyrir Gagnsæi – samtök gegn spillingu frá stofnun þeirra. Hún er nýtekin við ritstjórn (e. managing editor) Árbókar um lagasetningar Sameinuðu Þjóðanna, gefna út af Max Planck Foundation for International Peace and the Rule of Law í Heidelberg, Þýskalandi.
Halldór Ó. Zoega, verkfræðingur og stjórnsýslufræðingur.
Halldór er með skipstjórnarmenntun frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, verkfræðingur frá Háskólanum í Álaborg og er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Hann hefur m.a. stundað sjómennsku, starfað sem forstöðumaður matvælaeftirlitssviðs Fiskistofu og unnið að verkefnum á sviði þróunarsamvinnu í Namibíu, Grænhöfðaeyjum, Sri Lanka og fleiri löndum. Hann starfaði einnig sem fjármálastjóri hjá Keili og á Félagsvísindasviði HÍ og hefur einnig sinnt ráðgjöf við sjávarútvegsfyrirtæki. Halldór er nú deildarstjóri Mannvirkjadeildar hjá Samgöngustofu
Halldór hefur verið félagi í Gagnsæi frá stofnun samtakanna og var um tíma í stjórn Amnesty International.
Þorbjörg Marinósdóttir, atvinnurekandi og fyrrum ritstjóri DV
Þorbjörg er fyrrverandi ritstjóri DV. Hún fjölmiðlafræðingur að mennt og með mastersgráðu í verkefnastjórnun. Hún hefur einnig skrifað fjölda bóka, stýrt sjónvarpsþáttum, starfað í útvarpi og á fjölmiðlum svo sem Séð og Heyrt, SkjáEinum þar sem hún sat í framkvæmdastjórn og starfaði á Morgunblaðinu.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis
Þórarinn hefur starfað með beinum hætti að verkalýðsmálum í 15 ár, fyrst sem framkvæmdastjóri hjá SFR stéttarfélagi í almannaþjónustu, síðar sem framkvæmdastjóri kjara- og reksturs hjá Sameyki.
Árið 2001 til 2006 var hann framkvæmdastjóri hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt. Þar stóð hann að uppbyggingu einu sterkasta sí- og endurmenntunarsetri landsins þar sem þúsundir launafólks sem starfar í opinbera geiranum sækir sér menntun og þekkingu á ári hverju. Frá árinu 2006 starfaði Þórarinn hjá SFR stéttarfélag og síðan hjá sameinuðu félagi Sameyki frá 2019.
Þórarinn Eyfjörð hefur mikla reynslu í félagsmálastörfum, allt frá meðferð ungmenna til útivistar og náttúruverndar. Hann hefur setið í ráðum og nefndum hjá menntamálaráðuneytinu og Leiklistasambandi Íslands. Hans helstu áhugamál eru félagsstörf og það sem viðkemur þeim mannlega þætti og er umhugað um velferð annarra eins og fram hefur komið í pistlum og viðtölum við hann í fjölmiðlum.