Traustskýrslan

Þann 5. september 2018 skilaði starfshópur forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu af sér skýrslu með tillögum að aðgerðum í níu liðum. Íslandsdeild TI fylgist með því hvernig gengur að vinna úr þessum tilögum, en Siðfræðistofnun Háskóla Íslands er stjórnvöldum til ráðgjafar í þeim efnum og skilaði m.a. af sér framvinduskýrslu þann 11. febrúar 2020. Hér má sjá allar tillögurnar sem og stöðu þeirra, samkvæmt úttekt Íslandsdeildar TI.

1. Markmið um heilindi  
Ríkisstjórnin setji fram stefnuskjal sem lýsir markmiðum um heilindi – heilindaramma (e. Integrity Framework). Innihald hans mótist af þeim atriðum sem hér koma á eftir. Drög að slíku stefnuskjali munu vera í vinnslu í forsætisráðuneytinu.
2. Siðareglur og siðferðileg viðmið  
Hefja nú þegar nauðsynlega vinnu við endurskoðun siðareglna ráðherra, starfsfólks stjórnsýslu og ríkisstarfsmanna. Endurskoðun siðareglna stendur nú yfir og hafa m.a. sérfræðingar frá Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE ráðlagt Alþingi við þá vinnu.
Tryggja reglulega umræðu um siðareglur og endurskoðun þeirra á vettvangi Stjórnarráðsins.
Setja siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra og mögulega fleiri hópa innan stjórnsýslunnar. Viðmið hafa verið sett um hagsmunaskráningu ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna.
Tryggja heildarsýn og samræmi í þeim siðareglum sem gilda fyrir kjörna fulltrúa, ráðherra og starfsmenn stjórnsýslu.
3. Gagnsæi, miðlun upplýsinga og upplýsingaréttur almennings  
Ráðast í heildarstefnumótun um upplýsingagjöf til almennings, þ.m.t. upplýsingagjöf handhafa dómsvalds og löggjafarvalds. Breytingar á upplýsingalögum 140/2012 voru samþykktar 11. júní 2019 en þar var gildissvið laganna útvíkkað til að ná til handhafa dómsvalds og löggjafarvalds.
Stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samkvæmt ofangreindum breytingum á upplýsingalögum er úrskurðarnefndinni skylt að afgreiða mál innan 150 daga frá því að þau berast henni. Sú gagnrýni hefur komið fram að þessi frestur sé of langur. Nefndin hefur ráðið starfsmann, sem gera má ráð fyrir að stuðli að styttri málsmeðferðartíma.
Samræma og einfalda upplýsingagjöf ráðuneyta og skýra betur hlutverk þeirra starfsmanna sem sinna upplýsingagjöf og almannatengslum. Breytingar á upplýsingalögum tóku jafnframt á þessu atriði. Ráðinn hefur verið ráðgjafi á sviði upplýsingaréttar almennings.
4. Hagsmunaárekstrar og hagsmunaskráning  
Setja nú þegar skýrar og samræmdar reglur um hagsmunaskráningu ráðherra sem ná til fleiri þátta – t.d. skulda – en núverandi reglur gera og taka einnig til maka og ólögráða barna. Ný löggjöf um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds tekur á þessu atriði.
5. Samskipti við hagsmunaaðila, hagsmunavarsla (e. lobbyism) og starfsval eftir opinber störf  
Þeim aðilum sem hafa atvinnu af því að tala máli hagsmunaaðila gagnvart stjórnmála- og embættismönnum verði gert að skrá sig sem hagsmunaverði (e. lobbyist). Ný löggjöf um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds tekur á þessu atriði.
Hefja vinnu að reglum um samskipti við hagsmunaaðila. Slíkar reglur þurfa að tryggja fullt gagnsæi um samskiptin. Ný löggjöf um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds tekur á þessu atriði. Forsætisráðherra er heimilt að setja reglugerð um frekari útfærslu laganna.
Setja reglur um starfsval eftir opinber störf sem koma í veg fyrir að starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi. Slíkar reglur varða einkum tíma sem nauðsynlegt er að líði frá starfslokum og þar til starf fyrir einkaaðila hefst. Ný löggjöf um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds tekur á þessu atriði.
6. Vernd uppljóstrara  
Vinnu við heildstæða löggjöf um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann verði hraðað og frumvarp lagt fram sem allra fyrst. Mið verði tekið af nýlegri löggjöf í nágrannalöndum, t.d. í Noregi. Heildstæð lög um vernd uppljóstrara voru samþykkt á Alþingi í maímánuði 2020.
7. Lýðræðislegt samráð við almenning  
Stjórnvöld setji sér skýr markmið um aukið samráð um stefnumótun, undirbúning löggjafar og aðrar mikilvægar ákvarðanir.
Samráðsgátt stjórnvalda verði efld og hugað að víðtækri kynningu á henni sem heppilegri leið hins almenna borgara til að hafa áhrif á mótun lagasetningar og stefnumála.
Stjórnvöld leggi sig fram um að nýta hugbúnað og veflausnir til að auka þátttöku almennings og stefni að því að Ísland verði í hópi þeirra landa sem fremst standa í nýsköpun á sviði lýðræðis.
Sótt verði um aðild að Open Government Partnership í samvinnu við félagasamtök. Ekki hefur verið sótt um aðild að Open Government Partnership en stjórnvöld hafa hafið þátttöku í starfi efnahags- og framfarastofnunar um opið stjórnkerfi (OECD Working group on Open & Innovative Government).
Unnið verði að því að styrkja borgaralegan vettvang t.d. með föstum styrkjum til félagasamtaka sem uppfylla tiltekin skilyrði um starfsemi og skipulag.
8. Símenntun starfsfólks, fræðsla og gagnrýnin umræða  
Stjórnarráðsskólinn verði efldur þannig að starfsemi hans nái utan um reglubundna þjálfun allra starfsmanna á sviði opinberra heilinda. Unnið hefur verið að því að efla Stjórnarráðsskólann með auknu framboði námskeiða.
Þróað verði sértækt námsefni fyrir opinbera starfsmenn um siðferðileg álitamál og heilindi í opinberu starfi, þ. á m. dæmasöfn.
Stuðlað verði að því að umræða innan stjórnsýslunnar um heilindi, siðferði í opinberu starfi og fagmennsku sé fastur liður í starfi hennar.
Stefnt verði að því að efla gagnrýna umræðu innan stjórnsýslunnar, en slík umræða er forsenda þess að ráðuneyti og einstakar starfseiningar beri kennsl á brotalamir í starfseminni til að hægt sé að breyta stofnanamenningu þegar nauðsyn krefur.
9. Stofnanaumgjörð  
Siðfræðistofnun verði falið það verkefni (tímabundið, til að byrja með) að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðileg álitamál og fjárveiting til þeirrar starfsemi tryggð. Gerður var samningur við Siðfræðistofnun til þriggja ára frá 1. janúar 2019 um ráðgjöf stofnunarinnar við Stjórnarráðið. Sjá frétt Kjarnans hér.
Siðfræðistofnun verði falið að annast eftirfylgni með þessari skýrslu.
Sett verði á fót nefnd eða eining innan stjórnsýslunnar með það sérhæfða hlutverk að veita einstökum starfsmönnum, þ.m.t. ráðherrum, ráðgjöf í trúnaði um siðferðileg álitamál. Áform virðast um að starfsmaður sem ráðinn hefur verið vegna úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sinni þessu verkefni að einhverju leyti líka.