Stjórn Íslandsdeildar sammála fjármálaráðherra að afsögn sé óumflýjanleg

Stjórn Íslandsdeildar Transparency International tekur heilshugar undir það mat Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, að afsögn sé óhjákvæmileg í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um vanhæfi hans við einkavæðingu á hluta af eignum ríkissjóðs í Íslandsbanka. Stjórn Íslandsdeildar finnst mikilvægur sá tónn sem Bjarni slær við afsögn sína þriðjudaginn 10. október 2023. Ráðherra sagði í yfirlýsingu sinni mikilvægt að virða álit umboðsmanns Alþingis, sem sérstaks trúnaðarmanns þingsins, jafnvel í tilfellum þar sem stjórnmálafólk sé ósammála niðurstöðu umboðsmanns.

Vill Íslandsdeild þakka almenningi fyrir afsögn ráðherra og umboðsmanni fyrir að standa með skyldum embættisins. Það er aðeins fyrir elju almennings að ekki hefur tekist að þegja málið í hel. Stjórn Íslandsdeildar ítrekar fyrri kröfur um rannsóknarnefnd vegna sölunnar. Afsögn ráðherra hefur ekki áhrif á þá eðlilegu kröfu almennings um að allar hliðar sölunnar verði rannsakaðar og niðurstöður birtar.

Þótt nokkuð beri á að afsögninni sé lýst sem snarpri og óvæntri þá getur Íslandsdeild ekki tekið undir slíkar hugmyndir. Afsögnin kemur í kjölfar álits umboðsmanns, tugi mótmæla þar sem þúsundir mættu, úttekt ríkisendurskoðanda, sátt Fjármálaeftirlits og Íslandsbanka eftir játningu bankans á brotum, tilkynningu um niðurlagningu Bankasýslu, sem síðar kom í ljós að var aðeins tilraun til að villa um fyrir almenningi, umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og linnulausan áróður gegn réttmætri reiði almennings í málinu.

Stjórn Íslandsdeildar Transparency International biðlar til álitsgjafa og þeirra sem bera ábyrgð á að miðla upplýsingum til almennings um að gleyma ekki forsögu málsins og framlagi almennings sem leitt hefur til afsagnarinnar í dag. Krafa um siðbót og virðingu fyrir ábyrgð er endurtekið stef í mótmælum á Íslandi undanfarinn áratug. Það verður ekki sagt að þeim kröfum hafi alltaf verið mætt af virðingu.

Almenningur á Íslandi hefur aldrei verið samþykkur sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er jaðarskoðun að fátt sé mikilvægara en að selja hluti ríkisins í fjármálastofnunum. Eignum sem eru í ríkiseigu eftir að almenningur mátti endurreisa bankakerfið í kjölfar efnahagshruns og tók á sig skert lífsgæði. Upphaf þeirrar miklu traustskrísu sem nú þarf að vinna úr má meðal annars rekja til rofs á milli stjórnmálanna og almennrar umræðu í landinu. Stuðningur við einkavæðingu banka í eigu ríkisins er ekki almennur. Stjórnarflokkarnir hafa þrátt fyrir mótmæli keyrt söluna í gegn án þess að sannfæra fólk um ágæti eigin stefnu. Ríkisstjórn sem telur sig ekki þurfa á stuðning almennings að halda getur aldrei haft traust til einkavæðingar. Stjórn Íslandsdeildar ítrekar því að ekki má stöðva stofnun rannsóknarnefndar á vegum Alþingis þar sem farið verður yfir aðdraganda, ákvarðanir og afleiðingar af sölunni.

Þá segir sig sjálft að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verður að falla frá öllum áætlunum um frekari sölu. Hún hafði jú aldrei traust né stuðning almennings við þá stefnu. Afsögn ráðherra hefur ekki breytt þeirri staðreynd.