Framsaga framkvæmdastjóra Íslandsdeildar á húmanískri hugvekju Siðmenntar vegna setningar Alþingis

Siðmennt – Félag siðrænna húmanista á Íslandi bauð Atla Þór Fanndal, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar, að flytja hugvekju um heilindi í tilefni af þingsetningu. Hugvekjuna má lesa hér en tekið skal fram að hún tók einhverjum breytingum við framsögu.

Kæru félagar, ég þakka ykkur fyrir þann heiður sem Íslandsdeild Transparency International og mér er sýndur með boðinu.

Þegar ég hóf störf sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildar sagði þáverandi formaður, Guðrún Johnsen, við mig að baráttan fyrir gagnsæi og fagmennsku gegn spillingu og fúski myndi ekki öllum stundum tryggja mér fjölmennan vinahóp. Ég yrði bara að muna að starfið tryggir réttu vinina. Þið kannist kannski við tilvitnunina í John Lennon þótt breytt sé. „Heiðarleiki aflar þér ef til vill ekki marga vina en mun alltaf færa þér þá réttu.“

Þetta hefur staðist að mestu nema kannski þetta með vinafæðina … Ætli ég geti ekki sagt að þau Johnsen og Lennon hafi efnislega rétt fyrir sér þótt gera megi tæknilegar athugasemdir.

Talandi um tæknilegar athugasemdir. Það er svolítið um þær þegar reynt er að standa með góðum gildum.

Þeir eru nefnilega ekki margir sem viðurkenna að vera efnislega mótfallnir heilindum – andstaðan – ef andstöðu skyldi kalla – er að þeirra mati meira svona smávægilegur tæknilegur ágreiningur.

Óheilindafólk vill aldrei kannast við að taka afstöðu með spillingu.

Og þótt sumir hafi gert ‘góða fólkið’ að hugtaki sem á að lýsa verstu hræsni og sjálfumgleði þá kannast þeir auðvitað ekkert við að vera efnislegir andstæðingar góðra gilda. Andstæðingar góðs fólks.

Og þótt menn froðufelli af fyrirlitningu á ‘aðgerðasinnum’ og lummulegum mótmælendum sem virðast hafa endalausan tíma til að skrifa kafla eftir kafla í manifestó öfundarstjórnmála þá munu hinir froðufellandi benda ykkur á að auðvitað séu þeir efnislega sammála baráttunni – svona þannig. Styðji hvorki grimmd né mismunun. Vilja enga fátækt sjá og séu drifnir áfram af heilindunum einum saman.

Nei, athugasemdirnar eru tæknilegar. Kannski betur lýst sem föðurlegum ráðleggingum fyrir góðan málstað. Því auðvitað nærðu meiri árangri ef þú sleppir því að vera með blátt hár, tjóðra þig við hvalveiðiskip eða spreyja skilaboð um stjórnarskrá á veggi fyrir framan ráðuneyti.

Óheilindamenn sjá það auðvitað ekki sem óheilindi að hafa aldrei neitt fram að færa nema stagl um aukaatriði og suss, endalaust suss.
Þeir spyrja: Hvað haldið þið að kosti að kalla út fólk í yfirvinnu til að afmá öll merki um að einu sinni hafi almenningi verið lofað nýrri stjórnarskrá? Svo ekki sé nú talað um stuðningsgraff með hælisleitendum.

Nú er til fólk sem telur sig auðvitað ekki andsnúið mannúð svona efnislega en að sjálfsögðu gerir maður tæknilega athugasemd við slík skemmdarverk – og það á einkaeignum.

Er bara ekkert bannað orðið?

Og er það gott fyrir málstaðinn að hlaupa inn á flugbraut til að koma í veg fyrir að þau sem leita verndar hverfi inn í eilífðina eftir að flugvélin lendir? Flugvél sem annars vegar flýgur þeim heppnu í sólina en er fyrir þau allra óheppnustu er síðasti hlekkur þess að stroka út vonina. Hvað með börnin sem eru spennt að fara út og ömmurnar sem spöruðu síðasta aurinn fyrir vinkonuferð?

Nei, nei, nei … segja þau og eru alls ekki á móti mannúð og samkennd. Hér er bara ekki pláss!

Við erum ekki fólk óheilinda sem viljandi þvælum öllum málum og rótum upp rugli.

Auðvitað erum við sammála um að taka vel á móti fólki og virða mannréttindi til hins ýtrasta. Að sjálfsögðu er sárt að sjá fólki kastað á götuna. Því erum við öll efnislega sammála en … come on! Hvers vegna gráta þessar konur og garga á gangstéttinni eins og dramadrottningar?

Eins og þið heyrið þá eru margir tæknilegar boltar að halda á lofti svo sætta megi Samherja þessa lands við tal um góð gildi. En efnislega styðja þeir auðvitað heilindin 100% hafandi sjálfir orðið fyrir því að sópast upp í hvirfilbyl spillingar í Namibíu. Strangheiðarlegir íslenskir bisnessmenn sem gátu engar varnir veitt í landi spillingarmenningar.

Svona er þetta víst bara þarna í Afríku … það segir jú fjármálaráðherra; vandinn er Namibía.

Og svo ég fari nú að koma mér frá tækniatriðum í einhver aðalatriði þá er auðvitað fyrsta og stærsta áskorun góðs fólks að horfast í augu við að heilindi eru ekki sjálfgefin. Þau eru samvinna, samkennd og viðvarandi vinna.

Þau krefjast vitundar og sjálfsrýni.

Ísland er útflutningsland spillingar. Við erum milliliðaland sem neitar að leggja baráttu gegn spillingu lið.

Milliliðaland; veikur hlekkur.

Lönd eins og okkar viðhalda spillingu heimsins. Einn áfangastaður eitraðs fé á leið þess á áfangastað; aflandseyjur, vasar mútuþega og lundaflétta.

Ísland hefur raunar aldrei fengið jákvæða úttekt alþjóðastofnana fyrir aðgerðir gegn spillingu fyrir heilindum í stjórnsýslu. Skiptir þá engu hvort horft er til GRECO, úttekta vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, FATF eða OECD. Stundum fáum við smá klapp fyrir að hafa loksins brugðist við útrunnum ábendingum. Sleppum af gráum listum. Og jú, jú, þá er sko fagnað; aflátsbréfið komið!

Og kostnaðurinn er minna en lágmarkið.

Svo sanngirni sé gætt þá má finna aðila sem telja íslenskt stjórnkerfi meðal heiðarlegustu kerfa heims. Íslenskt viðskiptalíf og íslensk stjórnsýsla. Þessa niðurstöðu má lesa ár hvert í Spillingarásýndarvísitölu Transparency International. Þar sem meðal gagnasafna er könnun framkvæmd meðal þeirra sem starfa í kerfinu og gefa því svona glimrandi einkunn.

Það er árlegur viðburður í starfi framkvæmdastjóra Íslandsdeildar að útskýra að ekkert stigakerfi er til sem mælir spillingu – hér sé mæld ásýnd. Þessa óvenjugóðu vottun – þótt sígandi sé – megi fyrst og fremst þakka ótrúlegum skorti á sjálfsvitund þeirra sem græða á núverandi stöðu.

Spilling felur sig í skugga eðlilegra gjörða. Þeir sem hana stunda fela sig bak við tækniatriði; mútur verða lán, pólitísk tjáning, fjárfesting eða bara gott stuð á milli vina.

Smámál í samanburði við það sem viðgengst í henni Afríku – í útlandinu.

Hér heima hefur kæruleysisfasið gegn spillingu orðið til þess að föndrað var saman lénsherrakerfi sem listar 20 fjölskyldur sem ár hvert fá hlutdeild í auðlind landsins. Um það bil 100 manns sem taka meirihlutann og fjölgar aðeins í gegnum hjónaband og barneignir.

Annars á ég ekki að kalla þetta kæruleysi. Auðvitað er það ekkert slys að á Íslandi séu eftirlitsstofnanir vanfjármagnaðar, undirmannaðar með veikar heimildir. Annaðhvort slengt inn í aðra stofnun eða tvístrað eins og ávöxtum í blandara svo úr þeim sé allt bit.

Þetta er stefnan.

Það hefur ekki gleymst að setja heildstæða stefnu um spillingavarnir innan stjórnsýslunnar og fylgja henni eftir með fjármagni, pólitísku kapítali og heilindum.

Auðvitað er það meðvituð stefna. Svona vilja menn hafa þetta.

Veikar stofnanir í baráttu fyrir tilvist sinni eru ekki tilviljun.

Það er meðvituð stefna.

Heilagt stríð stjórnarflokkanna gegn Samkeppnisstofnun datt ekki inn stjórnarsáttmálann og lak þannig óvart inn í ræður og skrif formanna flokkanna svo þeim mætti endurvarpa í nafnlausum pistlum miðla sem eiga líf sitt undir því að smjaðra fyrir þeim sem hafa skal eftirlit með.

Þetta er svo sannarlega meðvituð stefna.

Þegar flokksgæðingar falla ítrekað upp á við í æðstu stöður, á meðan gott fólk flýr land svo það geti notið hæfileika sinna, hlýtur að koma sá tími að við hættum að kenna þyngdaraflinu um.

Auðvitað er það stefnan.

Bankar eru ekki ítrekað einkavæddir þvert á vilja almennings án þess að nokkur kannist við að bera ábyrgð á að þau allra gráðugustu mylji alltaf undir sig samfélagseigur.

Að sjálfsögðu er markmiðið til að auka samþjöppun auðs.

Hælisleitendum – umsækjendum um alþjóðlega vernd – er ekki kastað út í kuldann á meðan fagnaðarlátum dómsmálaráðherra er útvarpað, af því bara.

Stefnan er grimmd, grimmdarinnar vegna! Ætlunin er að hún berist til eyrna allra í leit að vernd. Enga mannúð er að sækja til Íslands. Þið getið einfaldlega sleppt því að banka hér upp á.

Gullverðlaunum í ólympíuleikum grimmdarinnar skyldi enginn sækjast eftir. Þú slekkur ekki hatrið jafn auðveldlega og þú kveikir það.

Og þótt það geti virkað snjöll strategía á tímum svekkjandi fylgiskannana að sækja fylgisaukningu með einföldu loforði um að hata útlendinga meira en kjósendur flokksins þá er enginn stjórnmálamaður svo stór að sá hinn sami sé þess fær að slökkva eldinn áður en illa fer.

En ég kom ekki bara til að lista upp vonleysið. Það væri vítaverð sóun á góðu tækifæri.

Það er til svo fyndin og góð tilvitnun í Stein Steinarr; „… ekki er fremur hægt að endurtaka list hins liðna, en jarðarför, sama hve vel hún hefur heppnazt.“

Við skulum því ekki bara endurtaka hið vonda.

Kæru félagar, gott líf í góðu samfélagi reiðir sig á heilindi og samstöðu. Gunnar Hersveinn segir í bókinni Orðspor að við séum ekki fullgert fólk fyrr en við finnum hjá okkur knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra. Þarna finnst mér Gunnar lýsa neista samfélagssáttmálans.

Við erum ekki fullgert samfélag fyrr en við finnum hjá okkur knýjandi þörf til að tryggja lífshamingju allra.

Fyrr en við sameinumst um að byggja og styrkja stofnanir sem tryggja réttarríkið og passar að öllum sé jafnt gefið erum við ekki fullmótuð. Stofnanir sem tryggja að leikreglurnar hemji það versta og magni upp það besta. Reyni eftir bestu getu að koma í veg fyrir óréttlæti og spillingu áður en þau skella eins og flóðbylgja á þá sem veikustu varnir hafa.

Og þegar forvarnir og fyrirhyggja nægja ekki, linna ekki látunum fyrr en réttlæti er tryggt. Góð gildi hafa náð vopnum sínum aftur.

Um þetta skulum við sameinast. Heilindi, gagnsæi og hugrekki.

Ísland þarf sterka og sjálfstæða stofnun sem telur baráttuna gegn spillingu sinn kjarna.

Og þótt við höfum of lengi leyft græðginni og skort á samkennd að móta leikreglurnar þá getum við tekið höndum saman. Kæft græðgina og rutt braut samkenndar.

Heilindin eru nefnilega bæði einstaklings- og hópíþrótt. Samstaða góðs fólks um góð gildi þarf til að smita umhverfið svo kerfið magni upp heilindi og verðlauni þá sem yfir henni búa.

Upphafið er einstaklingsíþrótt. Sigurinn er hópíþrótt.

Umhverfi sem verðlaunar heilindi og fagnar einstaklingum sem trúa á eitthvað stærra og meira en sig sjálfan er hópíþróttin.

Íslandsdeild hefur áður biðlað til allra um að sameinast breiðfylkingu allra sem vettlingi geta valdið gegn spillingu. Breiðfylking samstöðu, heilinda og hugrekki.

Líf annarra er líklega áhrifamesti skáldskapur sem skrifaður hefur verið um Stasi. Hún segir sögu persóna sem kerfið kúgar hvert með sínum hætti. Leikskálds í Austur-Þýskalandi, fulltrúa Stasi og allra sem á vegi þeirra verða. Báðir reka þeir sig á eigin prinsipp. Og eins og við þekkjum öll sem viljum standa með eigin prinsippum þá rekast þau stundum hvert á annað. Prinsippfesta er innri átök. Þau nuddast hvert við annað.

Í lífi annarra fullmótast HGW XX/7, njósnari Stasi, sem persóna. Í stað þess að gangast óréttlætinu á hönd skáldar hann kaflana í lofsöngsleikriti til flokksins í njósnaskýrslurnar svo skáldið geti frjálst sagt frá óréttlæti samfélagsins.

Líf annarra er skáldskapur. HGW XX/7 er ekki til og var aldrei til. Kerfið var skipulagt þannig að HGW gat ekki verið til. Líf annarra dregur fram sorglegar afleiðingar þess að hann átti sér aldrei viðreisnar von. En þrátt fyrir að HGW sé skáldskapur hefur hann orðið til þess að ísraelskir hermenn gerðu uppreisn og neituðu að taka þátt í ofbeldi gegn Palestínu. Myndin hafði mótandi áhrif á Snowden og Daniel Ellsberg.

Sameinumst um vonina og tryggjum að HGW sé ekki aðeins skáldskapur.

Líf annarra er þannig sónata til góðs fólks. Kveikur heilinda.

Stöndum saman gegn spillingu.