Hugleiðingar á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Þema dagsins þetta árið er #BalanceForBetter – kynjajafnvægi skapar betra samfélag.

Af þessu tilefni er við hæfi að velta fyrir sér hvernig spilling hefur mismunandi áhrif á kynin og hvort kynjaójafnvægi sé jafnvel spilling í sjálfu sér. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að spilling kemur harðast niður á viðkvæmum hópum á borð við konur og fátækt fólk, en þeir hópar hanga saman þar sem konur eru líklegri til að vera fátækari en karlar. Konur eru líka útsettar fyrir sértækum formum spillingar á borð við þrýsting um kynlífsgreiða í skiptum fyrir þjónustu. Rannsóknir sýna að það er óumdeilt að aukin kvenréttindi og þátttaka kvenna bæta stjórnarfar og draga úr spillingu enda er aðkoma allra mikilvæg upp á aðhald með valdi.

Á Íslandi hefur á mörgum sviðum náðst góður árangur í að draga úr kynjaójafnvægi, til dæmis á Alþingi og í sveitarstjórnum, þar sem hlutfall kvenna meðal kjörinna fulltrúa nálgast gjarnan helming eða fer jafnvel ofar. Í viðskiptalífinu er þó enn verk að vinna, en ný úttekt Kjarnans sýnir að þar halda karlar enn þéttingsfast um valdataumana. Skemmst er síðan að minnast þess að verkfall húshjálpa á hótelum og gistiheimilum, sem í miklum meirihluta eru konur, setur mark sitt á 8. mars þetta árið. Bylting verkalýðshreyfingarinnar er ekki síst kvennabylting, þar sem konur eru í meirihluta þeirra sem vinna lægst launuðu störfin.

Hin alþjóðlega #metoo-hreyfing hefur síðan skekið alla kima íslensks samfélags og varpað ljósi á hvernig karlar í hinum ýmsu valdastofnunum beita sér til þess að halda konum niðri. Hér á Íslandi hafa meðal annars stjórnmálakonur, konur í íþróttum, konur af erlendum uppruna og konur í ýmsum fagstéttum gefið út frásagnir af þessu misrétti. Samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var í maí í fyrra töldu rúmlega 70% þjóðarinnar að #metoo-umræðan hafi haft jákvæð áhrif á samfélagið.

Umræðan tók óvæntan snúning þegar fjölmiðlar birtu valda kafla úr samtali nokkurra þingmanna á barnum Klaustri, karlmanna ásamt einni konu, úr Miðflokknum og Flokki fólksins. Samtalið snerist að stórum hluta um að hygla sjálfum sér með niðrandi tali í garð kvenna. Málið dró nokkurn dilk á eftir sér og leiddi meðal annars til þess að karlarnir í hópnum eru núna allir í sama þingflokki sem telur átta karla en eina konu. Áður hafði það einmitt vakið athygli að í þingkosningunum 2017 lækkaði hlutfall kvenna á þingi töluvert, fyrst og fremst vegna ójafnra kynjahlutfalla í þessum tveimur flokkum, sem komu þá nýir inn. Fjöldi kvenna fór úr 30 (nálægt helmingi) niður í 24 (undir 40%) en samanlagt í þessum flokkum voru tveir þingmenn af ellefu konur. Þannig mætti líta á Klaustursmálið sem ákveðna afleiðingu af bakslagi í kynjajafnvægi – og viðbrögð þingmannana við málinu sem vísvitandi viðleitni til að styrkja stöðu sína með auknu ójafnvægi í stað þess að bregðast við ákalli um afsögn eða bætta hegðun.

Halldór Auðar Svansson