Stjórn Transparency hvetur þingmenn, fjölmiðla, uppljóstrara og aðra þá sem lagt geta gagnsæi lið að gera sitt til að tryggja birtingu Lindarhvolsskýrslunnar.

Stjórn Transparency International á Íslandi furðar sig á ákvörðun stjórnarliða á Alþingi, síðastliðinn mánudag, að halda upplýsingum frá almenningi. Sú niðurstaða er sláandi dæmi um leyndarhyggja núverandi ríkisstjórnar og ógagnsæi í störfum hennar.

Stjórn Transparency hvetur þingmenn, fjölmiðla, uppljóstrara og aðra þá sem lagt geta gagnsæi lið að gera sitt til að tryggja birtingu Lindarhvolsskýrslunnar. Það er réttur almennings að leyndarhyggju um sölu ríkiseigna ljúki.

Skýrsla setts ríkisendurskoðanda fjallar um sölu og meðferð eigna sem komust í hendur ríkisins eftir bankahrunið á Íslandi 2008, og sendi hann hana umbjóðanda sínum, Alþingi í heild sinni, og ætti hún augljóslega að komast í hendur allra þingmanna.

Komið hefur fram að fulltrúar allra flokka í forsætisnefnd hafi greitt atkvæði með birtingu hennar. Það er því óskiljanlegt að meirihluti þingsins hafi greitt atkvæði gegn fyrirspurn til forseta Alþingis þegar reynt var að knýja fram því hvers vegna hann beitti neitunarvaldi sínu gegn ákvörðun forsætisnefndar.

Stjórn Transparency International á Íslandi harmar athæfi stjórvalda og afstöðu meirihluta Alþingis og telur það vera merki um frumstæða stjórnsýslu sem samræmist engan veginn eðlilegum kröfum um gagnsæi við meðferð opinberra eigna. Slík vinnubrögð grafa undan trausti almennings á stjórnvöldum.

Stjórn Transparency International á Íslandi