Vernd uppljóstrara: Er hætta á undanhaldi?

Drög að frumvarpi um vernd uppljóstrara voru birt á samráðsgátt stjórnvalda snemma í mars. Í greinargerð er rakin saga umræðu um málið. Þar er fyrst nefnd þingsályktun frá 2010 sem felur ríkisstjórninni að leita leiða til að tryggja vernd heimildarmanna og afhjúpenda. Síðan þá hafa þingmenn nokkrum sinnum flutt frumvörp um vernd uppljóstrara. Loks er rétt að nefna að í lögum um Umboðsmann Alþingis sem samþykkt voru í desember sl. er þeim sem veita Umboðsmanni upplýsingar tryggð vernd.

Markmið hinnar nýju lagasetningar er að fylgja ráðum alþjóðastofnanna og framkvæmd í nágrannaríkjum sem veita uppljóstrurum besta vernd. Lögin eiga einnig að taka til þeirra sem veita ríkisendurskoðenda og Vinnueftirliti ríkisins upplýsingar. Heildarlöggjöf um slíka vernd er í gildi m.a. í Svíþjóð, Noregi og Bretlandi.

Einungis ein umsögn barst um drögin, en samráðsfrestur rann út 21. mars. Umsögnin var frá Samtökum atvinnulífsins. Efnislegar athugasemdir benda til þess að SA óttast að starfsmenn fyrirtækja muni misnota lögin. Auðvitað getur alltaf verið hætta á misnotkun en ekki má gera of mikið úr henni og láta hana þannig standa í vegi fyrir réttarbótum eins og þeim sem lög um um uppljóstrara hefðu í för með sér.

Samtök atvinnulífsins leggja til að stjórnvöld fresti því að leggja frumvarpið fram. Frumvörp til laga fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi, þau eru send út til umsagnar og rædd í fastanefndum þingsins. Mikil vinna við efnið er eftir þegar frumvarp er lagt fram á þingi.

Lög um vernd uppljóstrara ganga almennt út á að sá sem í góðri trú greinir frá spillingu, ólögmætum ráðstöfunum eða annarri ámælisverðri háttsemi í starfsemi opinberra aðila eða hjá einkaaðilum skuli njóta verndar gegn óréttmætum aðgerðum í hans garð, til að mynda uppsögn úr starfi eða skerðingu á réttindum vegna uppljóstrana sinna. Þess er réttilega getið í greinargerð með frumvarpinu að lög um vernd uppljóstrara geta aðeins veitt takmarkaða vernd. Markmið þeirra er að lágmarka tjón og þjáningar sem einstaklingar geta orðið fyrir vegna uppljóstrana. Lög geta ekki komið í veg fyrir allar neikvæðar afleiðingar uppljóstrunar.

Gagnsæi hvetur stjórnvöld til að leggja frumvarpið fram á þessu þingi, eins og gert er ráð fyrir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

 

Valgerður Bjarnadóttir