Spillingarásýndarlistinn 2024 – Ísland á topp tíu aftur
Ísland stekkur aftur inn á topp tíu lista yfir minnst spilltustu ríki í heimi eftir langt fall. Ísland hækkar sig mest allra ríkja á „Corruption perception index“ Transparency International og er nú skyndilega í tíunda til tólfta sæti. Samkvæmt lista síðasta árs (2023) var Ísland í 19-sæti, eftir hátt og stöðugt fall frá Hruni þegar fjármálaspilling á heimsmælikvarða afhjúpaðist.
Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða mat alþjóða viðskiptalífs á íslensku samfélagi frá sjónarhóli réttar, viðskipta og lýðræðis.
Ekkert stórt spillingarmál sambærilegt við Namibíumál Samherja eða einkavæðingu Íslandssíma kom upp árið 2024 og það bætir stöðu Íslands, ásamt því að sá matsaðili sem hefur gefið Íslandi lægstu einkunnina metur landið ekki í ár. Erfitt er að greina hvað annað gæti hafa snarhækkað Ísland á listanum en hugsanlegt er að aukið framlag til einkarekinna fjölmiðla hafi verið mikils metið sem styrking á lýðræðinu.
Staðan nú er sérstaklega góðar fréttir fyrir íslenskt viðskiptalíf. Ásýndarlistinn, þekktasta spillingarvísitala í heiminum, skiptir verulegu máli efnahagslega. Alþjóðleg greiningarfyrirtæki horfa til listans þegar þau leggja mat á áhættu í viðskiptum, meðal annars Moody‘s. Smávægileg breyting á vaxtaálagi varðar Ísland miklu enda hefur landið lengi barist við sérstakt vaxtaálag, „Íslandsálagið“, vegna vantrausts sem rekja má til spillingar. Til mikils er að vinna að alþjóðleg ásýnd Íslands hreinsist af spillingarstimplinum. Ef það á að takast þarf stöðuga árvekni, þekkingaruppbyggingu og markvisst aðhald að stjórnvöldum og mörkuðum.
Ísland er enn töluvert neðar en Norðurlöndin í einkunnargjöf, fær 77 stig (áður 72) af 100 en Danmörk trónir efst með 90 stig. Það er fyrst og fremst pólitísk spilling sem dregur Ísland niður. Traust til þeirra stofnana sem eru mikilvægastar í baráttu gegn fjármálaspillingu mælist enn lítið á Íslandi sem bendir til þess að munurinn á milli Íslands og Norðurlandanna sé í raun enn meiri og vandinn djúpstæður.
Barátta Transparency í ár er sérstaklega tileinkuð umhverfisverfisvá og af því tilefni leggur Íslandsdeildin til að stjórnvöld, fyrirtæki og félagasamtök hefji nú þegar átak til rannsóknar á spillingu í kringum laxeldi í sjó.
Samkvæmt Transparency International er spilling almennt að aukast í heiminum eftir nokkuð langt tímabil framfara. Sérstaklega veldur áhyggjum uppgangur valdshyggju (authoritarianism) svo stefnir í að opinberu valdi verði beitt grófar og grimmar en hefur sést á Vesturlöndum síðan í seinni heimsstyrjöld.
Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikilvægt að berjast gegn spillingu, markvisst í skipulegum samtökum á heimsvísu.