Samþykktir

Samþykktir

Samþykktir Transparency International á Íslandi

Spilling eykur fátækt í heiminum. Spilling grefur undan lýðræði og vernd mannréttinda, veikir hagkerfi, hefur skaðleg áhrif á viðskiptalíf og fjárfestingar, veikir stjórnsýslu og eyðir trausti á opinberum stofnunum. Því þarf að vinna gegn spillingu hvar sem hún birtist. 

1. gr. Nafn, félagsform og heimili

Félagið er almennt félag. Nafn þess er Transparency International á Íslandi.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur

2.1 Tilgangur Transparency International á Íslandi er að vinna með margvíslegum hætti gegn spillingu með því að auka þekkingu í íslensku samfélagi á einkennum og aðstæðum sem geta hvatt til spilltrar hegðunar og efla almennan skilning á afleiðingum spillingar. Félagið mun starfa í samræmi við markmið og grunngildi alþjóðlegu hreyfingarinnar Transparency International (skammstafað TI), sem á höfuðstöðvar í Berlín í Þýskalandi og samanstendur af tengdum félögum er vinna gegn spillingu.

2.2 Tilgangur Transparency International á Íslandi er að stuðla að áreiðanlegri greiningu á spillingu og spillingarhvötum í íslenskum aðstæðum meða aðild að Transparency International.

3. gr. Starfsemi

Tilgangi sínum hyggst Transparency International á Íslandi ná með því að

  • halda fræðslufundi og ráðstefnur,
  • stuðla að vísindalegum rannsóknum, mati á heilindavísum, spillingarhvötum og spillingarvörnum,
  • þýða og miðla upplýsingum og góðum fyrirmyndum (“best practices”),
  • hafa frumkvæði að opinni og upplýstri umræðu um heilindi í stjórnsýslu og samfélagi og skipulagðar spillingarvarnir,
  • taka þátt í innlendu sem alþjóðlegu samstarfi um heilindi, eftirlit og greiningu,
  • hvetja til gagnsærrar ákvarðanatöku í opinberri stefnumótun, gagnsæi í stjórnun og samskiptum, og árvekni gagnvart spillingu og spillingarhættum,
  • Starfa í samræmi við  aðildarskilyrði TI. 

4. gr. Félagsaðild og félagsgjald 

4.1 Félagar í Transparency International á Íslandi skiptast í (a) félaga, (b) styrktaraðila og (c) heiðursfélaga. Orðin “félagi” og “félagar” í Samþykktum þessum eiga ekki við um styrktaraðila eða heiðursfélaga nema annað sé sérstaklega tekið fram.

(a) Félagar

Félagar í Transparency International á Íslandi geta þeir einstaklingar orðið sem deila sýn félagsins og styðja markmið þess og grundvallargildi, en þau eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu Transparency International (“A statement of vision, values and guiding principles for Transparency International”). Einstaklingar geta skráð sig sem félagar með því að greiða árlegt félagsgjald eins og það er ákvarðað af stjórn hverju sinni.

Aðeins félagar sem greitt hafa árlegt félagsgjald hafa atkvæðisrétt á fundum og eru kjörgengir til stjórnar félagsins.

Félagsaðild fellur niður (a) ef félagsgjöld eru ekki greidd; (b) þegar kröfur til félagsaðildar eru ekki lengur uppfylltar; eða (c) við brottvikningu sem stjórn samþykkir með tveimur þriðju greiddra atkvæða. Ákvörðun um brottvikningu má skjóta til aðalfundar.

(b) Styrktaraðilar

Lögaðilar, fyrirtæki á vegum einkaaðila eða opinberra aðila, samtök og félög, hvers kyns aðilar í viðskiptum, lánastofnanir og opinberar stofnanir geta gerst styrktaraðilar Transparency International á Íslandi til eins árs í senn. Styrktaraðilar láta félaginu í té fjármagn eða sérstaka aðstoð til að vinna að markmiðum þess. Styrktaraðilar eiga rétt á upplýsingum um starf Transparency International á Íslandi og mega sækja félagsfundi en hafa ekki atkvæðarétt og eru ekki kjörgengir til stjórnar. Stjórn Transparency International á Íslandi ákveður árlega upphæð styrktargjalda og birtir á heimasíðu sinni.

Styrktaraðild má segja upp hvenær sem er af styrktaraðilanum sjálfum eða stjórn Transparency International á Íslandi.

(c) Heiðursfélagar

Heiðursfélagar eru einstaklingar sem hafa innt af hendi einstaka þjónustu í þágu félagsins og gegn spillingu í samfélaginu. Stjórn Transparency International á Íslandi, eða ekki færri en tíu félagar, geta lagt tilnefningu um heiðursfélaga fyrir aðalfund. Heiðursfélagar skulu samþykktir af aðalfundi með tveimur þriðju greiddra atkvæða.

Heiðursfélögum er ekki skylt að greiða félagsgjald.

4.2 Ákvörðun um upphæð árlegra félagsgjalda skal tekin á aðalfundi, samkvæmt tillögu frá stjórn. Gjalddagi félagsgjalda er eigi síðar en tveimur mánuðum eftir aðalfund hvers árs. 

5. gr. Starfsár 

Starfsár félagsins er almanaksárið.

6. gr. Aðalfundur og félagsfundir

6.1 Aðalfundur Transparency International á Íslandi fer með æðsta vald í málefnum félagsins.

6.2 Aðalfund skal halda á öðrum ársfjórðungi ár hvert. Stjórnin undirbýr aðalfund og ákveður dagsetningu hans. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

Stjórnin getur boðað til félagsfunda milli aðalfunda með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.

6.3 Í fundarboði til aðal- og félagsfunda skal geta dagskrár en auk þess skulu tillögur félaga fylgja fundarboðinu.

6.4 samþykktum Transparency International á Íslandi má aðeins breyta á aðalfundi, að tillögu stjórnar. Tíu félagar geta lagt fram tillögur til breytinga á samþykktum eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Breytingar á samþykktum teljast samþykktar hljóti þær samþykki tveggja þriðjuhluta mættra félaga. Tillögur stjórnar og félaga um breytingar á samþykktum Transparency International á Íslandi skulu fylgja fundarboði til aðalfundar. Aðrar breytingar á samþykktum verða ekki teknar fyrir.

6.5 Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirtaldir liðir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar og reikningar
  3. Stefnuskrá og starfsáætlun til næsta aðalfundar
  4. Kjör stjórnarmanna.
  5. Kjör skoðunarmanns reikninga félagsins.
  6. Önnur mál

Bera skal einstaka dagskrárliði undir atkvæði fundarmanna til samþykkis eða synjunar.

6.6  Einfaldur meirihluti mættra félaga ræður úrslitum mála á aðalfundi og félagsfundum nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum.

7. gr.Stjórn

7.1 Stjórn Transparency International á Íslandi fer með málefni félagsins milli aðalfunda.

7.2 Stjórnin skal skipuð formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og þremur meðstjórnendum. Formaður og varaformaður eru kjörnir sérstaklega á aðalfundi en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

7.3 Þeir félagsmenn Transparency International á Íslandi hafa kosningarétt og kjörgengi til stjórnar sem eru skuldlausir við félagið á aðalfundi.

7.4 Formaður skal ekki sitja lengur en fjögur ár í senn.

7.5 Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Verði sæti formanns laust tekur varaformaður sæti hans út kjörtímabilið og skal stjórn kjósa sér nýjan varaformann á næsta stjórnarfundi eftir að sæti formanns verður laust.

7.6 Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi ár hvert. Fjórir stjórnarmenn til tveggja ára eitt árið og þrír til tveggja ára hið næsta.

7.7 Stjórn fylgir eftir lögum, samþykktum og stefnu Transparency International á Íslandi og er í fyrirsvari fyrir félagið út á við. Stjórn tekur ákvarðanir um öll mál er varða daglega starfsemi félagsins í samræmi við samþykktir þessar og stefnuskrá félagsins. Hún gerir félagsmönnum grein fyrir störfum sínum og ber undir þá mikilvæg stefnumótandi mál.

7.8 Ef efni standa til má stjórn ráða starfsmann til að annast daglegan rekstur Transparency International á Íslandi. Stjórnarmenn starfa launalaust.

7.9  Formaður boðar stjórnarfundi og gerir svo eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan fimm daga frá því að ósk þess efnis er sett fram. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. Stjórnarmenn geta sótt fundi símleiðis eða gegnum netsamband.

7.10 Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8. gr. Sérskipaðar nefndir og vinnuhópar

Stjórn er heimilt að skipa tímabundið nefndir eða vinnuhópa um einstök málefni eða málaflokka. Stjórn gefur út skipunarbréf til fulltrúa í slíkum nefndum eða vinnuhópum, þar sem meðal annars koma fram starfsskyldur, skipunartími og umboð til nefndarstarfa.

9. gr. Fjárhagur og endurskoðun

Fjárhagur Transparency International á Íslandi samanstendur af félagsgjöldum, styrkjum, gjöfum, vöxtum og tekjum fyrir unnin verkefni. Uppgerða reikninga skal leggja fyrir kjörinn endurskoðanda félagsins ásamt fylgiskjölum, minnst fjórum vikum fyrir aðalfund.

Rekstrarafgangi af starfsemi Transparency International á Íslandi skal varið í  rekstrar- og uppbyggingarsjóð til komandi ára og til að mæta rekstrartapi sem kann að verða.

10. gr. Slit félagsins

Aðeins aðalfundur getur ákveðið að slíta félaginu að fengnu samþykki tveggja þriðju hluta þeirra félaga sem mættir eru á aðalfundi.

Þær eignir sem gætu verið til ráðstöfunar við slit félagsins skulu renna óskiptar til Transparency International.

Samþykktir þessar voru samþykktar á stofnfundi Transparency International á Íslandi, þann 27. maí 2021 og öðlast þegar gildi.