Spyrjandi:
Er spilling að huga ekki að framtíðinni ef aðstæður breytast hratt. Og þá á ég við í stjórnmálum? Eða er það bara vanræksla?
Svar:
Það að huga ekki að framtíðinni þegar aðstæður eru að breyst hratt má kalla óvarkárni í besta falli, en í versta falli, eins og þú segir, vanrækslu. Svo kunna ýmis stig að vera til þarna á milli, t.d. ef mönnum er ljóst að aðstæður eru óstöðugar og breytingar eða jafnvel sviftingar nokkuð fyrirséðar, en ákveða engu að síður að taka lítið eða ekkert tillit til þess í ákvörðunum, þá er það ábyrgðarleysi. Aftur á móti, ef staðgóðar vísbendingar benda nokkuð eindregið til þess að aðstæður kynnu að breytast hratt í náinni framtíð og ekki er tekið tillit til þess við ákvarðanir í málum er varða almannahag, en þess í stað ýmsum brögðum eða orðræðu beitt til að tóna niður eða afneita þeim vísbendingum, þá er það blekking sem beinist að almenningi og hagsmunum almennings. Slík blekking í þróuðum lýðræðisríkjum fengi skilgreininguna “brot gegn almennu trausti” og myndi því flokkast sem hin nýja tegund spillingar. Blekking af þessu tagi veldur hvað mestum skaða á almannahagsmunum ef og þegar hún nær svo langt að fá stuðning nægilega margra innan stjórnmálakerfisins til að fá þar einhvers konar stöðu sem “viðtekin sannindi”, því þá má segja að spillingin verði kerfislæg. Þegar stjórnmálamenn komast upp með að blekkja þá mynda þeir “þanþol” og ný viðmið um það hvað er hægt eða mögulegt verða til. Það virkar þannig að “þanþolið” gefur merki um að spillt hegðun getur virkað og, það sem meira er, “borgað sig” fyrir þann sem vill halda stöðu sinni og/eða komast áfram með sínar fyrirætlanir án þess að láta önnur sjónarmið trufla eða standa í vegi fyrir þeim fyrirætlunum. Þó slíka hegðun megi aðeins rekja til fárra einstaklinga, þá hefur spillt hegðun, sem borgar sig með þessum hætti tilhneigingu til að ágerast. Mikilvægt er þó að átta sig á því að líkt og með spillingu þá er erfitt ef ekki ómögulegt að rannsaka fyrirætlanir einstaklinga eða hópa (e. strategic intent), vegna þess að mönnum reynist oftast auðvelt að búa svo um hnútana að geta afneitað slíkum fyrirætlunum (t.d. plausible deniability). En þar sem við erum að tala hér um spillingu í lýðræðisríkjum sem fær þá skilgreiningu að vera “brot gegn almennu trausti”, þá virkar almennt traust þannig að það gerir ekki greinarmun á ásýnd og reynd, þess vegna skiptir í raun ekki máli hvort spillt hegðun sannist á stjórnmálamann eða ekki; hafi hegðun stjórnmálamannsins á sér ásýnd spillingar þá er skaðinn skeður. Traustið gagnvart stjórnmálamanninum hefur beðið alvarlega hnekki. Vantraust gagnvart einum stjórnmálamanni getur hæglega yfirfærst á “alla” eða næstum alla stjórnmálamenn og þannig verður vantraust meðal almennings gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum kerfislægt.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur PhD.Lektor í opinberri stjórnsýslu
/ Lecturer/Assistant Professor of Public Policy Analysis and Governance