Borgunarmálið út frá „heilindum kerfisins“

Það eru nokkur atriði sem hafa afhjúpast í Borgunarmálinu, sem fengju falleinkunn
í heilindaprófum stjórnkerfa, sem gerð eru af óháðum samtökum  og stofnunum víða um heim. Þessi próf eru gerð  aðallega í praktískum tilgangi  til þess m.a. að leggja mat á viðskiptalega áhættu  í löndum og hversu fýsilegt það er að eiga viðskipti við þessi lönd.BjarniBen

 

 

Alþjóðlegar stofnanir nýta sér einnig þessar upplýsingar m.a. til að styrkja eigin rannsóknir sem eru undanfari  alls kyns „rating“ eða stigagjafar á öllu mögulegu og ómögulegu, er viðkemur viðskiptum og stjórnunarlegum tengslum landa.

Standard&Poor, Moody´s og Fitch  og  allir þvílíkir, reiða sig nefninlega ekki eingöngu á eigin greiningardeild, heldur verða þeir að  leita víða gagna og upplýsinga. Enginn eldri en þrítugur er  búinn að gleyma AAA+ greiningunni, sem íslenska efnahagskerfið fékk, korteri fyrir 6. október 2008. Líklega hefur greiningarkerfi þeirra farið í gegnum gagngera endurskoðun, rétt eins og fjármálaáfallapróf FME og Seðlabanka, enda þurftu þessi fyrirtæki og þessar stofnanir að hefja rústabjörgun til að bjarga eigin trausti og trúnaði, í kjölfar hrunsins.

Eftirmáli þessa dags var sá í stórum dráttum, að langflestir meðal persóna og leikenda í kerfinu, stigu á stokk, mismunandi háa, og sögðust myndu læra mikið af hruninu, þeir allra hróðugustu töldu að þjóðin myndi draga mikinn lærdóm af hruninu, svo mikinn að annað eins og það sem viðgekkst og lýst er á 301 bls. Í 8. Bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis  um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna myndi Mastercardaldrei gerast á Íslandi í framtíðinni eða jafnvel hvergi í öllum heiminum.

En svo kom Borgun, og það er algjörlega óþarfi að tíunda málavexti, svo vel sem þeir hefur verið gerð skil í fjölmiðlum síðustu vikur og mánuði.

Það eru einkum eftirfarandi atriði sem valda því að heilindi stjórnkerfisins fær falleinkunn á alla mögulega mælikvarða á heilindavísum stjórnkerfa.

a) Lokuð sala á ríkiseign. Bankastjóri Landsbankans segir að vegna skorts á „fullnægiandi upplýsingum“ sem krafist er í opnu söluferli, var ekki stætt á því að selja hlutinn í opnu söluferli. Ég bið lesandann að lesa þetta aftur yfir, og leggja mat á trúverðuleika allra aðila um leið. Flestir spyrja sig; Af hverju voru þá ekki fengnir óháðir aðilar til að greina þessar upplýsingar svo ferlið gæti verið opið og gagnsætt?

b) Upplýsingar um markaðsverðmæti fyrirtækisins koma frá væntanlegum kaupendum, og skv. a) voru þær metnar ófullnægjandi til að standast kröfu opins markaðar.

c) Væntanlegir kaupendur eru tengdir fjármálaráðherra sterkum fjölskylduböndum, auk þess sem allir aðilar sem tengjast fyrirtækjunum hafa verið í „þessum hefðbundnu hagsmuna-vina-vinnu tegnslum“ í áraraðir.

d) Það er mikilvægt í lýðræðisríki að ráðherra og æðstu embættismenn njóti  trausts og trúverðugleika. Brot á trausti og glataður trúverðugleiki geta valdið varanlegum skaða í stjórnkerfinu og á almennri trú á lýðræðið.

Embættismönnum og æðstu ráðamönnum  ber því sérstaklega rík  skylda til að vinna að heilindum í störfum sínum svo hvergi beri skugga á trúverðugleika þeirra gagnvart almenningi.

Í Borgunarmálinu kom fram alvarlegur dómgreindarbrestur og merki um skeytingarleysi gagnvart almennri kröfu um trúverðugleika í opinberu embætti; Fjármálaráðherra hefur ítrekað borið af sér öll tengsl við söluna á Borgun, enda sé það hlutverk Bankasýslunnar að slíta meint tengsl ráðherra og ríkisstjórnar, þegar kemur að „töku tvö“ í sölu (einkavæðingu) banka á Íslandi. Sannleiksskylda ráðherra er að vísu ekki opinberlega skráð í stjórnarskrá ennþá, en gefum okkur að fagnandi viðbrögð við þessu ákvæði þýði að það sé nú nokkuð augljóst að sú skylda sé virt í hvívetna og í reynd.  Hvers konar framkoma og trúnaðarbrestur gagnvart fjármálaráðherra átti sér þá stað, þegar Landsbankastjóri og Bankasýslan ákváðu að selja hlutinn bak við lokaðar dyr, vitandi það að slíkt myndi geta skaðað  trúverðugleika ráðherrans? Ef ég væri fjármálaráðherra væri ég búinn að lýsa yfir trúnaðarbresti við þessa æðstu yfirmenn, og bjóða þeim kodda, sæng og staf.

Það er fyrirsjáanleiki og heilindi í stjórnkerfinu sem þarf að efla. Við munum aldei geta komið í veg fyrir breyskleika eins og dómgreindarbrest, trúnaðarbrest eða spillingu, en kerfið þarf að bregðast rétt við og nákvæmlega eins í hvert sinn, alveg sama hvaða flokkur, maður, kona, félag er við að etja. M.ö.o. viðbrögð kerfisins þurfa að endurspegla bæði samkvæmni og sanngirni.

Á hádegisfundi nýverið sem bar yfirskriftina: „Einkavæðing bankanna –taka tvö“ eru orð Salvarar Nordal einnar af höfundum 8.bindis Rannsóknarskýrslu Alþingis afar hugstæð og sönn: „Íslendingar munu ekki geta höndlað annað klúður í einkavæðingu.“

Jenny

Höfundur er formaður Gagnsæis, félagasamtaka fólk sem berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins.