Yfirlýsing vegna mótmælafundar laugardaginn 23. nóvember

Næsta laugardag, þann 23. nóvember, verða haldin mótmæli á Austurvelli undir yfirskriftinni Lýðræði ekki auðræði—Auðlindirnar í okkar hendur! Tilefni mótmælanna er afhjúpun svonefndra Samherjaskjala, sem sýna fram á meiriháttar spillingu í starfsemi eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins á erlendri grundu.

Stjórn Gagnsæis telur fulla ástæðu til að almenningur bregðist við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin með því að láta í sér heyra og gera skýrar kröfur um umbætur. Við erum enn á ný minnt á skort á eftirliti, skort á vernd uppljóstrara og skort á gagnsæi hvað varðar hagsmunatengsl í íslenskri stjórnsýslu. Málið varpar skýru ljósi á óhófleg ítök stærri fyrirtækja og hagsmunaðila í stjórnmálum og stjórnsýslu sem eiga rætur sínar að rekja til veikra varna gegn spillingu.