GRECO skammar íslensk stjórnvöld fyrir slór og hægagang.
Ísland er meðlimur í Greco (Group of states against Corruption) samtökum innan Evrópuráðsins, sem er hópur ríkja sem berst gegn spillingu. Stofnunin fyrirskipar tillögur um úrbætur, sem eiga að styrkja varnir gegn spillingu og setur tímamörk um innleiðingu úrbóta. Fjórða matsumferð fyrir Ísland fór fram í mars 2013, og voru þá settar 10 tillögur til úrbóta, sem innleiða skyldi næstu tvö ár.
Í úttekt sinni sem gefin var út 1. apríl s.l. kemst GRECO að þeirri döpru niðurstöðu að Ísland hafi í engu framfylgt þeim tíu tillögum, sem settar voru fram, og hefur nú beitt enn frekari þrýstingi um að ráðist verði strax í framkvæmdir og fyrirskipar skýrslu þar um eins fljótt og hægt er og ekki síðar en 30. september n.k. GRECO vill að skýrslan verði þýdd á íslensku svo almenningur geti kynnt sér stöðu mála.
Tillögurnar tíu:
- Siðareglur verði settar fyrir alþingismenn
- Alþingi krefjist yfirlýsingar frá þingmönnum um hagsmunaárekstra í málsmeðferð einstakra þingmála, þegar hagsmunatengsl einstakra alþingismanna koma upp í tengslum við þingmál.
- Hagsmunaskráning þingmanna innifeli upplýsingar um eignir og skuldir (aðrar en hefðbundin húsnæðislán) og fjárhæð þeirra og að skráning nái einnig til maka þingmanna.
- Eftirfylgni hagsmunaskráningar sé virk og að viðurlög séu sett vegna þeirra sem ekki uppfylla reglur eða fara á svig við þær.
- Endurskoðun fari fram á vali Hæstaréttardómara og sérfræðidómurum til að tryggja sjálfstæði, hlutlægni og gagnsæi dómsframkvæmda
- Að settir séu staðlar um faglega framkvæmd með raunverulegum dæmum í dómskerfinu og að dómarar fái fullnægjandi þjálfun og ráðgjöf um siðferði, heilindi og hvernig verjast skuli hagsmunaárekstrum.
- Að starfsöryggi allra saksóknara verði tryggt með lögum
- Kynna möguleika á því að ákvörðun saksóknara á frumrannsóknarstigi verði hægt að áfrýja
- Að sett verði kerfi sem eflir sjálfstæði og hlutlægni ákvarðana saksóknara á héraðsdómsstigi.
- Að saksóknarar fái viðunandi þjálfun og ráðgjöf um siðferði, heilindi og hvernig verjast skuli hagsmunaárekstrum.
Þrátt fyrir að breyting á dómskerfinu sé hafin með frumvarpi um nýtt dómstig og fækkun lögregluumdæma, telur Greco ferlið svo skammt á veg komið að ekki sé hægt að tala um eiginlega innleiðingu. Greco harmar þennan hægagang og nefnir sem dæmi að tillögur um siðareglur alþingismanna og hagsmunaskráningu hafi verið settar til að styrkja og efla traust almennings á Alþingi, sem hefur verið í mikilli lægð og furðar sig á að ekki skuli vera settur fullur þungi í að þróa og styrkja hagsmunaskráningakerfi Alþingis.
Gagnsæi, samtök gegn spillingu tekur undir þessar alvarlegu ásakanir um slór og hægagang og skorar á stjórnvöld að standa sig betur.