Braggar og blekkingar

Stjórnmálum er stundum lýst sem list hins mögulega. Með því er átt við að til þess að ná pólitískum árangri þurfi fólk oft að beita hugkvæmni og aðferðum sem fara út fyrir prótókolla og reglur – séu ekki einber tækni – heldur einmitt nokkurskonar list. Enda er það stundum þannig að góðir stjórnmálamenn hugsa dálítið eins og listamenn. Hugsa ekki bara „út fyrir boxið“ eins klisjan hljómar, heldur leyfa sér að prófa leiðir og aðferðir sem öðrum gætu við fyrstu sýn virst fráleitar. En list hins mögulega lifir ekki af endurtekninguna. Aðrir ófrumlegri herma eftir og í endurtekningunni verður listin eins og hver önnur klisja. Endurtekningin sogar lífið úr listinni (nema listin sé þá beinlínis látin snúast um endurtekninguna, en það er önnur saga).

Fyrir allmörgum árum ákváðu Bandaríkjaforseti og nánustu ráðgjafar hans að gera innrás í Írak. Þeir vissu vel að forsendurnar fyrir innrásinni voru hæpnar og ólíklegt að innrásaráform yrðu samþykkt hvað þá að hægt væri að réttlæta þau fyrir almenningi ef allar staðreyndir málsins væru kunnar. Þess vegna ákváðu þeir að láta eins og svo væri ekki og halda því fram að verulegar líkur væru á því að Írakar hefðu yfir svokölluðum gereyðingarvopnum að ráða.

Þetta var, eins og við vitum vel í dag, tóm vitleysa. Írakar áttu engin gereyðingarvopn og Bandaríkjastjórn hafði nægar upplýsingar til þess að geta fullvissað sig um það. Það var semsagt ákveðið að hefja innrás á grundvelli röksemda sem byggðar voru á ósönnum staðhæfingum. Stjórnvöld máttu að sjálfsögðu vita að fyrr eða síðar myndi þetta allt koma á daginn, enda leið ekki álöngu þangað til einmitt það gerðist. En matið var (eða hlýtur að hafa verið) að markmiðið væri mikilvægara en tjónið sem hlytist af því að sannleikurinn kæmi á daginn. Markmiðin voru því önnur en þau sem lýst var fyrir almenningi – þótt hér skuli ósagt látið hvort þau höfðu frekar með olíu að gera, hagnað hernaðar- og öryggisfyrirtækja, eða löngun bandarískra stjórnvalda til að treysta valdastöðu sína í Miðausturlöndum.

Það er að sjálfsögðu ekkert nýtt að stjórnvöld blekki almenning og gefi upplognar skýringar á ákvörðunum sínum. Það er þvert á móti bæði algeng og auðskiljanleg freisting – þegar leiðandi stjórnmálamenn vilja afreka eitthvað sem þeir vita að erfitt getur verið að sannfæra fólk um – að þeir grípi til einhvers konar blekkinga. Segjum að forsætisráðherra eða borgarstjóri hafi áhuga á einhverju verkefni sem hann veit að er svo dýrt að erfitt er að ímynda sér að það yrði samþykkt út frá raunhæfri kostnaðaráætlun. Hvers vegna ekki gera óraunhæfa kostnaðaráætlun (ef það er í boði)? Jú vissulega er ekki ólíklegt að sá tími komi þegar kostnaður verkefnisins er kominn langt fram yfir áætlun að það valdi vandræðum, gagnrýni, blaðaskrifum upphrópunum og svo framvegis, en slíkt líður hjá og eftir stendur að verkefninu er lokið því allir vita að það er yfirleitt út í hött að hætta við það sem hundruðum eða þúsundum milljóna hefur þegar verið eytt í.

Braggamálið mikla er líklega í grunninn ekkert annað en eitt svona mál, hvorki það fyrsta né það síðasta og þaðan af síður í fyrsta eða síðasta skipti sem slíkt mál veldur hneykslun og úlfaþyt sem pólitískir andstæðingar að sjálfsögðu notfæra sér til hins ítrasta. Og eins og við er að búast verður það til þess að umræðan um málið snýst um allt annað en það sem skiptir almenning mestu máli þegar til lengri tíma er litið.

Er það gott eða slæmt að stjórnmálamenn komist í raun upp með að byggja ákvarðanir um framkvæmdir sem þeir eru spenntir fyrir á áætlunum sem standast ekki – og sem enginn sem til þekkir gerir ráð fyrir að muni standast?

Svarið við þessu er ekki augljóst. Það getur vel verið að pólitíkin sé einfaldlega og verði þannig áfram að stjórnmálamenn beiti ákveðnum blekkingum þegar það samræmist betur áformum þeirra en að vera fullkomlega heiðarlegir. Það er kannski hluti af list hins mögulega og áhætta sem stundum þarf að taka til að ná árangri.

Annað sjónarmið er að blekkingin, þó hún geti verið djörf, er svo sem engin stórkostleg list. Sá sem beitir blekkingum til að ná árangri er fyrst og fremst að stytta sér leið að marki sem kannski þarfnast þess einmitt að fólk leggi á sig nauðsynlegt erfiði til að sannfæra samherja og almenning.

En hvernig er hægt að koma því aðhaldi á að þetta sé ekki inni í myndinni? Annað hvort þurfa afleiðingarnar að vera meiri og skýrari en nú er, fyrir þá sem í hluta eiga – til að draga úr freistingunni – eða það þarf að herða kröfurnar í upphafi. Það sé til dæmis gerð krafa um raunhæfar áætlanir sem forsendu þess að stór verkefni séu samþykkt, með eftirliti sem mark er takandi á, ríkari útboðsskyldu og svo framvegis.

Braggamálið snýst ekki um hverjum umframeyðslan sé að kenna. Svarið við þeirri spurningu er að minnsta kosti ekki mikilvægasta niðurstaðan. Það sem þarf að tala um er hvernig hægt sé að breyta kerfinu þannig að braggamál komi síður upp. Það hefur ekki skapast mikil umræða um það atriði í málinu enn sem komið er.

Jón Ólafsson