Alþjóðlegur dagur uppljóstrara

Þann 23. júní var hinn árlegi alþjóðlegi dagur uppljóstrara en þetta árið var öðruvísi að því leyti að ekki lengur þarf að skrifa greinar því til stuðnings að vernd uppljóstrara verði lögbundin á Íslandi, eins og fyrir fimm árum síðan þegar þessi pistill ræddi mikilvægi þess að koma á slíkri vernd. Það að taka þátt í umræðunni um þetta augljósa gat (lacuna) í íslenska réttarríkinu var jú eitt af yfirlýstum markmiðum hinna nýju samtaka, er hugðust sækja um aðild, sem íslensk borgaraleg samtök (NGO), að alþjóðlegu gagnsæishreyfingunni Transparency International (TI).

Nú fimm árum síðar, 2020, geta samtökin Gagnsæi (sem hafa nýverið fengið grænt ljós til að kalla sig Íslandsdeild Transparency International í mótun) krossað út þennan tiltekna lið af aðgerðalistanum sínum og yfirlýstum markmiðum og beðið spennt eftir að sjá hvernig íslenska dómskerfið, fjölmiðlar og almannarómur mun koma fram við næsta uppljóstrara. Því ef sá uppljóstrari verður fyrir óréttlátri meðferð í kjölfarið, þá eru núna komin lög á vef Alþingis um að slíkt sé bannað. Ýmsar alþjóðlegar eftirlitsstofnanir á borð við GRECO, OECD, TI og Sameinuðu þjóðirnar, þurfa ekki lengur að minna Ísland árlega á að koma slíkum lögum á bók.

Til hamingju með það, Ísland!