Ákall um gagnsæja ákvarðanatöku á tímum COVID-19

Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 780.000 manns greinst með COVID-19 smit á heimsvísu og tæplega 37.000 látist af völdum kórónaveirunnar. Til að sigrast á þessu neyðarástandi þarf gagnsæi og skilvirkar aðgerðir er miða fyrst og fremst að því að stöðva útbreiðslu veirunnar og takmarka mannfall. Nú þegar er farið að gæta neikvæðra og víðtækra efnahagsáhrifa sem búast má við að risti dýpra en fjármálakreppan mikla sem hleypti eignum og lífsviðurværi milljóna í óvissu og uppnám.

Eftir nokkrar vikur eða mánuði losna þeir úr einangrun sem nú eru í hættu vegna faraldursins. Margir munu syrgja látna ættingja eða vini. Miklum mun fleiri munu hafa misst lífsviðurværi sitt, vinnustað, félagstengsl, eignir og störf.

Hvernig mun sá heimur líta út sem við snúum aftur til? Kemur þá í ljós að yfir okkur ríki stjórnvöld sem á skilvirkan hátt öxluðu hina geysilegu ábyrgð sem fylgir yfirhlaðinni heilbrigðisþjónustu og krísustjórnun í efnahagsmálum? Var gripið til úrræða sem gögnuðust þorra þjóðfélagsþegna?

Fyrir aðeins tólf árum var neyðarúrræðum beitt úr sameiginlegum sjóði vinnandi fólks og starfandi fyrirtækja, ríkissjóði. Um gjörvallan heim eru til sögur og rannsóknir á ójafnri skiptingu bjargráðanna og óréttlátum afleiðingum hrunsins á borgarana. Sögur af bankamönnum sem fengu kaupauka á meðan almenningur bjargaði vinnuveitendum þeirra ollu fólki sárum vonbrigðum. Í kjölfarið spruttu upp pólitískir lýðskrumarar sem fengu byr undir vængi vegna reiði almennra borgara út í víðtækt atvinnuleysi, launaskerðingar, eignabruna og niðurskurð velferðarþjónustu í mörgum löndum.

Margt bendir til að efnahagsafleiðingarnar af útbreiðslu kórónaveirunnar kunni að verða enn sviplegri og djúpstæðari en þær sem heimsbyggðin upplifði fyrir í fjármálakreppunni miklu. Stjórnvöld verða að bregðast við lýðheilsuvánni á samræmdan hátt og mæta fyrirséðu mannfalli og raski á samfélögum með skilvirkum úrræðum fyrir bæði almenning og fyrirtæki sem sæta munu mikilli tekjuskerðingu.

Í þessu andrými fordæmalauss þrýstings og óvissu felst mikil hætta á að ákvarðanataka valdhafa geti stýrst af sérhagsmunasjónarmiðum og verði þeim í hag sem hafa áhrif á dreifingu bjargráðanna. Slík hætta liggur t.d. í kaupum á heilbrigðisaðföngum og hvernig björgunaraðgerðum verður háttað til þeirra atvinnugreina eða fyrirtækja, sem hafa yfir að ráða öflugustu hagsmunasamtökunum, á kostnað annarra sem minni tengsl og afl hafa til að hafa áhrif á stjórnmálamenn.

Hér á Íslandi sjáum við til að mynda dæmi um að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar tók miklum breytingum eftir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á útfærslu á greiðslum til launafólks sem tekur á sig skert starfshlutfall. Það hefur líka verið gagnrýnt að björgunarpökkum til fyrirtækja fylgi litlar skyldur á móti, svo sem að þau láti ekki af hendi eignarhlut á móti fjárframlagi frá ríkinu. Samtalið og aðhaldið er virkt þrátt fyrir neyðarástand og mikilvægt er að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að gæta samráðs, hlusta og bregðast við eins og þeim framast er kostur.

Ákvarðanir stjórnmálamanna sem teknar eru í dag og á næstu misserum verða að byggjast á tölulegum, óhlutlægum mælikvörðum og upplýsingar um ákvarðanirnar þurfa að vera eins gagnsæjar og aðgengilegar og hugsast getur svo að fjölmiðlafólk, almennir borgarar, óháð félagasamtök og stjórnarandstaða fái auðveldlega lesið og skilið. Það er eðlilegt að svigrúm til samráðs ólíkra haghafa í ákvarðanatöku sé takmarkað á krísutímum. En jafnframt er nauðsynlegt að neyðarástand sé ekki notað til að komast hjá fyrirsvari og ábyrgð. Með því að krefjast algjörs gagnsæis ákvarðana sem teknar er í neyð, og því að haldbær rök séu færð hverju sinni, munu valdhafar skynja ábyrgð sína og þegar nauðin er yfirstaðin þurfa þeir að svara fyrir eigin gjörðir.

Meginreglan um að stjórnvaldsákvarðanir séu opnar ætti að hafa einhver varnaðaráhrif, sérstaklega í neyðarástandi þar sem framkvæmdavaldið fær nánast frítt spil frá virku eftirliti á meðan varir.


Spilling er misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Spilling þrífst þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil sem engin. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæjum upplýsingum um gjörðir valdhafa/stjórnenda, sem almenningur getur skilið, treyst og fylgst með.

Gagnsæi má lýsa með þeirri meginreglu að fólk, sem þarf að reiða sig á ákvarðanir teknar innan stjórnsýslunnar eða í viðskiptalífinu, geti fengið upplýsingar um hvernig slíkar ákvarðanir eru teknar og á hvaða grundvelli. Það er skylda allra opinberra aðila að starfa á skýran, skiljanlegan og fyrirsjáanlegan hátt.

Stjórn Transparency International á Íslandi