Áhyggjur kjósenda af framkvæmd kosninga byggjast hvorki á samsæriskenningum né óþarfa upphlaupi heldur efnislegum staðreyndum

Íslandsdeild Transparency International lýsir vonbrigðum með brotalöm og möguleg lögbrot við talningu atkvæða í Alþingiskosningum á Íslandi 2021.

Íslandsdeild TI  lýsir sérstökum áhyggjum af viðbrögðum formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi eftir að ljóst varð að lögum um framkvæmd talningar var ekki fylgt. Formaðurinn hefur ítrekað gert lítið úr málinu í fjölmiðlum og gefið til kynna opinberlega að hann telji skoðanir sínar og ákvarðanir ekki þurfa að byggja á lögum. Ljóst er að gáleysisleg og ólögmæt meðferð kjörgagna við talningu í Norðvesturkjördæmi getur ein og sér verið ástæða til að krefjast endurtekningar kosninganna þar.

Þá hefur atburðarásin einnig varpað ljósi á þá sérkennilegu og fráleitu málsmeðferð að nýkjörið Alþingi hafi endanlegt úrskurðarvald um réttmæti kosninganna. Slíkt getur leitt til geðþóttaákvarðana þingmanna sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirkomulag þetta er úrelt og hefur m.a. Mannréttindastóll Evrópu (MDE) úrskurðað gegn slíkri meðferð máls. TI á Íslandi tekur undir sjónarmið um að þessu verði að breyta svo fljótt sem auðið verður.

Kosningar eiga að byggjast á trausti og gagnsæi auk þess sem atkvæði eiga ekki að vera persónugreinanleg. Kjörstjórnarfulltrúar verða að umgangast þá ábyrgð sem þeim er falin af virðingu. Það á bæði við um framkvæmdina sjálfa og svo framkomu og svör til almennings ef upp koma spurningar. Vert er að nefna að við setningu laga um kosningar til Alþingis þótti löggjafinn ástæðu til þess að leggja refsingu við því ef kjörstjórn vanrækir fyrirskipaða framkvæmd laga um kosningar til alþingis, sbr. 124. gr. laganna. Endurspeglar það þá miklu ábyrgð sem fylgir störfum við framkvæmd kosninga.

Þá verður ekki litið framhjá því að Hæstiréttur hefur áður úrskurðað kosningar ógildar vegna formgalla við framkvæmd þeirra, jafnvel þótt svo að  þeir gallar hafi ekki haft áhrif á úrslit eða niðurstöðu umræddrar kosningar. Fordæmi um ógildingu kosninga af hálfu Hæstaréttar eru því fyrir hendi bæði er varðar áhrif eða áhrifaleysi á niðurstöðu kosninganna. Þótt ekki hafi komið fram rökstuddur grunur um kosningasvindl vill Íslandsdeild TI taka fram að brotalöm við framkvæmd kosninga og talningu er næg ástæða fyrir vanþóknun kjósenda og áhyggjum þeirra af því að ekki sé betur að verki staðið. Þessar áhyggjur byggjast hvorki á samsæriskenningum né óþarfa upphlaupi heldur efnislegum staðreyndum um klúður og lögbrot við talningu atkvæða í þingkosningum á Íslandi 2021.

Ekkert er mikilvægara en traust almennings á lýðræðislegum kosningum.