Stjórn Íslandsdeildar hvetur Alþingi til að leggja fram þingsályktunartillögu um birtingu Lindarhvolsskýrslu

Yfirlýsing frá Transparency International á Íslandi 23.febrúar 2023

Stjórn Transparency International á Íslandi furðar sig á einbeittum vilja forseta Alþingis, fjármála- og efnahagsráherra og fleiri til þess að halda Lindarhvolsskýrslu setts ríkisendurskoðanda frá kjörnum fulltrúum og kjósendum. Það er hvorki í verkahring fjármála- og efnahagsráðherra né forseta Alþingis að leggja mat á það hvort skýrsla Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, skuli sveipuð leynd en önnur skýrsla embættisins um sama mál sé eina opinbera gagnið um meðferð almenningseigna í umsjón Lindarhvols.

Á það hefur nú verið bent að líkur séu til þess að leynd forseta Alþingis á Lindarhvolsskýrslu Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, sé brot á lögum. Vísa má til geinar Þorsteins Pálssonar lögfræðings og fyrrv. forsætisráðherra um þetta í Fréttablaðinu í dag, en fleiri lögfræðingar taka undir hans sjónarmið.

Settur ríkisendurskoðandi sendi umbjóðanda sínum, Alþingi í heild sinni, skýrslu, sem forseta Alþingis þóknast að hafa í læstri skúffu, þótt einu megi gilda hvort sú skýrsla berist forseta eða sérhverjum öðrum kjörnum þingmanni. Launungin er runnin undan rifjum forseta Alþingis og fjármála- og efnahagsráðherra, sem opinberlega hefur beitt sér gegn birtingu hennar.

Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og í þágu kjörinna fulltrúa þar. Hans mikilvægasta skylda samkvæmt lögum er að sjá til þess að rétt og löglega sé farið með opinbert fé og eigur almennings. Hann heyrir m.ö.o. ekki undir framkvæmdavaldið – ríkisstjórnina – og hafa einstakir ráðherrar engar lagaheimildir til að koma í veg fyrir dreifingu skýrslu setts ríkisendurskoðanda til kjörinna fulltrúa. Þrátt fyrir það hefur fjármála- og efnahagsráðherra staðið í vegi þess að Lindarhvolsskýrslan verði birt öllum kjörnum fulltrúum almennings. Forseti Alþingis, fjármála- og efnahagsráðherra og fleiri hafa því gerst sekir um leyndarhyggju og óverjandi ógagnsæi gagnvart þingi og þjóð.

Stjórn Transparency International á Íslandi telur það að opinbera ekki skýrslu setts ríkisendurskoðanda, hvert svo sem efni hennar er, vera merki um frumstæða stjórnsýslu sem samræmist ekki þeim kröfum sem gera verur til gagnsæis í stjórnsýslu og meðferð opinberra eigna. Slík vinnubrögð grafa undan trausti almennings á stjórnvöldum

Stjórn T.I. á Íslandi hvetur þá embættismenn sem staðið hafa í vegi fyrir birtingu skýrslu setts ríkisendurskoðanda til að virða rétt alþingismanna og almennings í þessu efni. Gangi það ekki eftir er lagt til að Alþingi leggi fram þingsályktunartillögu um birtingu umræddrar skýrslu. Ótrúlegt er að meirihluti sé á Alþingi fyrir því að hafna tillögu sem felur í sér sjálfsagt gagnsæi og eðlilega meðferð upplýsinga sem sendar hafa verið þjóðþinginu en það fær ekki að sjá eða kynna sér.

Stjórn Transparency International á Íslandi