Staða Íslands versnar enn samkvæmt spillingarvísitölu TI
Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu í morgun niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Mælingin nær til spillingar í opinbera geiranum og byggist á áliti sérfræðinga og aðila í viðskiptalífinu. Þessi mæling kallast Corruption Perceptions Index (CPI) á ensku.
Spillingarvísitala Íslands hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár og gerir það enn milli ára nú. Danmörk er allra efst á listanum nú með 88 stig af 100 mögulegum (0 þýðir mikil spilling en 100 þýðir lítil spilling). Finnland og Svíþjóð eru þar í þriðja sæti með 85 stig og Noregur í sjöunda sæti með 84 stig. Ísland er hins vegar í 17. sæti á listanum með 75 stig en var með 78 stig á CPI-listanum árið 2019 og í 11. sæti þá. Niðurstaða mælingarinnar á Íslandi er því mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum.
Þessar mælingar alþjóðasamtakanna Transparency International á spillingu njóta mikillar viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Samtökin voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein áhrifaríkustu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum. Samtökin eru sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og eru ekki rekin til að skila hagnaði. Þau starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og því mikla óréttlæti og margs konar samfélagslega skaða sem hún veldur.
Alþjóðastofnanir hafa lýst því yfir og rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarréttindum, tækifærum og lífsgæðum fólks hvarvetna í heiminum og grefur undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum og stofnunum á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Ísland er engin undantekning frá því.
Fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni og stjórnvöld sem og almenningur ættu að huga alvarlega að því hvað gæti valdið þessari þróun og hvernig er hægt að bæta úr stöðunni.
Á heimasíðu Transparency International má nálgast margvíslegar upplýsingar um Corruption Perceptions Index árið 2020 og mælinguna almennt.