7 stjórnmálaflokkar svöruðu, 3 svöruðu ekki

Alþýðufylkingin, Dögun, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og Vinstri-Græn heita því að beita sér fyrir setningu löggjafar um vernd uppljóstrara og hagsmunaskráningu stjórnmálamanna.

Ástæða þess að íslenskir kjósendur ganga nú til kosninga haustið 2016, áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur, er sú krafa að ráðamenn eigi ekki að fela fé sitt á aflandsreikningum. Sú krafa tengist málefnum sem félagið Gagnsæi hefur látið sig varða, m.a. siðareglum alþingismanna og hagsmunaskráningu. Tilgangur Gagnsæis er að vinna að heilindum og auknu gagnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum og  benda á spillingarhættur  hvar sem þær  kunna  að birtast  í íslensku samfélagi.

Gagnsæi óskaði eftir að framboðin svöruðu tveimur neðangreindum spurningum:

Hagsmunaskráning alþingismanna og ráðherra:  GRECO hefur ítrekað beint þeim tilmælum til stjórnvalda að núverandi hagsmunaskráning alþingismanna sé gerð ítarlegri: a) upplýst sé um fjárhæðir eigna og skulda umfram venjubundnar húsnæðisskuldir, b) eignaskráning verði útvíkkuð til maka og náinna fjölskyldumeðlima og c) eftirfylgni af hálfu þingsins og aðstoð við skráningu.  Jafnframt verði sett refsiákvæði sem beitt yrði við þá sem ekki uppfylla kvaðir um hagsmunaskráningu.

Svör stjórnmálaflokkanna og spurningar til þeirra fara hér á eftir:

Spurning 1: Munt þú eða flokkur þinn beita sér fyrir því að tilmælum GRECO um hagsmunaskráningu alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna verði mætt á komandi kjörtímabili?

Alþýðufylkingin: Já, Alþýðufylkingin mun styðja að hagsmunir þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna verði skráðir og birtir opinberlega og að refsiákvæði verði við vanefndum á því. Alþýðufylkingin telur það samt hvergi nærri nóg, enda auðvelt að sjá hvernig menn geta átt hagsmuni sem ekki koma fram í slíkri skráningu, s.s. hagsmuni af loforði um girnilega stöðu að loknum stjórnmálaferlinum eða um að handgengnum mönnum sé umbunað. Slíka spillingu er kannski ekki hægt að skrúfa fyrir án þess að stokka upp hagkerfið, m.a. með miklu meira gegnsæi og aðhaldi starfsfólks að rekstri fyrirtækja.

Dögun:

Píratar: Tvímælalaust, já!

Vinstri græn: Já enda gríðarlega mikilvægt mál

Viðreisn:  [Spurningar Gagnsæis] varða báðar mikilvæg atriði er varða traust og tiltrú almennings á stjórnvöldum og hins vegar vernd þeirra er koma upp um ólögmætt athæfi.  Viðreisn beitir sér fyrir kerfisbreytingum og vandaðri vinnubrögðum í stjórnarháttum.  Þess vegna fellur það vel að stefnu og markmiðum Viðreisnar að svara báðum spurningum játandi.

Björt framtíð: Já, Björt framtíð mun gera það. Það er nauðsynlegt að vel sé staðið að hagsmunaskráningu þingmanna og að hún sé ítarleg. Það er tvennt sem slík hagsmunaskráning gæti stuðlað að, annars vegar auknu trausti almennings á Alþingi og gert kröfu á að þingmenn víki til hliðar ef upp koma mál sem gætu orsakað hagsmunaárekstra. Að þingmenn víki til hliðar við úrvinnslu mála ætti að vera álitin virðing við almenning og sjálfsagt mál.

Þingflokkur Bjartrar framtíðar lagið fram frumvarp sem á að vera liður í því að auka traust almennings til Alþingis. Upplýsingar um þingfararkaup eru nú þegar opinberar en með þessu máli yrðu allar greiðslur eins og starfskostnaður og ferðastyrkir til þingmanna gerðar opinberar. Meira um málið á vef Alþingis.

Samfylkingin: Já, einn af lærdómum liðins kjörtímabils er að tilmæli GRECO eru mikilvæg.

Spurning 2: Munt þú eða flokkur þinn beita sér fyrir því að lög um uppljóstrara verði sett á komandi kjörtímabili?

Alþýðufylkingin: “Já, það er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið að haldið sé verndarhendi yfir þeim sem ljóstra upp um spillingu eða óheiðarlega viðskiptahætti, sem og um ýmis önnur brot, m.a. á góðum stjórnsýsluháttum og á lögum landsins. Alþýðufylkingin vill raunar gera Ísland að skjóli fyrir fólk og vefsíður sem sæta ofsóknum fyrir afhjúpanir á glæpum stórveldanna.”

Píratar: “Lög til verndar uppljóstrara eru meðal okkar helstu áherslumála fyrir komandi kjörtímabil. Píratar ætla sér að framkvæma öll ákvæði þingsályktunarinnar um IMMI, sem meðal annars felur í sér mjög sterka vernd uppljóstrara. Að lokum viljum við benda á að meginstef Pírata er að auka gagnsæi, auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku og tækla spillingu.”

Dögun, Vinstri græn og Viðreisn sendu einnig samtökunum svör þessari spurningu sem öll voru samhljóða jákvæð.

Björt framtíð: Já, Björt framtíð mun gera það. Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar mælti fyrir frumvarpi um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara árið 2013. Markmið frumvarpsins var að heimila og stuðla að miðlun upplýsinga og misgerð, tryggja vernd uppljóstrara og stuðla að gegnsæi um upplýsingar sem eiga erindi við almenning og varða almannahagsmuni.

Samfylkingin: Já, Panamaskjölin sýna svart á hvítu hvað uppljóstranir geta skipt miklu máli í nútímasamfélagi. Þau hafa lyft baráttunni gegn skattaskjólum á annað stig.

Ekki bárust svör frá Flokki fólksins, Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki við spurningum Gagnsæis.

― ― ―

Athugið að þessi grein birtist fyrst undir heitinum „6 stjórnmálaflokkar svöruðu, 4 svöruðu ekki” en eftir birtingu greinarinnar sendi einn stjórnmálaflokkur til viðbótar inn svör. Var þeim svörum bætt við og þar með titli pistilsins einnig breytt til samræmis.