Traustið – eftir tíu ár
Starfshópur um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu skilaði í byrjun september skýrslu til forsætisráðherra sem hefur verið nokkuð í umræðunni síðan. Undirritaður var formaður starfshópsins, en í skýrslunni er vikið að nokkrum málum sem Gagnsæi hefur frá upphafi látið sig varða töluvert. Má þar nefna sérstaklega hagsmunaskráningu ráðherra og hátt settra embættismanna og verndun uppljóstrara. Í skýrslunni er einnig fjallað um hagsmunaverði (lobbíista) og lagt til að komið verði á skráningu á þeim aðilum sem starfa að hagsmunavörslu og eru í samskiptum við ráðuneyti og kjörna fulltrúa til að tala máli umbjóðenda sinna. Einnig að settar verði reglur um samskipti við hagsmunaverði með það fyrir augum að tryggja fullt gagnsæi. Í skýrslunni er bent á að hagsmunavarsla sé eðlilegur hluti af stjórnmálum en mikilvægt sé að engar efasemdir ríki um aðkomu hagsmunavarða og jafna stöðu hagsmunaaðila gagnvart ríkisvaldinu. Einnig er lagt til að settar verði reglur um starfsval eftir opinber störf og loks að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands fái tímabundið hlutverk við að veita stjórnvöldum ráð um álitamál – í framhaldinu verði skoðað hvernig best er að tryggja að stjórnvöld haldi sig innan þess heilindaramma sem þau setja sér, hvort utanaðkomandi ráðgjöf er best, hvort rétt er að setja á fót Landsiðaráð, eða hvernig best verði unnið að því að halda trausti. Skýrsluna má nálgast hér.
Margt annað kemur við sögu í skýrslunni – tillögur hópsins eru samtals 25. Það sem er hinsvegar athyglisvert fyrir áhugafólk um Gagnsæi nú rúmum mánuði eftir birtingu skýrslunnar er að strax eru komin fram ákveðin andmæli við nokkrar af tillögum starfshópsins og einkum og sér í lagi þau sem varða hagsmunaverði og starfsval eftir opinber störf, en einnig vernd uppljóstrara og hlutverk Siðfræðistofnunar.
Þessi andstaða birtist til dæmis í áliti sem fulltrúi Samtaka atvinnulífsins birti á Samráðsgátt stjórnarráðsins, en það er vefsvæði þar sem almenningi gefst kostur á að láta í ljós álit sitt á ýmsum stefnuplöggum stjórnvalda, þar á meðal lagafrumvörpum áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Samtök atvinnulífsins telja samkvæmt álitinu að engin þörf sé fyrir neina skráningu á hagsmunaaðilum eða reglur um samskipti þeirra og stjórnvalda. Þaðan af síður þurfi að setja reglur um starfsval eftir opinber störf og ennfremur orki mjög tvímælis að þörf sé fyrir sérstaka lagasetningu til að tryggja vernd uppljóstrara. Viðskiptaráð gagnýnir skýrsluna einnig á samskonar forsendum, ekki síst telur ráðið varhugavert að Siðfræðistofnun fái sérstakt hlutverk. Umsagnir um skýrsluna má finna hér.
Það má segja að þessar umsagnir séu í anda þess sem við mátti búast frá samtökum sem stunda hagsmunavörslu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í atvinnulífinu. Þær eru líka í takt við það sem gerst hefur í nágrannalöndunum þegar umræður hafa komið upp um mál af þessu tagi. Það hefur til dæmis gengið mjög treglega að setja reglur um hagsmunaverði í Danmörku þrátt fyrir að gagnrýnin og hvöss umræða farið af stað oftar en einu sinni þar í landi um óæskileg áhrif og inngrip hagsmunaaðila í stefnu og ákvarðanir stjórnvalda.
Það er ekki ólíklegt í þeim umræðum um þessar tillögur sem framundan eru að sjónir gagnrýnenda beinist sérstaklega að þessum atriðum og það gæti reynst erfitt að koma raunverulegum umbótum í gegn á sviðum sem sneiða að atvinnulífinu. En það hefur verið skýr stefna Gagnsæis frá upphafi að Íslendingar ættu að lágmarki að fylgja ábendingum alþjóðastofnana (einkum GRECO og OECD) í þessum efnum. Með því að fylgja tillögum skýrslunnar geta íslensk stjórnvöld gengið lengra – og það væri kannski réttu skilaboðin á tíu ára afmæli hrunsins að stjórnvöld ætli sér í raun og veru að ná tökum á hagsmunaárekstrum, hvar sem þeir birtast.
Jón Ólafsson, formaður stjórnar Gagnsæis