Heita kartaflan í stjórnsýslunni; opinber innkaup

RikisendurskodunMeð reglulegu millibili  hafa komið upp mál í fjölmiðlum  um opinber innkaup, sem standast illa skoðun Ríkisendurskoðunar, sem hefur ítrekað skrifað athugasemdir og skýrslur þar sem sveigt hefur verið frá reglum um opinber innkaup.  Ávirðingar á sömu stofnanir virðast koma upp aftur og aftur og í viðtali sagði Ríkisendurskoðandi að embætti hans hefði ekki tök á að stunda samtíma eftirlit með þessum stofnunum, og að brotalöm væri til staðar þegar kemur að innkaupum fjölmargra stofnana.

Vandamálið:

Á hverju ári er hundruðum milljarða króna  eytt  til að kaupa vörur og þjónustu fyrir hið opinbera.  Frá skólum og sjúkrahúsum til orkuvera og dreifikerfis, sem krefjast stórra  og flókinna fjárhagsáætlana.  Það þýðir líka að kjöraðstæður skapast fyrir spillingu.  Þess vegna eru opinber innkaup heitasta kartaflan í stjórnsýslunni þegar kemur að spillingarhættum.

Samningar eru gerðir við birgja án undangenginna útboða, svo samkeppnisaðilar sitja ekki við sama borð.  Verk, vöru og þjónustusamningar eru jafnvel brotnir niður í smærri fjárhæðir til að fljúga undir radar um lágmarksfjárhæð útboðsskyldu.  Fyrirtækjum með hagfelld pólitísk tengsl er hyglað umfram önnur.  Fyrirtæki innan sama geira, geta líka með samráði tryggt hlut í stóru kökunni.  Slíkt atferli hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir skattborgara.   Transparency International telur  að spilling geti hæglega aukið kostnað um 50% við kaup á þjónustu, vörum og vinnu fyrir hið opinbera.    Spilling í opinberum innkaupum, snýst ekki alfarið um peninga.  Gæði þjónustu og vinnu minnkar.  Traust og trúverðuleiki pólitískra leiðtoga skaðast.

Lausnin:

Almenningur og fjölmiðlar eiga og þurfa að standa  vaktina við að tryggja að skattfé borgaranna sé vel varið.    Stjórnvöld verða að tryggja gæði þjónustu og að hún sé keypt á sanngjörnu verði.  Það þýðir að við þurfum sterkt opinbert innkaupakerfi.

Transparency International hefur rannsakað spillingu í opinberu innkaupakerfi og hefur sett fram lausnamiðaðar aðgerðir til að verjast henni.   Innkaupakerfið þarf fyrst og fremst að vera gagnsætt, svo almenningur geti fylgst með hvað er í gangi.  Þannig er hægt að kalla til ábyrgðar, stjórnvöld, bjóðendur og verktaka.  Einkenni á góðu innkaupakerfi eru skýrar reglur sem standast alþjóðlegar kröfur.  Sterkur eftirlitsaðili sér um að reglum sé framfylgt, og gefur aðgang að upplýsingum og árangursríku kvörtunarkerfi.  Eftirlitsaðili tekur líka við upplýsingum í trúnaði um meinta spillingu án þess að uppljóstrari hljóti skaða af.  Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara hefur verið lagt fyrir Alþingi og brýnt að það nái fram að ganga.

Setja þarf upp sérstakt ferli og mælikvarða til að tryggja heiðarlegt innkaupaferli.  Þrýsta þarf á skuldbindingu um heiðarleika og heilindi frá bjóðendum og fulltrúum hins opinbera.  Þetta þýðir að allir aðilar máls heita því að taka ekki þátt í mútum af neinu tagi, samráði eða öðrum spilltum aðferðum.  Einnig má krefjast  óháðs utanaðkomandi eftirlits til að tryggja að samningi sé framfylgt.