Sagan af Illuga og siðareglunum horfnu

Jon Olafs litmyndPistill: Jón Ólafsson, stjórnarmaður í Gagnsæi |  Illugi Gunnarsson er eflaust vænn og velviljaður maður og enginn ætti að núa honum því um nasir að hafa lent í fjárhagserfiðleikum eftir hrun. Hann var ekki sá eini. En Illugi átti fjársterka vini sem gátu komið honum til hjálpar, hann þurfti ekki að flytja úr húsinu sínu og hann hafði áfram tekjur til að framfleyta fjölskyldu sinni. Þar var hann kannski heppnari en sumir aðrir. Gott mál.

En Illugi Gunnarson er stjórnmálamaður og þótt hann hyrfi um stund af þingi eftir hrunið (mörgum þótti sú ákvörðun hans til marks að hann skildi ábyrgð sína) halda úrræðin sem hann taldi sig þurfa að grípa til, sjálfs sín og fjölskyldu sinnar vegna, honum enn í heljargreipum. Hann getur ekki látið eins og þau séu einkamál hans eða skipti engu máli.

Það er ekkert óeðlilegt við að íslenskur ráðherra greiði götu fyrirtækis á erlendri grundu ef allir geta verið vissir um að ekkert annað búi þar að baki en embættisskyldur hans eða hennar. En þegar í ljós kemur að ekki aðeins hefur ráðherrann þegið laun frá fyrirtækinu á erfiðum tíma á sínm ferli, heldur hefur fyrirtækið eða ráðandi aðilar í því hlaupið undir bagga með honum og sýnt honum þannig sérstakan velvilja, horfir málið öðruvísi við. Slík hagsmunatengsl ættu að þýða að ráðherrann þurfi að segja sig frá öllum störfum fyrir eða aðstoð við fyrirtækið. Öll fyrirgreiðsla hans gagnvart aðilum sem hann á svo mikið undir hlýtur að orka tvímælis.

Slík hagsmunatengsl ættu að þýða að ráðherrann þurfi að segja sig frá öllum störfum fyrir eða aðstoð við fyrirtækið.

Vorið 2011 setti ríkisstjórn Íslands sér siðareglur. Reglurnar voru nægilega almennar til þess að engum vandkvæðum ætti að vera bundið fyrir nýja ríkisstjórn að staðfesta þær óbreyttar. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki gert neinar athugasemdir við þessar siðareglur. Forsætisráðherra hefur meira að látið í veðri vaka að siðareglurnar, þótt óstaðfestar séu, gildi fyrir þessa ríkisstjórn líka. En þrátt fyrir það hafa þær verið fjarlægðar af vef forsætisráðuneytisins og því getur enginn glöggvað sig á því hvað í þeim stendur nema hafa verið svo forsjáll að taka afrit af þeim.

„Ráðherra forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf hans.“

Í þessum reglum er fjallað um hagsmunaárekstra. Þar segir: „Ráðherra forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf hans. Séu líkur á að ákvarðanir séu túlkaðar í ljósi slíkra tengsla, ber að gera viðeigandi ráðstafanir.“ Viðeigandi ráðstafanir væru til dæmis að upplýsa um þessi tengsl og gæta þess vandlega að koma ekki með neinum hætti að málum sem varða þann sem tengslin eru við.

Í horfnu siðareglunum segir einnig „Ráðherra forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni.“ Hugsunin á bakvið þetta varðar ásýndina: Það er ekki nóg að vera heiðarlegur og hreinskilinn. Ráðherrar þurfa einnig að reyna að koma í veg fyrir að athafnir þeirra og ákvarðanir orki tvímælis, skapi efasemdir og tortryggni.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við hefði Illugi Gunnarsson að sjálfsögðu átt að upplýsa um tengsl sín við fyrirtækið Orka Energy og stjórnarformann þess. En hann kaus að halda þeim leyndum og það er sú ákvörðun hans sem verður að horfa á í dag, þegar blaðaumfjöllun og vandræðaleg gagnrýni hefur knúið hann til að upplýsa um hversu náin og persónuleg tengslin eru – væntanlega vegna þess að hann viss ósköp vel að fyrr eða síðar myndi Stundin eða einhver annar fjölmiðill einfaldlega taka af honum ómakið.

Og hver er þá staðan í dag? Er Illugi búinn, seint og um síðir að gera það sem hann átti að gera? Getur hann haldið ótrauður áfram að stjórna menntamálunum í landinu? Eða ætti hans fyrsta verk í fyrramálið að vera að segja af sér? Þessar spurningar varða ekki hvað sé sanngjarnt eða ósanngjarnt í mati á honum og verkum hans. Þær hafa ekkert með það að gera hvort hann stendur í stórræðum í sínu ráðuneyti eða ekki. Þær snúast eingöngu um hvort hann geti gert ráð fyrir því að halda trausti almennings eftir það sem á undan er gengið og að fjölmiðlar láti gott heita. En það er erfitt að trúa því.

Pistillinn birtist á Stundinni hér