Fyrsta aðalfundi Gagnsæis lokið – samtökin samþykkt í fyrsta áfanga aðildar að Transparency International
Fyrsti aðalfundur Gangsæis – samtaka gegn spillingu fór fram 30.apríl s.l. Samtökin voru formlega stofnuð í lok desember 2014 og hafa því aðeins starfað í um 4 mánuði. Núverandi stjórn samtakanna var kosin til næstu 2ja ára samkvæmt samþykktum samtakanna. Gert er ráð fyrir að á árinu 2015 verði starfsemin efld með stofnun vinnuhópa og nefnda þannig að félgsmenn geti tekið virkan þátt í starfinu. Guðrún Johnsen hættir sem formaður stjórnar samtakanna, en Jenný Stefanía Jensdóttir tekur við af henni, sem ný formaður. Stjórnina skipa því áfram þau Jenný Stefanía Jensdóttur, Guðrún Johnsen, Jón Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Ásgeir Brynjar Torfason, Edda Kristjánsdóttir og Vilborg G. Hansen.
Dagurinn var stór stund í starfi samtakanna bæði vegna þess að þetta var fyrsti aðalfundurinn, en ekki síður vegna þess að þennan dag barst samtökunum samningur til undirritunar frá Transparency International (TI) þess efnis að Gagnsæi – samtök gegn spillingu væru nú formlega samþykkt með svokallaða “National Contact” stöðu, sem er fyrsti áfangi að fullri aðild samtakanna að TI hreyfingunni. Á næstu tveimur árum munu samtökin vinna að því að fá svokallaða “Chapter in Formation” stöðu líkt og Grænland hefur nú, en Grænland sótti um aðild að TI á undan Íslandi og er komið vel áleiðis að fullri aðild. Í lok fundarins var skrifað undir samninginn við Transparency International þessum áfanga til staðfestingar.
Jenný Stefanía Jensdóttir stjórnarmaður í Gagnsæi kynnti starfsemi samtakanna á þessu fyrsta starfstímabili Gagnsæis
Undir þessum lið á aðalfundi væri að öllu jöfnu fjallað um fjármál samtakanna og ársreikningur lagður fram. Um áramótin síðustu var engin fjárhagsleg starfsemi hafin, að öðru leyti en því að greitt var gjald vegna stofnunar samtakanna til Ríkisskattstjóra. Fyrir tæpu ári eða þann 2. júní 2014 var fyrsti formlegi undirbúningsfundur að stofnun Gagnsæis haldinn. Þær Edda Kristjánsdóttir, Guðrún Johnsen, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Jenný Stefanía Jensdóttir byrjuðu að funda reglulega í gegnum skype, frá Hollandi, Kanada og Íslandi. Alls voru haldnir 12 formlegir fundir á undirbúningstímabilinu. Að auki hafa stjórnarmenn átt í miklum og stöðugum samskiptum vegna pistlaskrifa, efnis sem birt er á heimasíðu og Facebókarsíðu Gagnsæis, og viðbragða við málum sem upp koma. Stofnfundur samtakanna var haldinn 25. september 2014 og þá höfðu Jón Ólafsson, Vilborg Hansen og Ásgeir Brynjar Torfason bæst í hópinn.
Hvatinn að stofnun samtakanna var skýrsluvinna sem Edda Kristjánsdóttir hafði tekið að sér fyrir Transparency International árin 2012 og 2013 varðandi “útflutning spillingar” (þ.e. hvort og hvernig eftirlit sé haft með því hvort íslenskir aðilar greiði mútur eða stundi spillingu erlendis), en TI gefur út árlega skýrslu þess efnis (“Exporting Corruption”) um öll aðildarríki OECD. TI leitar til landsdeilda sinna þegar verið er að gera slíkar kannanir á heimsvísu, en Ísland hafði enga landsdeild og vaknaði því áhugi á að stofna slíka deild og sækja um aðild. Það er stefna TI að landsdeildir verði að vera sjálfsprottnar að frumkvæði borgara hvers lands. Samtökin Gagnsæi sóttu með formlegum hætti um aðild með bréfi til TI þann 23. janúar s.l. og gert er ráð fyrir að sjálft aðildarferlið geti tekið allt að því 5 ár.
Kynningarfundur Gagnsæis var haldinn þann 5. mars s.l. þar sem fram komu nokkrir fyrirlesarar, m.a. Peter Varga frá Transparency International í Berlín, en hann er svæðisstjóri fyrir mið- og norður Evrópu og fjallaði Peter um spillingahvata í Norður Evrópu. Anne Mette Christiansen, frumkvöðull TI á Grænlandi, hélt erindi og miðlaði af reynslu Grænlands við að byggja upp sína landsdeild, einkum það hvernig sporna má við spillingu í fámennum samfélögum.
Í tengslum við kynningarfundinn voru haldnir fundir með ráðuneytum og einnig haldnar hringborðsumræður þar sem m.a. aðilum frá fjölmiðlum og háskólasamfélaginu var boðið til skrafs og ráðagerða um helstu birtingarmyndir spillingar á Íslandi. Þá var einngig rætt um hvernig haga megi samstarfi samtakanna og þessara aðila um það verkefni að hefja upplýsta umræðu um spillingu og spillingarhættur í íslensku samfélagi og þannig koma af stað vitundarvakningu um þann skaða sem spilling veldur á almannahagsmunum.. Fundurinn var afar gagnlegur og bindur stjórn Gagnsæis vonir við áframhald á slíkum fundum við fleiri aðila úr ýmsum geirum.
Starfsemin hefur verið í mótun s.l. mánuði og hefur starfið aðallega falist í kynningarfyrirlestrum hjá ýmsum félagasamtökum, fyrirlestrum á Hugvísindaþingi Háskólans, viðtölum í útvarpsþáttum, pistlaskrifum á heimasíðu og facebooksíðu.
Leiðarljós samtakanna byggjast á að efla upplýsta umræðu um spillingu og spillingarhættur, samstöðu um baráttu gegn spillingu og að starfa opinskátt, heiðarlega og á óhlutdrægan hátt. Samtökin fordæma mútur og spillingu af fyllstu hörku og hugrekki hvar sem sýnt er fram á slíkt af eftirlitsaðilum og fjölmiðlum.
Undanfarnar vikur hafa komið upp mörg mál, sem varða vel þekktar spillingahættur, auk þess sem bæði OECD og GRECO (Group of States against Corruption) – samtök landa gegn spillingu, sem Ísland er aðili að, hafa sent íslenskum stjórnvöldum harðorð bréf,vegna seinagangs við að bregðast við tilskipunum þeirra um að efla varnir gegn spillingu. Stjórn Gagnsæis hefur fylgst með þessum málum af athygli og skrifað greinar og pistla á heimasíðu vegna þeirra.
Ásamt þeim fjölda fólks sem komið hefur til liðs við samktökin sem félagsmenn, hafa margir lagt samtökunum lið í verki. Ber þá fyrst að nefna nemendahóp við Listaháskóla Íslands sem gerði tillögur að lógói fyrir samtökin. Margar frábærar tillögur bárust en fyrir valinu varð logó Ástrósar Traustadóttur.
Þá hafa nemendur í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, Anna Kristína Lobers og Markús Andri Sigurðsson, lagt okkur lið við undirbúningsvinnu. Síðast en ekki síst hefur Vilborg Hansen stjórnarmaður í Gagnsæi haft allan veg og vanda að heimasíðu samtakanna. Öllum þessum aðilum eru færðar innilegar þakkir fyrir ómetanlegt framlag sem allt er unnið í sjálfboðavinnu.
Loks vil ég þakka meðstjórnendum öllum fyrir samstarfið á þessu fyrsta starfstímabili. Þetta hefur verið sérlega lærdómsríkur tími og gaman að starfa með samstæðum hópi fólks, sem vill gera meira en að „pirra“ sig á spillingunni í sófanum heima og vill efla baráttuna gegn spillingu með öllum ráðum.
Við gerð þessarar samantektar kom á óvart hversu miklu í raun samtökin hafa áorkað á þessu tæpa ári. En framundan er áframhaldandi vinna, sem er forsenda þess að geta á endanum kallast landsdeild Transparency International. Í því felst að vinna markvisst að málum sem OECD, GRECO, TI og fleiri hafa bent á sem aðkallandi fyrir Ísland. Umræða um spillingu virðist vera að aukast á Íslandi; almenningur er að gera háværari kröfur um heilindi og heiðarleika hjá stjórnvöldum, í opinberri stjórnsýslu og í viðskiptalífinu almennt og það er einmitt sá jarðvegur sem við viljum sá í.
Frumvarp til verndar uppljóstrurum
Róbert Marshall þingmaður hélt erindi á aðalfundinum um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara og fjallaði hann almennt um frumvarpið. Róbert sagðist ekki bjartsýnn á að frumvarpið yrði samþykkt nú en frumvarpið yrði þá flutt aftur og aftur þar til markmiðum þess yrði náð. Hann útskýrði muninn á “heimildarmanni” og “uppljóstrara”. Blaðamenn njóta verndar varðandi heimildarmenn og geta neitað að upplýsa um þá. Þegar hins vegar kemur að uppljóstrurum innan stofnana og fyrirtækja þarf að vera hægt að vernda slíka aðila með því að þeir fái réttarstöðu uppljóstrara eftir því sem við á hverju sinni. Í mörgum tilfellum hafa uppljóstrarar misst starf sitt í kjölfar þess að upplýsa um lögbrot eða spillingu. Slík uppljóstrun stuðlar að framgangi almannahagsmuna, og það væri því eðlilegt að uppljóstrarar fengju bætur fyrir frekar en refsingu. Taldi Róbert fræðilega og ópólitíska umræðu hjálpa mikið til í þessum málum og sagði frumvarpið mikilvægt tækifæri til að eyða leyndarhyggju. Mikilvægt er að málin séu rædd á öðrum vettvangi en á vettvangi stjórnmálanna.
Rétt er að geta þess hér að samtökin Gagnsæi hafa það á verkefnaskrá sinni að halda málstofu um vernd uppljóstrara í haust, svo þessi málaflokkur er ofarlega á dagskrá Gagnsæis. Munu samtökin fylgjast náið með framvindu málsins í þinginu, enda hafa flest ríki sem við berum okkur saman við slíka löggjöf eða eru að vinna að slíkri lagasetningu.
Stjórnin vill hvetja áhugsama sem vilja berjast gegn spillingu og leggja samtökunum lið, til að skrá sig hér á síðunni og taka þátt í því áhugaverða og mikilvæga starfi sem framundan er. Margar hendur vinna létt verk.