Gera þurfi grein fyrir tengslum

Althingi_Sigurbjorg copyRætt var við doktor Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, lektor í stjórnsýslufræðum og stjórnarmann í Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, í Morgunútgáfu RÚV.  Fjallaði hún um  tengsl þingmanna við viðskiptalífið og þannig aukna hættu á spillingu.  Mikilvægt sé að draga þessa áhættu fram í dagsljósið og þannig geti þingmenn hreinsað sig af ávirðingum. Því sé hagsmunaskráning mikilvæg og ætti að vera þeim í hag.
Sigurbjörg ræddi um að tengsl við atvinnulífið hafi stundum verið talinn kostur fyrir þingmenn.

„En þá hvílir á þeim meiri skylda að hreinsa sig af öllum hugsanlegum grunsemdum um hagsmunaárekstra,“ segir hún.. „Það sem setur þá í erfiða stöðu, er sú staða sem við sjáum blasa við núna, og við erum minnt á í ábendingum frá Greco og fleirum, um það að skráning á hagsmunatengslum þingmanna sé ekki nógu vel framfylgt á Íslandi, þær reglur séu ekki nægilega skýrar og taki ekki nógu vel á þeim viðfangsefnum sem hér blöstu við eftir hrun þar sem Alþingi bjó við lítið traust.“

Sigurbjörg segir að þetta umhverfi búi til svigrúm fyrir grunsemdir um að þingmenn nýti sér glufur.

„Það er afar slæmt fyrir þingmennina sjálfa því þeir eru að setja okkur reglur og þeir þurfa að vera fyrirmyndir. Þótt þessar reglur nái ekki að einu eða öllu leyti til þeirra sjálfra þá má kannski segja að það sé hægt að gera strangari kröfur til þeirra í háttsemi þótt það sé ekki í reglum.“

Sigurbjörg telur að samtökin Gagnsæi hafi ærið verkefni fyrir höndum að skilgreina hvaða spillingarhættur séu fyrir hendi í þeim aðstæðum þar sem sérstakar reglur gilda um þingmenn og svo skrifuð lög sem þingmenn setja fyrir almenning.

Viðtalið í heild sinni má hlusta á hér