Tökum á spillingu í komandi kosningum

Gagnsæi, Samtök gegn spillingu

Nýtum komandi kosningar til að taka á spillingu: Setjum spillingarvarnir á dagskrá

– Áskorun til stjórnmálaflokka fyrir kosningar 2017

Samtökin Gagnsæi skora á stjórnmálaflokka og einstaka frambjóðendur að gefa almenningi skýr svör um hvernig þeir hyggjast beita sér gegn spillingu og stuðla að spillingarvörnum eftir kosningar. Trúverðugleiki íslenskra stjórnmála ef í húfi, að mati samtakanna, takist ekki að sannfæra almenning um að stjórnvöld setji markið hátt í viðleitni til að takast á við spillingarhættur.

Ein stærsta spurning kosninganna er þessi: Hvernig má tryggja að gripið sé til raunhæfra og viðurkenndra aðgerða til að tryggja heilindi, gagnsæi, samstöðu, réttlæti og traust á íslensku lýðræði? Fjölmiðlar og almenningur þurfa að leggja þessar spurningar fyrir alla þá flokka og einstaklinga sem bjóða sig fram.

Fjögur hneykslismál hafa á síðustu árum skekið stjórnsýsluna og leitt til afsagna, ákvörðunar um að flýta kosningum og þingrofs:

  1. Lekamálið leiddi til afsagnar þáverandi innanríkisráðherra,
  2. meint náin tengsl menntamálaráðherra við fyrirtæki sem hann hafði veitt fyrirgreiðslu styttu að öllum líkindum pólitískan feril ráðherrans,
  3. uppljóstranir um aflandseignir margra Íslendinga, þar á meðal stjórnmálamanna, ollu afsögn forsætisráðherra og flýttu kosningum
  4. og nú hafa stjórnsýsluákvarðanir um uppreisn æru dæmdra kynferðisbrotamanna valdið stjórnarslitum.

Nú má hafa ólíkar skoðanir á því hvers konar viðbrögð séu eðlileg eða nauðsynleg þegar mál af þessu tagi valda svo hatrömmum ágreiningi að samstarfi er rústað – jafnvel ríkisstjórnarsamstarfi. Hitt er ljóst þessi mál, hvert um sig, burtséð frá því hvernig þau enduðu, gefa ærið tilefni til að álykta að vinnubrögð framkvæmdavalds og stjórnsýslu þarfnist ítarlegrar skoðunar.

Að okkar mati ríkir almenn krafa um það í íslensku samfélagi að opinberar ákvarðanir, sama hvort þær varða málefni einstakra borgara eða stefnumótun samfélagsins alls, séu teknar á forsendum fulls gagnsæis: Allar slíkar ákvarðanir verða að standast skoðun. Í ljósi atburða undanfarinna ára er ekki nema eðlilegt að almenningur fyllist efasemdum um heilindi starfsmanna í opinberri stjórnsýslu og stjórnmálamanna.

Félagið telur að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, þurfi að sameinast um eftirfarandi atriði:

  1. Ítarlegri hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra en nú er. Slík skráning feli m.a. í sér tekjur, eignir og skuldir þingmanns/ráðherra og maka þeirra. Koma þarf í veg fyrir að stjórnmála- og embættismenn sinni ekki þeirri grundvallarskyldu að upplýsa um hagsmunatengsl.
  2. Að lög séu sett um vernd uppljóstrara. Tryggja þarf að þeir sem benda á starfsemi eða venjur sem standast ekki lög eða siðferðilega mælikvarða njóti þeirrar verndar sem lög geta veitt gegn starfsmissi eða hefndaraðgerðum af öðru tagi.
  3. Trúverðuga samvinnu við alþjóðastofnanir um varnir gegn spillingu. Nauðsynlegt er að vinna með alþjóðastofnunum á borð við OECD, GRECO og Sameinuðu þjóðirnar til að auka gagnsæi í stjórnsýslu og draga úr spillingarhættum.
  4. Að almenningi séu veittar eðlilegar, réttar og tímabærar upplýsingar um alla starfsemi stjórnsýslu. Opinberar stofnanir eiga ekki að leyna upplýsingum nema þeim sé það skylt samkvæmt lögum.
  5. Auka aðkomu borgaranna að eftirliti með öllum þáttum ríkisvaldsins. Tryggja þarf að stjórnsýsla ráðuneyta, dómstóla og löggjafa sé ekki eftirlitslaus og að utanaðkomandi aðilar taki þátt í gagnrýninni umræðu um alla þætti stjórnsýslunnar.

Samtökin Gagnsæi munu fylgjast grannt með nýjum valdhöfum sem taka við stjórnartaumum á næstu vikum eða mánuðum. Í kosningabaráttunni er brýnt að öll framboð birti afstöðu sína til þessara mála skýrt og afdráttarlaust.

Samtökin beita sér þvert á pólitíska flokka og berjast fyrir málefnum sem víðtæk sátt á að geta ríkt um: Að átta sig á ólíkum birtingarmyndum spillingar og draga úr spillingarhættum.

Tilgangur Gagnsæis er að vinna að heilindum og auknu gagnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum og benda á spillingarhættur hvar sem þær kunna að birtast í íslensku samfélagi. Samtökin vinna samkvæmt þeirri skilgreiningu að spilling

  • sé misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings,
  • þrífist þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða engin, og
  • sé ólíklegri þegar gagnsæi ríkir um ákvarðanir og gjörðir valdhafa í ljósi upplýsinga sem almenningur getur nálgast og treyst.

 

Nánari upplýsingar:
Jón Ólafsson, jonolafs@gagnsæi.is, GSM 663 4664
Sjá www.gagnsæi.is og facebooksíðu Gagnsæis: https://www.facebook.com/gagnsaei/