Gagnsæi fordæmir lögbann á umfjöllun Stundarinnar

FRÉTTATILKYNNING

Reykjavík 16. október 2017

Gagnsæi, samtök gegn spillingu (www.gagnsaei.is), fordæmir ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að setja lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media á málefni sem tengjast Glitni og forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni.

Frjáls fjölmiðlun er hornsteinn hvers lýðræðissamfélags og nauðsynleg vörn við spillingu. Lögbann á umfjöllun Stundarinnar á bankaviðskipti forsætisráðherra fyrir hrun, að beiðni rekstraraðila gjaldþrota banka, er furðuleg: Glitnir HoldCo hefur engra sýnilegra viðskiptahagsmuna að gæta er varða viðskipti einstaklinga sem áttu sér stað í hinu gjaldþrota félagi fyrir 9 árum síðan. Til stendur að leysa Glitni HoldCo upp og afhenda kröfuhöfum eignir úr búi félagsins.Því á Glitnir HoldCo ekki hagsmuna að gæta er varðar viðskipti félagsins til framtíðar. Ekki kemur fram í tilkynningu frá Glitni Holdco hvaða hagsmuni þrotabúsins er verið að verja. Hagsmunir almennings eru hins vegar verulegir: Hann á rétt á upplýsingum um viðskiptahætti og viðskiptahagsmuni forsætisráðherra landsins, í tengslum við fall íslenska bankakerfisins árið 2008, á meðan hann sjálfur var fulltrúi almennings og bar því skylda til að gæta hagsmuna almennings.

Það er ekki aðeins réttur almennings að upplýst sé um viðskiptahagsmuni stjórnmálamanna, það er einnig mikilvægt til að ná stöðugleika í íslensku samfélagi eftir erfið og róstusöm ár, að traust skapist gagnvart Alþingi og stjórnmálamönnum. Slíkt traust myndast ekki sé komið í veg fyrir að fjölmiðlar geti sinnt því hlutverki sínu að gæta hagsmuna almennings.

Almenningur, ekki dómstólar, þarf að meta hvenær stjórnmálamaður bregst trausti eða misnotar aðstöðu sína. Til kasta dómstóla kemur ef áhöld eru um að stjórnmálamaður hafi brotið lög. Í aðdraganda kosninga er einkar mikilvægt að almenningur geti kynnt sér gögn um viðskipti forsætisráðherrans, þáverandi alþingismanns, í tengslum við atburði er vörðuðu fjárhagslega jafnt sem félagslega stöðu næstum hvers einasta Íslendings. Yfirgnæfandi meirihluti Alþingis samþykkti að sérstök Rannsóknarnefnd þingsins, hefði aðgang og heimild til að birta upplýsingar úr sömu gögnum sem Guardian og Stundin hafa nú undir höndum. Ekkert bendir til að þessir fjölmiðlar hafi haft í hyggju að birta aðrar upplýsingar úr gögnunum en þær sem varða hagsmuni almennings.

Lögbann Sýslumannsembættisins er því aðeins til þess fallið að rýra enn frekar traust almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Það grefur þar að auki undan trausti á réttarvörslukerfinu, sem hingað til hefur að mestu haldið trausti almennings.

Gagnsæi – samtök gegn spillingu sem berjast fyrir auknum heilindum og gagnsæi í stjórnsýslu og viðskiptum, fordæmir lögbann Sýslumannsins í Reykjavík og hvetur almenning og félagsmenn sína til að styðja Stundina í að vísa ákvörðun Sýslumanns til dómstóla, með fjárframlögum.

f.h. Gagnsæis, samtaka gegn spillingu

Stjórn Gagnsæis

https://www.gagnsaei.is/about/hver-erum-vid/