Spillingarhættur samfara ógagnsærri stjórnsýslu í frumvarpi utanríkisráðherra um breytingar á þróunarsamvinnu Íslands
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnarmaður í Gagnsæi og lektor í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, dregur fram í eftirfarandi pistli ýmis athyglisverð atriði og bendir á spillingarhættur varðandi frumvarp utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands og var fjallað um hér í frétt á visir.is.
Pistill Sigurbjargar
Til að gera grein fyrir tengslum mínum við þetta mál þá samdi ég, að beiðni utanríkisráðherra þáverandi, skýrslu á árinu 2008 sem byggir á stjórnsýsluúttekt minni á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Sú skýrsla lagði grunninn að núgildandi lögum um Alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Engin önnur tengsl hef ég við þetta mál, hvorki starfsleg, pólitísk né hagsmunaleg. Skýrslan, sem eldist vel, er dæmi um hagnýta beitingu þekkingar sem byggir á viðukenndum alþjóðlegum rannsóknum.
Aftur á móti eru ákveðin og augljós tengsl milli þess einstaklings sem skrifaði skýrsluna sem núverandi utanríkisráðherra byggir sínar tillögur á og viðfangsefnis skýrslunnar. Skýrsluhöfundur er starfsmaður Rauða Kross Íslands sem á ári hverju tekur við miklum styrkjum sem veittir eru á vegum utanríkisráðuneytisins með aðkomu Þróunarsamvinnustofnunar sem undirstofnunar ráðuneytisins. Meginefni tillögu ráðherra er að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa verkefni hennar inn í utanríkisráðuneytið. Skýrslan er stór að umfangi en rýr að þekkingu og skilningi á opinberri stjórnsýslu. Við lesturinn verða tengsl skýrsluhöfundar við efnið augljósari en þekkingin.
Mér sýnist að í umfjöllun um þetta mál séu bæði fjölmiðlar og þingheimur að falla á prófinu um almennt traust. Það verður að gera þá kröfu til ráðamanna að þegar ráðist er í miklar kerfisbreytingar þá þurfi menn að færa haldbær og trúverðug rök fyrir því hvers vegna það skipulag sem breyta á er ekki að virka og ná þeim markmiðum sem að er stefnt, og þá hvernig nýtt skipulag getur gert betur. Það hefur ekki verið gert í þessu máli.
Með því að leggja þau gögn og rök sem liggja til grundvallar núverandi skipulagi og núgildandi lögum að jöfnu við gögn og rök sem unnin eru af einstaklingi sem er starfsmaður samtaka sem hafa svo rík hagsmunatengsl við málaflokkinn þá eru bæði fjölmiðlar og þingheimur að gera sérfræðilega þekkingu annars vegar og sérhagsmunum sem tengjast beint ráðstöfun opinbers fjár hins vegar jafnt undir höfði. Almenningur þarf að geta treyst því að ákvarðanir um ráðstöfun skattpeninganna fari eftir leiðum sem byggja á bestu mögulegu þekkingu hverju sinni og að sú þekking þjóni almannahagsmunum, en ekki sérhagsmunum.
Takist ráðherranum ætlunarverk sitt þá mun stjórnsýsla þróunarsamvinnunnar og ráðstöfun þeirra fjármuna sem þar streyma í gegn verða ógagnsærri og opna á svigrúm fyrir ráðherrann til að hafa áhrif á styrkveitingar. Ógagnsæ stjórnsýsla býður upp á marga möguleika til að láta opinbera sjóði þjóna hlutverki kosningasjóða.
Eflaust er þetta dæmi um það hvernig Íslandi hefur alltaf verið stjórnað. Því verður sjálfsagt ekki breytt meðan við búum við stjórnmálamenningu sem stjórnmálamenn vilja ólmir halda í og veikburða fjölmiðla með fréttamenn sem hafa ekki tíma til að setja sig vel inn í málin, geta því ekki spurt réttra spurninga, svo stjórnmálamenn sleppa við að svara krefjandi og áleitnum spurningum.