Svigmenn og hagsmunatengsl í opinberri stjórnsýslu

Atv.EirikurÍ fyrirlestri Sigurbjargar Sigurgeirsdótttur á Hugvísindaþingi hinn 13.mars sl  kom eftirfarandi fram þar sem vísað var til Prof Janine Wedel og skilgreininga hennar á “svigmönnum” (e. flexians) sem rót umfangsmikillar spillingar af nýrri tegund. Þessi tegund spillingar felur það m.a. í sér að sami einstaklingurinn birtist í margþættum hlutverkum á mismunandi stöðum án þess að gera grein fyrir sér og því er ómögulegt að vita hvaða hagsmunum hann talar fyrir hverju sinni. Þannig brjóta þessir aðilar gegn almennu trausti.

Skilgreining Prof Wedel er þessi:

“Þeir riðla reglum og fyrirsvari  – …Þeir gegna fleiri hlutverkum en áður tíðkaðist og geta með auðveldari hætti látið hlutverk skarast og þannig myndað hagsmunatilviljanir (coincidence of interests)  – meðlimir slíkra tengslaneta  (flex net) mynda fjársjóð í formi tengsla (resource pool).

Þeir slaka á reglum og riðla mörkunum milli hins opinbera og einkageirans um leið og þeir koma sér fyrir og vippa sér á milli hlutverka sem skarast. Til verður blandað athafnasvæði  meðlima tengslanetsins í kringum stjórnvöld.”

Margt bendir til þess að það mál sem er nú til umfjöllunar í fjölmiðlum um íviljanir til fyrirtækisins Matorku sé dæmi um þá spillingu sem verið er að lýsa hér.

Úr umfjöllun Kjarnans:

„Lögmaðurinn Eiríkur S. Svavarsson, sem er einn eigenda fyrirtækisins Matorku sem nýverið gerði fjárfestingasamning við íslenska ríkið, kom fyrir atvinnuveganefnd þann 30. október síðastliðinn fyrir hönd Lögmannafélags Íslands til að ræða frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Fjárfestingasamningurinn sem fyrirtæki Eiríks gerði við ríkið byggir á því frumvarpi. Hann lét nefndina ekki vita af mögulegum hagsmunaárekstri.“

Sérfræðingar hjá Alþjóðabankanum (Joel Hellman og Daniel Kaufmann (2001)) höfðu eftirfarandi orð um hina nýju tegund spillingar í löndum austur Evrópu á tíunda áratug síðusta aldar:

„Í umbreytingarhagkerfum (e. transition economies), hefur spilling tekið á sig nýja mynd; – hinir svokölluðu klíkubræður, „ólígarkar“, vasast í stefnumótun stjórnvalda og móta jafnvel leikreglurnar sjálfir til að þjóna eigin hagsmunum og gefa sjálfum sér þannig einstakt forskot á við aðra á markaði.  Þetta kallast að „fanga ríkisvaldið“ (e. state capture).

„Hagkerfi sem er í greipum klíkubræðra (ólígarkanna) umbunar tengsl umfram hæfni og tekur áhrif fram yfir nýsköpun, – fjárfestingar klíkubræðra í  stjórnmálum kynda undir slíkri háttsemi sem aftur veikir stoðir ríkissins og grefur undan getu hins opinbera til að veita grunnþjónustu“

Fara í frétt Kjarnans hér
Fara í svar á heimasíðu ráðuneytis hér