Post mortem -þegar Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) heyrir sögunni til
Eftir að utanríkisráðuneytið yfirtekur ÞSSÍ munu öll framlög íslenskra skattgreiðenda til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lenda í „einum potti“ innan ráðuneytisins. Ég leyfi mér að segja að sá pottur mun verða „gruggugri“ eftir þann flutning. Þetta fullyrði ég, þar sem alla jafna er erfiðara að fylgjast með því sem gerist innan ráðuneyta en innan undirstofnanna þeirra. Það er t.d. fáheyrt að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á ráðuneyti. Almenna reglan í opinberri stjórnsýslu er sú að með því að koma velskilgreindum og afmörkuðum verkefnum fyrir í undirstofnunum utan ráðuneytis er auðveldara að fylgjast með því á hvern hátt fjármunum þar er varið. Það er ráðstöfun í þágu gagnsæis, sýnileika og almannahagsmuna.
Til þess að teljast framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu þurfa verkefnin sem fjármögnuð eru og aðferðirnar sem beitt er að standast alþjóðlegar viðmiðunarreglur sem fylgt er eftir af þróunarsamvinnunefnd OECD.
Fyrir utan þau þróunarsamvinnuverkefni sem unnin eru á vettvangi samstarfslands sem eru á verksviði ÞSSÍ þá er hart tekist er á um framlögin til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og þar takast á (a) viðskiptahagsmunir (t.d. fyrirtæki sem vilja fá ívilnanir/stuðning frá stjórnvöldum til að taka þátt í jarðhitaverkefnum í þróunarríkjum er dæmi um slíka hagsmuni), og (b) félagasamtök sem m.a. stunda mannúðar- og neyðaraðstoð (Þar er Rauði Kross Íslands einn af stærstu styrkþegum ráðuneytisins). Hvorki viðskiptahagsmunir Íslendinga í þróunarríkjum né strangt tiltekið mannúðar- og neyðaraðstoð teljast til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum reglum.
Aðalráðgjafi ráðherrans í málefnum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og þeim áformum ráðherrans að leggja niður ÞSSÍ er einn af æðstu yfirmönnum innan Rauða Kross Íslands. Þarna eru augljós hagsmunatengsl og þegar þau eru til staðar geta hagsmunaárekstrar tekið á sig ýmsar myndir. Þessi ráðgjafi ráðherrans talar því máli að íslensk stjórnvöld ættu að styðja við fyrirtæki í orkugeiranum sem vilja koma með jarðhitaverkefni inn í þróunarlönd, þrátt fyrir að slíkt teljist ekki til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Annað hvort er um alvarlegan þekkingarskort að ræða hjá ráðgjafanum eða honum hefur verið falið pólitískt erindi.
ATHUGIÐ: ef stjórnmálamenn vilja afla sér fylgis þá reyna þeir að ná til kjósenda í gegnum stofnanir sem vinna að almannahagsmunum í landinu, t.d. Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun o.fl. Enginn ráðherra aflar sér fylgis með störfum ÞSSÍ vegna þess að störf hennar eru á vettvangi þróunarlanda og íbúar þeirra hafa ekki kosningarétt á Íslandi. Aftur á móti er auðvelt og algengt að stjórnmálamenn reyni að afla sér fylgis með stuðningi sínum við íslensk félagasamtök og fyrirtæki og gildir þá einu hvort þessir aðilar eru með starfsemi á Íslandi eða erlendis.
Vegir spillingar eru oftast órannsakanlegir og mikil nýsköpun ríkir á þeim vettvangi. Spilling þrífst sérlega vel í gruggugum pottum.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnarmaður í Gagnsæi – samtökum gegn spillingu.
Athugasemd: Samtökin Gagnsæi voru stofnuð í lok árs 2014. Sigurbjörg sem sérfræðilegur ráðgjafi í opinberri stjórnsýslu gerði úttekt á skipulagi þróunarsamvinnunar 2007-2008 og skrifaði um það skýrslu sem lág til grundvallar nýjum heildarlögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, þ.e. þeim lögum sem nú eru í gildi.