Málstofa um mútur í alþjóðlegum viðskiptum

drago-kosInnanríkisráðherra skipaði í sumar starfshóp til að vinna að tillögum um hvernig bæta megi úr þeim vanköntum sem alþjóðastofnanir hafa bent á að séu á löggjöf, eftirliti og framkvæmdum íslenskra stjórnvalda til að draga úr spillingu hér á landi. Hópurinn hefur farið yfir ábendingar frá OECD, Greco og Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um eiturlyfja- og glæpastarfsemi (UNODC).

Hluti af starfi hópsins er að efla umræðu um spillingu og varnir gegn spillingu. Starfshópurinn stendur fyrir málstofu um mútur í alþjóðlegum viðskiptum fimmtudaginn 29. október næstkomandi. Málstofan fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og stendur frá 9 til 11.
Aðalgestur málstofunnar verður Drago Kos, formaður Vinnuhóps OECD,  sem fylgir eftir innleiðingu alþjóðlegs sáttmála á þessu sviði, gagnvart Íslandi og fjörutíu öðrum ríkjum. Meginmarkmið sáttmálans er að aðildarríkin geri það refsivert að bera mútur á erlenda opinbera starfsmenn og fylgi því eftir með fullnægjandi hætti. Erlend mútubrot eru vandamál í alþjóðlegum viðskiptum, þau skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, eru skaðleg góðum stjórnarháttum og grafa undan efnahagsþróun.
Fulltrúar atvinnulífs og stjórnvalda taka þátt í pallborðsumræðum ásamt Drago Kos að loknu erindi hans auk þess sem gestir geta borið fram spurningar úr sal.
Dagskrá:
1. Fulltrúi innanríkisráðuneytisins setur fundinn.
2. Kynning á efni málstofunnar. Sveinn Helgason, formaður Stýrihóps innanríkisráðuneytisins um eftirfylgni vegna innleiðingar alþjóðlegra samninga gegn spillingu og mútum.
3. Erindi Drago Kos – formanns Vinnuhóps OECD um erlend mútubrot – Working Group on Bribery.
4. Pallborð með þátttöku fulltrúa atvinnulífs og stjórnvalda.
5. Almennar umræður – spurningar úr sal.
Þátttaka tilkynnist til Sveins Helgasonar sveinn.helgason@irr.is en einnig er hægt að skrá sig frá klukkan 08:30 í anddyri Þjóðminjasafnsins á sjálfan fundardaginn.
Málstofan er öllum opinn. Nánari upplýsingar um dagskrána verður að finna á vefsvæði innanríkisráðuneytisins http://www.innanrikisraduneyti.is/verkefni/malaflokkar/spilling-og-mutur