Fiskað eftir fíflum

Fiskað eftir fíflum er titill nýjustu bókar Robert Shillers og George Akerlofs,Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Í bókinni, sem kom út 2015, fjalla þeir um hagfræði klækjabragða og blekkinga. Þeir lýsa því hvernig samkeppnin bæði á markaði og í
stjórnmálum hefur leitt til þess að sífellt er beitt nýjum og ágengari aðferðum til RobertShillerað fanga athygli og móta ákvarðanir fólks.

Að fiska eftir fíflum hefur þá merkingu hér að þeir sem fiska (fiskarar) beita agni til að lokka fólk til að taka ákvörðun um að kaupa eða kjósa það sem ekki er endilega það skynsamlegasta fyrir það sjálft, heldur fyrst og fremst hagfellt fyrir þá sem eru að fiska. Að mati Shillers og Akerlofs eru þeir sem bíta á agnið fífl í tvennum skilningi, sálfræðilegum og upplýsingalegum. Fólk er fífl í sálfræðilegum skilningi vegna þess að í fyrsta lagi leyfir fólk „fiskurum“ að höfða til tilfinninga og þannig valta yfir heilbrigða skynsemi þess, og í öðru lagi, fólk lætur staðfestingarskekkju (það er tilhneiging til að vilja trúa því sem þú heldur eða vilt trúa án þess að það standist skoðun) byrgja sér sýn, mistúlkar þannig raunveruleikann og tekur ákvarðanir á grundvelli mistúlkana. Fólk er fífl í upplýsingalegum skilningi vegna þess að það meðtekur misvísandi upplýsingar sem settar eru þannig fram beinlínis í þeim tilgangi að blekkja það. Öll lendum við í því á lífsleiðinni að láta fiska okkur sem fífl og finnast það miður í meira lagi.

Valfrjálst fólk? – frjálst val ekki svo frjálst þegar allt kemur til alls

Shiller og Akerlof eru þarna á svipuðum slóðum og hagfræðingurinn Richard Thaler sem kemur fram í kvikmyndinni The Big Short, náin samstarfmaður sálfræðingsins Daniel Kahnemans og lögfræðingsins Cass Sunstein. Sunstein var meðhöfundur Thalers að bókinni „Nudge“ sem fjallar um það hvernig fá má fólk til að taka ákvarðanir sem eru því sjálfu til hagsbóta, án þess að beita boðum eða bönnum. Þessir hagfræðingar eiga það sameiginlegt að þeir teygja sig yfir vegginn milli vísindagreina og nálgast viðfangsefnið út frá fleirri en þeirra eigin fræðigrein. Líkt og í bókinni „Nudge“ þá leita Shiller og Akerlof í smiðju sálar- og atferlisfræðinnar og draga ályktanir á grundvelli atferlishagfræðinnar um hegðun fólks við ákvarðanatöku. Og líkt og þeir Thaler og Sunstein þá segja þeir einfaldlega að þeir sem geri ráð fyrir því að næstum allir, næstum alltaf, taki ákvarðanir sem eru hagsmunum þeirra fyrir bestu, eða að minnsta kosti betri en ákvarðanir sem væru teknar af öðrum, hafi rangt fyrir sér, – enda trúi þessu enginn að vel athuguðu máli. Þessi afstaða hagfræðinganna er ekki aðeins eitur í beinum þeirra sem trúa á yfirburði hins frjálsa og óhefta markaðar, heldur eru hún líka truflandi fyrir stjórnmálafræðinga sem hallast að hugmyndinni um hin almenna kjósanda (the median voter) og kenningum um að skynsemishyggja ráði ákvörðunum.

Fiskað eftir fíflum í boð fjölmiðla

Ekki er hægt að fiska eftir fíflum nema með aðstoð fjölmiðla og af henni er nóg. Donald Trump fiskar vel í forkosningunum í Bandaríkjunum fyrst og fremst með aðstoð fjölmiðla sem lepja eftir honum stóryrði og stuðandi yfirlýsingar. Trump veit af því og fær því ókeypis auglýsingar; því yfirgengilegri sem framkoma hans og yfirlýsingar eru því meiri auglýsingu og athygli. Þetta selur og hér geta hagsmunir frjálsu fjölmiðlanna og frambjóðenda af þessu tagi farið saman.

Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á því að fiska má eftir fíflum með góðum árangri. Fólk treystir því almennt að það sem birtist á síðum dagblaða sé fréttnæmt og að á ritstjórninni hafi farið fram ákveðið fréttamat fyrir birtingu. Í forsíðuviðtölum við stjórnmálamenn, hvernig sem þau eru til komin, keypt eða ekki, er verið að miðla sögu sem hefur þann tilgang að búa til eða styrkja ákveðna ímynd. Slík viðtöl eiga meira skylt við markaðsetningaraðferðir auglýsenda en frétt samkvæmt fréttamati.

Athyglisbrestir: markaðsbrestir stjórnmálaumræðunnar

Reykvíkingar fengu sína útgáfu af „Trumpnálgunni“ í kosningabaráttu Bestaflokksins hér um árið. Óhefðbundin framboð virðast ná árangri með því að fara óhefðbundnar leiðir til að ná athygli kjósenda. Hefðbundnari framboð sem hafa ráð á að hafa í þjónustu sinni spunameistara nýta sér það að fólk er fífl bæði í sálfræðilegu og upplýsingalegu tilliti. Til að ná árangri þarf yfirleitt dágóðan skammt af óskammfeilni til að geta beitt vísvitandi brögðum og blekkingum.

Í aðferðum hefðbundinna stjórnmálaflokka og frambjóðenda þeirra má vel sjá hvernig málum er vísvitandi drepið á dreif (stundum kallað smjörklípuaðferð), mál afvegaleidd, endurskilgreind eða tekin úr samhengi til að hagræða framsetningunni. Allt eru þetta aðferðir sem gera ráð fyrir athyglisbresti, hræðslugirni, gullfiskaminni og fjötraðri skynsemi kjósenda. Í umræðu undanfarin misseri eru sumar aðferðir framsóknarmanna áberandi og vandræðalega augljósar í þessu tilliti.

Hvernig listin að vinna kosningar er listin að leika á fólk

Hugmyndir forsætisráðherra um nýja staðsetningu Landspítalans mætti skilja sem smjörklípu; tilraun til að draga athyglina frá vondu máli í uppsiglingu. Þetta gæti þó allt eins verið upptakturinn að kosningabaráttunni 2017, en flokkur forsætisráðherrans er þekktur fyrir að þefa uppi óánægjufylgi; taka upp deilumál, skilgreina á eigin forsendum um hvað málið snýst og þannig ákvarða um hvað umræðan og þar með pólitíkin í kosningabaráttunni á að snúast. Moskumálið og flugvallarmálið fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar er dæmi um þetta. Húsnæðismálin eru mál sem snerta öll heimilin í landinu og því kjörlendi “fiskara”. Þannig voru 90% lánin á sínum tíma og síðan stóra skuldaleiðréttingin kosningaaðferð eða agn sem kjósendur bitu margir á.

Sú aðferð forsætisráðherrans að tjá sig ekki um stórmál á borð við fjárhagsleg tengsl sín við skattaskjól og kröfuhafa bankanna er dæmi um það hvernig beðið er átektar til að fá fram flest viðbrögðin í umræðunni, líkt og þegar árásarmenn eru látnir tæma skotfærin. Með því að láta bíða eftir sér getur sá sem deilt er á fengið mikla athygli og getur því valið hvar og hvenær tekið er til máls og hvað er gert að aðalatriði málsins. Á vefsíðu forsætisráðherrans kom fyrsta útspilið. Þar snéri ráðherrann málinu á hvolf vegna þess að hann fann í umræðunni tækifæri til að beina athyglinni að einu atriði og gera það að aðalatriði málsins; eiginkona hans hafði verið kölluð hrægammur. Það gaf ráðherranum tækifæri á að höfða til tilfinninga lesenda og vera hetjulegi eiginmaðurinn sem af tilfinningaþunga kemur konu sinni til varnar.

Svona til upprifjunar, þá hafði hins vegar þessi sami forsætisráðherra sjálfur endurskilgreint kröfuhafa bankanna sem hrægamma; stærstu ógnina við íslenskan efnahag. Það gaf honum kost á að upphefja sjálfan sig og flokkinn sinn sem þann eina bjargvætt sem þjóðin gæti treyst. Þetta er kennslubókardæmi um það hvernig leika á leiki til enda og vinna kosningar með brögðum og brellum; vandamálið er skilgreint til að þjóna lausninni, en ekki öfugt.

Að fiska eftir fíflum felur í sér freistnivanda

Ef það sem þjóðin veit núna hefði legið fyrir á þessum tíma, má telja líklegt að þetta agn, það er hræðsla við hrægamma, hefði ekki verið nothæft til að fiska eftir fíflum. Fulltrúinn (ráðherrann)  vissi það sem umbjóðandinn (þjóðin) vissi ekki og notfærir sér það í eigin þágu. Þetta er sá trúnaðarbrestur sem upp er kominn milli forsætisráðherrans og þjóðarinnar.

Sigurbjorg_S

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Gagnsæi