Þegar aðeins fjölmiðlar eru eftir: Vald, vanhæfi og óhæfi
Samkvæmt ýmsum viðurkenndum alþjóðlegum mælikvörðum er ástandið á Íslandi harla gott. Þótt við séum ekki að raða okkur í efstu sætin í mælingum á spillingarupplifun eða lýðræði um þessar mundir, eins og var fyrir hrun, þá fer því fjarri að Ísland þurfi að bera sig saman við einhver önnur lönd en þau sem eru á toppnum um lífsgæði, aðstæður, tækifæri og þar fram eftir götunum.
En það er vissulega ráðgáta hvernig allt þetta er mögulegt þegar stofnanaumhverfi okkar er jafn frumstætt og raun ber vitni, kröfur til æðstu embættismanna og stjórnmálaleiðtoga jafn óljósar og völd hinna efnameiri svo augljóslega langt umfram það sem pólitískur jöfnuður ætti að leyfa.
Ef ekki vildi svo til að harðsnúinn hópur fjölmiðlafólks héldi uppi gagnrýni á valdhafa, þá kæmust íslenskir ráðamenn upp með ýmislegt sem kollegar þeirra í nágrannalöndunum myndu vart láta sig dreyma um. Þannig er það eingöngu vegna framgöngu fjölmiðla sem lekamálið í Innanríkisráðuneytinu var leitt til lykta með afsögn ráðherra og dómsmáli gegn aðstoðarmanni hennar. Þótt menntamálaráðherra hafi ekki sagt af sér er hann rúinn trausti og trúverðugleika eftir að skuldamál hans voru afhjúpuð í fjölmiðlum. Það sést líka að fjölmiðlar gera greinarmun á því sem er einkamál fólks og þess sem er það ekki á umfjöllun um skráningu fjármálaráðherrans á alþjóðlegri framhjáhaldssíðu. Þegar málið hafði valdið ýmsu skensi í nokkra daga hvarf það úr fjölmiðlaumræðu.
Það er því nokkuð ljóst að eigi nýjasti skandallinn ekki að líða hjá án áhrifa, afleiðinga eða eftirkasta verða fjölmiðlarnir að standa sig.
Hvað gerist næst?
Umræðan um stöðu forsætisráðherrans eftir að eignir og fjárumsýsla konu hans er á allra vitorði er eitt skref í þróun sem ætti að verða til þess að stjórnmálamenn færu að gera sér grein fyrir því að þeir þurfa að sjá fyrir mögulega gagnrýni á hagsmunatengsl sín jafnvel þó að þeir geti strangt tekið haldið því fram að þeir hafi ekki brotið reglur með því að segja ekki frá þeim.
Það er ekki gott að segja hvernig mál forsætisráðherrans fer, en þó blasir við að ef allt væri með felldu í íslenskum stjórnmálum myndi annað hvort hann segja af sér eða samstarfsflokkurinn hætta stjórnarsamstarfinu. Sú atburðarás er ólíkleg eins og sakir standa. Þótt einn og einn sjálfstæðismaður láti í ljós óánægju er greinilegt að hvorki þeir né framsóknarmenn eru nægilega hneykslaðir á málinu til að þeir geti komist hjálparlaust að slíkri niðurstöðu. Það er einmitt þess vegna sem fjölmiðlar verða að halda áfram að upplýsa allar hliðar málsins og skýra þær. Sjaldan hefur hlutverk þeirra verið mikilvægara.
Ef allt væri með felldu í íslenskum stjórnmálum myndi annað hvort hann segja af sér eða samstarfsflokkurinn hætta stjórnarsamstarfinu.
Fjórar hliðar málsins: Trúverðugleiki, áhrif hagsmuna, pólitík og hæfni
Í fyrsta lagi varðar málið upplýsingaskyldu og trúverðugleika. Það er í rauninni ekki deilumál að í lýðræðissamfélagi nútímans verða einstaklingar sem taka að sér æðstu embætti að gæta þess að allar upplýsingar um eignir þeirra og eignatengsl, fjárhagsstöðu, skuldastöðu og annað sem fjármálum þeirra tengjast, liggi fyrir. Eina ástæðan fyrir því að ráðherra eða aðrir æðstu embættismenn gætu látið ógert að segja frá slíku væri að um of léttvæg mál eða lítilfjörleg sé að ræða til að þau skipti máli. Í máli forsætisráðherrans er því engum blöðum um það að fletta, hvað sem formlegum reglum um hagsmunaskráningu eða siðareglum líður, að hann hefði átt að segja frá eignastöðu konu sinnar fyrir mörgum árum.
Í öðru lagi snýst þetta um raunveruleg áhrif hagsmunatengsla á afstöðu og málflutning. Stuðningsmenn forsætisráðherrans hafa reynt að halda því fram að augljóslega hafi hann beitt sér af harðfylgi í þágu almennings í málinu og þar með gegn hagsmunum konu sinnar, en þetta er einföldun. Þótt ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir því að ná sem hagstæðustum samningum við kröfuhafa, er ekki þar með sagt að einungis hagsmunir íslensks almennings hafi ráðið ferðinni og það þýðir að hægt er að sá fræjum efasemda um framgöngu forsætisráðherra um allar tilslakanir gagnvart kröfuhöfum. Og það er einmitt af slíkum ástæðum sem minnstu hagsmunatengsl ættu að vera næg ástæða fyrir ráðherra til að lýsa vanhæfi í stórum málum (og jafnvel litlum).
Í þriðja lagi er málið hápólitískt. Það er í besta falli dálítið neyðarlegt og í versta falli til marks um óheilindi að leiðtogi ríkisstjórnar sem leggur alla áherslu á að Íslendingar noti sinn eigin gjaldmiðil skuli vera í hópi þeirra sem í raun hafa alltaf vitað vel að eignum þeirra væri best borgið utan krónuhagkerfisins. Þótt hér sé allt löglegt má í vissum skilningi sjá hliðstæðu í þessu við hvernig stjórnmálamenn í ríkjum sem við viljum ekki endilega bera okkur saman við tryggja eignir sínar erlendis, þar sem þeir vita manna best hversu hratt mál geta snúist þeim í óhag heima fyrir.
Í fjórða lagi vakna áleitnar spurningar um hæfni ráðherrans til að gegna embætti sínu – já ég er að tala um hæfni – ræður maðurinn við þetta?. Þetta er kannski dýpsta og óþægilegasta hlið málsins. Hæfir stjórnmálamenn og embættismenn eiga að geta áttað sig á því fyrir það fyrsta hvert hlutverk þeirra er í stjórnkerfinu. Í lýðræðisríki hefur enginn ótakmörkuð völd eða galopið hlutverk. Forsætisráðherrann mótar ekki hlutverk sitt nema að litlu leyti, að mestu gengur hann inn í vel skilgreint starf sem veitir honum mikil en þó skýrt afmörkuð völd. Þeir þurfa einnig að skilja takmarkanirnar á persónulegu frelsi sínu sem starfinu fylgja. Þannig er til dæmis augljóst að sá sem er í aðstöðu til að móta stefnu, leggja drög að ákvörðunum og leiða mál til lykta, hefur ekki sama frelsi til að tjá prívat vangaveltur sínar og skoðanir á opinberum vettvangi og hver annar almennur borgari. Allt sem hann eða hún segir um viðhorf sín og skoðanir hlýtur almenningur að skilja í ljósi valdanna til að stjórna samfélaginu í samræmi við þessar skoðanir.
Vanhæfi og óhæfi
Hluti þess sem hver borgari í lýðræðisríki þarf að sætta sig við er sú staðreynd að völd eru tengd við meirihluta. Sá sem er svo óheppinn að viðhorf hans eða hennar fara sjaldan saman við meirihlutaskoðun upplifir sig skiljanlega oftast í andstöðu við ríkjandi hugmyndir í samfélaginu. Þessu má þó ekki rugla saman við kröfuna um að þeir sem með völdin fara hverju sinni viðurkenni ákveðnar grunnreglur, skráðar og óskráðar um framkomu sína og breytni á meðan þeir gegna starfinu. Enginn á að þurfa að sætta sig við að lúta valdi fólks sem skeytir ekki um slíkar reglur, hefðir og venjur, ekki einu sinni þeir sem aldrei eru sáttir við þá sem með völdin fara.
Reglur af þessu tagi hafa ekki síst þann tilgang að tryggja að hagsmunaárekstrar eða ýmis annarleg sjónarmið hafi ekki áhrif á stefnu og ákvarðanir stjórnvalda. Þær eru augljóslega mjög mikilvægar sem hluti af aðhaldi almennings og eftirliti með stjórnvöldum. En þær tryggja ekki að þeir sem öðlast völd í lýðræðislegu ferli hafi þá hæfni sem nauðsynleg er til að fara með völd. Jafnvel þar sem ríkar hæfiskröfur eru gerðar um störf ráðherra, eru ekki að sama skapi gerðar til þeirra hæfniskröfur.
Í rauninni er alltaf gert ráð fyrir því að kerfið sjálft lágmarki skaðann af því að til æðstu embætta veljist fólk sem skortir hæfni til að gegna þeim – sem er með öðrum orðum óhæft. Skilvirkt embættismannakerfi og stjórnsýsla á að sjá til þess að allt starfi með eðlilegum hætti, pólitískir samstarfsmenn og aðstoðarmenn geta bætt slíkt upp og í ríkisstjórnarsamstarfi má gera ráð fyrir því að veikleikar af þessu tagi verði til þess að minnka líkur á að fólk sem er óhæft til að fara með völd hafi þau lengi og svo framvegis.
En þetta er auðvitað ekki óbrigðult. Því vaknar spurning um ábyrgð og úrræði þegar fólk í æðstu embættum reynist óhæft til að gegna þeim en gegnir þeim samt langtímum saman. Auðvitað tengist vanhæfi og óhæfi að einhverju leyti. Það má til dæmis segja að ráðherra sem skeytir ekki um eðlilega upplýsingaskyldu, skilur ekki eðli og birtingarmyndir hagsmunaárekstra og heldur því fram að pólitísk óheilindi séu einkamál, hafi ekki nauðsynlega hæfni til að gegna embætti sínu vegna þess að hann skilji ekki eða neiti að viðurkenna réttmætar forsendur þess.
Tvennt greinir óhæfi frá vanhæfi: Annars vegar það að við höfum yfirleitt ekki formlegar leiðir til að skera úr um óhæfi ráðamanna, ólíkt vanhæfi sem varðar einstök verkefni og hægt er að meta í ljósi reglna og sjónarmiða um eðlilega starfshætti. Hins vegar það að vanhæfi er á ábyrgð manns sjálfs – allir sem gegna ábyrgðarstörfum þurfa að átta sig á því og bregðast við þegar um slíkt er að ræða – en óhæfi er á ábyrgð hinna – þeirra sem láta það viðgangast eða sætta sig ekki við það. Hinir óhæfu skilja sjaldnast sjálfir að þá skortir nauðsynlega hæfni. Þeir halda oft, þvert á móti, að þeir séu ákaflega snjallir.
En staðreyndin er því miður sú að við getum gefið okkur að bollaleggingar af þessu tagi skipta engu máli um hvernig samstarfsflokkur framsóknarmanna í ríkisstjórn metur sína stöðu og áframhaldandi samstarf í ljósi framgöngu forsætisráðherrans. Þegar stofnanir standa veikt og ferlar eru óljósir er hægt að spinna hlutina út í það óendanlega. Þess vegna verða fjölmiðlar að halda áfram að hjakka í málinu, spyrja erfiðra spurninga og krefjast þess að þeir sem ábyrgðina beri svari spurningum og geri hreint fyrir sínum dyrum.
Jón Ólafsson, prófessor við Heimspekideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Gagnsæi. Pistillinn var áður birtur á Stundin.is