Áskorun Gagnsæis til forsætisráðherra og ríkisstjórnar Íslands

Stjórn Gagnsæis skorar á nýjan forsætisráðherra og ríkisstjórn Íslands að staðfesta þegar í stað siðareglur fyrir ráðherra, eins og kveður á um í 24. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 og birta með sannanlegum hætti. Í ljósi atburða síðustu daga ætti mikilvægi þess að slíkar reglur séu teknar alvarlega að blasa við.

Jafnframt beinir stjórn Gagnsæis þeim tilmælum til forsætisráðherra að ríkisstjórnin nýti heimild siðareglnanna til að fara fram á að ráðherrar skrái viðbótarupplýsingar um fjármál sín. Auk þeirra upplýsinga sem farið er fram á í hagsmunaskráningu Alþingis veiti ráðherrar upplýsingar um eignir sínar og skuldir sem og eignir og skuldir maka.

Í tilmælum GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, til íslenskra yfirvalda í mars s.l. er sérstaklega bent á að mikilvægt sé að slíkar fjárhagsupplýsingar liggi fyrir til að draga úr hættu á spillingu.

Fyrirspurnum vegna áskorunar þessarar má beina til Jóns Ólafssonar, stjórnarmanns í Gagnsæi á jonolafs@hi.is