Spilling heldur aftur af kynjajafnrétti á heimsvísu

Talið er að kynjajafnrétti sé náð þegar öll kyn hafa jöfn réttindi, lífskjör og tækifæri til þess að skapa sér það líf sem þau óska sér, sem og til þess að gefa til baka til samfélagsins.

Því miður er enn langt í land að jafnrétti kynjanna sé náð og má rekja eina orsök þess til spillingar. Spilling og misrétti kynjanna haldast í hendur á margan hátt og ýta hvort undir annað. Einnig er spilling stór hindrun þegar kemur að þróun og hagvexti í þróunarlöndum og virðist oft vera að þar sem spilling og misrétti kynjanna er meira, þar hægist á þróun. Spilling hefur einnig mismikil áhrif á stéttir og hefur víðtækari áhrif á þá sem eru fátækari, og sérstaklega þá sem ekki þekkja réttindi sín og geta því ekki barist fyrir þeim.

Spilling birtist í mörgum myndum og hefur áhrif á bæði konur og karla, en birtingarmyndin er oft önnur á milli kynjanna, sérstaklega þar sem kynjabilið er meira. Á mörgum svæðum í þróunarlöndum tíðkast það að þurfa að borga mútur til þess að fá aðgang að ýmsum nauðsynjum, og jafnvel menntun eða heilbrigðisþjónustu. Þegar konur hafa ekki efni á að borga mútur eru þær oft óvarðar gegn kynferðislegri misnotkun og líkamlegu ofbeldi, og verður lægri staða kvenna í samfélögum til þess að þær eru varnarlausar gegn slíku misrétti.

Spilling hefur einnig áhrif á möguleika kvenna til þess að koma sér á framfæri í starfi, stjórnmálum og hafa áhrif á ákvarðanatöku. Það leiðir til þess að konur hafa minni möguleika til þess að hafa áhrif á málefni er þær varða og viðheldur það vítahringnum. Spilling gerir einnig erfiðara fyrir þær að berjast gegn því að brotið sé á þeim og er mansal eitt dæmi um það. Áttatíu prósent allra þeirra sem lenda í mansali eru konur og stúlkur, og eru þær seldar sem þrælar og notaðar fyrir kynlíf. Mansal fer meðal annars í gegnum spillta lögreglumenn, tollverði og landamæraverði.

Spilling jaðarsetur ennfremur konur sem lifa við fátækt, þar sem spilling takmarkar aðgang þeirra að opinberri þjónustu og nauðsynjavörum, og skilur þær eftir í efnahags-, félags- og stjórnmálaþróun í þeirra landi. Þar af leiðandi heldur spilling aftur af kynjajafnrétti og ætti að vera ávörpuð í stefnumálum er varða kynjajafnrétti.

Samtökin Gagnsæi vilja einnig vekja athygli á viðburði sínum sem haldinn verður í dag, 5. des. kl. 20.00 í kjallaranum á Kryddlegin Hjörtu, Hverfisgötu 33. Þar mun Lawrence Lessig, prófessor í stjórnskipunarrétti við Harvard háskóla, tala um spillingarhugtakið, spillingu í stjórnmálum og ráð til að draga úr pólitískri spillingu.

Hægt er að lesa meira um málefni er varða spillingu á www.gagnsaei.is og Facebook síðu samtakanna.

____________

Höfundur er Rut Einarsdóttir