Ákærur og dómar vegna hrunmála

Núna þegar árið 2017  er senn á enda runnið, eru enn 3 stór hrunmál sem eiga eftir að koma til kasta Hæstaréttar og  1 mál sem tekið verður til aðalmeðferðar hjá Héraðsdómi 17.janúar 2018.  Um er að ræða Chesterfield málið, sem fjallaði um umboðssvik og lánveitingu vegna kaupa á skuldabréfi tengdu skuldatryggingarálagi Kaupþings þar sem tjón Kaupþings var talið a.m.k. 520 milljóni evra.   Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað eftir að hafa ógilt sýknudóm á grundvelli ónógs rökstuðnings og rannsóknar.   Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson eru ákærðir í málinu, en Hreiðar Már og Sigurður hafa þegar uppfyllt 6 ára refsiramma í öðrum málum .  Stímmálið, þar sem ákært var fyrir markaðsmisnotkun og lán fyrir hlutabréfum í Glitni  var einnig vísað aftur í hérað vegna vanhæfis dómara, en nýr dómur féll í héraði þann 21. desember s.l.  Lárus Welding hlaut 5 ára dóm í héraði og hefur þá uppfyllt refsirammann en Jóhannes Baldursson hlaut 2ja ára dóm og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson 1,5 árs dóm.

Þá mun aðalmeðferð vegna markaðsmisnotkunarmáls Glitnis hefjast í héraði 17. janúar n.k. Þar koma aftur við sögu Lárus Welding og Jóhannes Baldursson, auk Jónasar Guðmundssonar, Valgarðs Más Valgarðssonar og Péturs Jónssonar starfsmanna Glitnis.   Marple málið sem dæmt var í öðru sinni í byrjun júlí s.l. var áfrýjað til Hæstaréttar.  Það fjallar um 8 milljarða fjárdrátt og umboðssvik Hreiðars Más Sigurðssonar, Magnúsar Guðmundssonar auk  hlutdeildar Skúla Þorvaldssonar í meintum brotum þeirra.

Tafla_domar

Í töflunni hér ofar má sjá samantekt yfir niðurstöður og fjölda dómsmála í héraði og Hæstarétti.  Fjöldi ákærða er 71 en  sömu einstaklingar geta komið að fleiri málum og teljast því oftar.  Í Héraði hefur verið kveðinn upp dómur yfir 62 einstaklingum, þar af hafa 30 verið sýknaðir og 32 eða 53% verið dæmdir sekir.  Í Hæstarétti er sektarhlutfallið mun hærra, en þar hafa verið kveðnir upp dómar yfir 52 einstaklingum, þar af hafa 41 eða 79% verið dæmdir sekir og refsitími ákvarðaður alls tæplega 88 ár.

Dómar í markaðsmisnotkunarmálum hafa verið mjög þungir og því  gæti fjöldi refsiára numið yfir 100 árum áður en yfir lýkur í dómarasögu hrunmála.  Hér er linkur á samantekt og yfirlit yfir mál sem greinahöfundur skilgreinir sem hrunmál.

― ― ―

Höfundur: Jenný Stefanía Jensdóttir, situr í stjórn Gagnsæis