Meira gagnsæis er þörf í upplýsingagjöf lífeyrissjóða
Landsmenn greiða háar fjárhæðir inn í lífeyriskerfið, til að safna fyrir árunum þegar vinnu er lokið. Þetta þurfa landsmenn að greiða skv. lögum, þetta er ekki val. Þess vegna er það afskaplega mikilvægt að landsmenn fái allar upplýsingar um þessa sjóði, árangur, ávöxtun og aðra framistöðuþætti á þann hátt að landsmenn geti borið lífeyrissjóði saman, bæði til að taka upplýsta ákvörðun um hvaða sjóðir eru að standa sig vel og svo einnig til að efla gagnsæi, aga og samkeppni sjóða.
Því miður hefur það verið svo að gagnsæi í upplýsingagjöf sjóða, einkum er varðar langtímaávöxtun, hefur ekki alltaf verið nægjanlegur. Almenningur á erfitt með að bera sjóði saman til langs tíma litið því þessar upplýsingar liggja hvergi fyrir á aðgengilegu formi.
Reyndar eru þessar upplýsingar „birtar“ með vissum hætti, tæknilega séð. En til að bera sig saman þarf sérfræðikunnáttu, að safna saman gögnum úr talnasafni Fjármálaeftirlits, skoða ársreikninga og meta sameiningarhlutföll. Í einu skjali í talnasafni eru gjarnan um 10.000 tölur. Skoða þarf skjöl fyrir hvert ár, allt aftur eins og talnasafnið nær, til að bera saman árangur lífeyrissjóða. Til að fá heildarmynd þarf því að glöggva sig á a.m.k. 20 talnasöfnum sem geyma þar með yfir 200 þúsund tölur, finna þær réttu og reikna þær svo rétt saman. Eftir slíka vinnu væri hægt að fá heildaryfirlit. Augljóst er að þetta er ekki eitthvað sem einstaklingar hrista fram úr erminni.
Nýlega birtist grein eftir þá Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Hallgrím Óskarsson, verkfræðing og varaformann Gagnsæis. Þar kemur fram að ávöxtun lífeyrissjóða er mjög misjöfn, allt frá 1,25% til 6,16%, sé langt tímabil skoðað aftur í tímann (1997-2016), eða 20 ár (greinina má sjá hér).
Í þessu sambandi er athyglisvert er að skoða ýmislegt efni frá sjóðum sjálfum (ársreikninga, vefsíður, auglýsingar o.fl.) og orðalag þar sem notað er til að lýsa gengi sjóða. Eru ýmis dæmi þar sem talað er um að tiltekinn sjóður sé traustur og öruggur og að ávöxtun sé mjög góð þegar reyndin er í einhverjum tilfellum að um er að ræða fremur slakan árangur sé skoðað til lengri tíma. Eitt er að hafa góða ávöxtun yfir sérvalið tímabil en mikilvægara er að geta þess hvernig hefur gengið á ársgrunni eins langt aftur og sjóður (eða forverar hans) hefur starfað. Í einhverjum tilfellum eru dæmi um efstu stig lýsingarorða og að talað sé um einstakan árangur sjóða þegar dæmi eru um sjóði sem eru í reynd mjög neðarlega á lista, sé ávöxtun innlendra skyldulífeyrissjóða skoðuð yfir langt tímabil.
Sjóðsfélagar eiga ekki skilið svona loðna upplýsingagjöf. Þeir eiga það skilið að fá skýrar, greinilegar og samanburðarhæfar upplýsingar, útgefnar af óháðum aðila, þar sem raunverulegur árangur sjóða (ávöxtun) er borin saman við aðra sjóði. Allt of mikill skortur á gagnsæi hefur ríkt of lengi um þessar upplýsingar hér á landi.
Í Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Hollandi og víðar er ávöxtun sjóða birt mjög oft mörg ár aftur í tíman – stundum marga áratugi aftur í tímann og gert aðgengilegt fyrir almenningi. Sjóðir hér á landi hafa oft sagt að það eigi ekki að bera þá saman af því þeir hafa mismunandi fjárfestingastefnu en ef slík rök halda þá ætti aldrei að bera saman neinn árangur íslenskra sjóða. Þar væri ekki verið að hugsa um eðlilega upplýsingagjöf til almennings. Vera má að sjóðir hafi mismunandi fjárfestingastefnu en það gildir einu, almenningur á réttláta kröfu sem er að fá þessar upplýsingar betur upp á borðið en verið hefur. Sem betur fer hillir undir að það séu gagnsærri tímar framundan í þessum efnum en það er ekki endilega af frumkvæði lífeyrissjóðanna sjálfra.
Einnig er áhugaverð sú regla sem gildir yfirleitt í þessum löndum líka, þó að hún sé með breytilegu sniði á milli landa. Þar er það þannig að sjóðir eiga ekki að matreiða upplýsingar um ávöxtun og aðra framistöðuþætti því reynslan sýnir að þeir hafa tilhneigingu til að birta góðu tímabilin oftar en þau slæmu. Í Þýskalandi, Sviss og víðar verða sjóðir að setja fram beina tilvitnun óháðs ráðgjafa um það hvernig ávöxtun og aðrir framistöðuþættir eru gagnvart tilteknum sjóði. Þar er það orðspor ráðgjafanna sjálfra sem er í húfi; þeir vilja gefa almenningi skýrar upplýsingar og því er það þeirra hagur að birta eins gagnsæja útgáfu eins og hægt er af raunverulegri framistöðu sjóða til að þeir sem lesi – almenningur – öðlist traust á viðkomandi ráðgjafa og að hann verði þá eftirsóttur til að tala um sjóði. Þetta er ágætis fyrirkomulag sem eykur gagnsæi í upplýsingagjöf til almennings.
Sjá nánari fréttir um þessi mál:
„Núverandi kerfi er lífeyrishappadrætti“
http://www.visir.is/g/2018180519926
„Bestu lífeyrissjóðir skila fjórfalt meiri ávöxtun en hinir lökustu“
http://www.visir.is/g/2018180508993