Eftirfylgniskýrsla fimmtu úttektar GRECO

GRECO, samtök Evrópuríkja gegn spillingu, hafa gefið út skýrslu um lokaniðurstöður fimmtu úttektar sinnar á íslenskri stjórnsýslu, sem snýr að æðstu handhöfum framkvæmdavalds og löggæslustofnanna.

GRECO lagði til 18 tillögur, níu sem snúa að hvorum þættinum fyrir sig.

Í skýrslunni kemur fram að af tillögum sem snúa að æðstu handhöfum framkvæmdavalds hafa fjórar tillögur verið útfærðar á fullnægjandi hátt, fjórar útfærðar að hluta og ein ekki útfærð. Af tillögum sem snúa að löggæslu hefur engin verið útfærð á fullnægjandi hátt, þrjár verið útfærðar að hluta og sex ekki útærðar.

Munurinn felst í því að fyrri tillögurnar liggja hjá forsætisráðuneytinu sem uppfyllti þær að miklu leyti með því að stofna starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og útbúa út frá þeirri vinnu frumvarp sem nú er orðið að lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds hjá Stjórnarráði Íslands – meðan síðari tillögurnar liggja hjá dómsmálaráðuneytinu þar sem umbótastarf hefur gengið hægar. Vonir eru bundnar við að sú heildarendurskoðun sem stendur yfir innan dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslu lögreglunnar skili áþreifanlegri árangri en eftir stendur að ekki náðist að uppfylla nokkrar af tillögunum innan settra marka.

Athygli vekur síðan að þó svo að GRECO líti svo á að tillaga um regluverk um starfsval æðstu handhafa framkvæmdarvalds þegar þeir láta af störfum fyrir stjórnvöld hafi verið uppfyllt að forminu til, þá benda samtökin engu að síður á því að það nái yfir of þröngt svið (einungis yfir störf sem snúa að hagsmunavörslu) og að of skammur ‘kælingartími’ (sex mánuðir) sé settur eftir að látið er af störfum.

Einnig er horft til þess að ekki hafi ennþá reynt á hvernig ný löggjöf um varnir gegn hagsmunaárekstrum virki í framkvæmd.

Skýrsluna má nálgast hér á vef Stjórnarráðsins