Árni Múli Jónasson ráðinn framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi

Árni Múli Jónasson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, í hlutastarfi.

Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein stærstu alþjóðlegu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnsýslu og viðskiptalífi og berjast fyrir lagalegum úrræðum og vitundarvakningu til að draga úr spillingu. Íslandsdeildin mun hefja starfsemi sína á Íslandi í byrjun árs 2021.

Það er mikill fengur að fá Árna til starfa, sem framkvæmdastjóri TI, en hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, hjá ríki og sveitarfélögum sem og í einkageiranum, en hann var valinn úr hópi 45 umsækjenda.

Árni hefur lengi unnið að mannréttindamálum, sem framkvæmdastjóri hjá Landssamtökunum Þroskahjálp, hjá Rauða krossinum á Íslandi og Íslandsdeild Amnesty International, m.a. sem formaður stjórnar deildarinnar. Hann starfaði um langt skeið að málefnum fiskveiðistjórnunar, m.a. sem aðstoðarfiskistofustjóri og Fiskistofustjóri. Árni hefur einnig verið bæjarstjóri og skrifstofustjóri í ráðuneyti og hjá sveitarfélagi. Þá starfaði hann um tíma hjá umboðsmanni Alþingis.

Árni Múli er með meistarapróf (LL.M.) í alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Í meistararitgerð hans, „International Law against Corruption – An Icelandic Perspective“, er m.a. fjallað um hvernig spilling grefur undan mannréttindum fólks og hvernig virðing fyrir mannréttindum vinnur gegn spillingu. Árni lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og hlauti leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1995. Hann er jafnframt með B.A.-próf íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Árni starfar nú sem framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar og mun áfram vera þar í hlutastarfi, m.a. við verkefni á sviði mannréttinda, meðfram störfum sínum sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.