Þátttaka Samherja í verkefni SFS um „Ábyrgan sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag“

Stjórn Transparency International Iceland sendi eftirfarandi erindi til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, laugardaginn 29.05.2021, þar sem samtökin eru beðin um afstöðu til framgöngu Samherja og „skæruliðadeildar“.

Kæru stjórnarmeðlimir SFS

Samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur fengið mjög aukið vægi á undanförnum árum í umræðu um umhverfisvernd, mannréttindi og varnir gegn spillingu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa sett sér stefnu um samfélagsábyrgð. Á heimasíðu SFS er stefnu samtakanna um það lýst undir fyrirsögninni „Ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag.“

Á heimasíðu SFS kemur líka fram hvaða fyrirtæki hafa undirritað þessa stefnu samtakanna um „ábyrgan sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag“. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa gert það og þ.m.t. Samherji.

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi byggja starfsemi sína og arð á nýtingu auðlindar sem íslenska þjóðin á og ríkið úthlutar tilteknum fyrirtækjum en neitar langflestum öðrum um þann rétt. Í lýðræðis- og réttarríki er því augljóst að þessum nýtingarrétti hlýtur að fylgja skylda til samfélagsábyrgðar.

Í ljósi þess sem að framan segir og stefnu SFS um samfélagsábyrgð um „sátt við samfélag“ hlýtur, að mati Íslandsdeildar TI,  íslenska þjóðin sem á fiskveiðiauðlindina sem fyrirtæki í SFS hafa einkarétt til að nýta, að furða sig á að SFS og fyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð skuli ekki hafa talið tilefni til að stíga fastar niður og fordæma það framferði Samherja „flaggskips“ íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og „skæruliðadeildar“ fyrirtækisins. Það vekur spurningar um tilgang verkefnisins að enn sé Samherji hluti af verkefninu og þar með listað af Samtökunum sem fyrirtæki í sátt við undirritaðar reglur. Stjórn SFS verður að spyrja sig hvort almenningur og viðskiptavinir fyrirtækjanna geti réttilega dregið þá ályktun af veikum viðbrögðum samtakanna sem virðast bara telja rétt og eðlileg að þegja þunnu hljóði á meðan Samherji gengur fram með fordæmalausum aðgerðum gegn blaðamönnum innanlands sem og erlendis, stéttarfélögum, uppljóstrurum, eftirlitsstofnunum, sjálfstæðum félagasamtökum og þar af leiðandi samfélaginu öllu.

Með vísan til stefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um samfélagsábyrgð „í sátt við samfélag“ skorar Íslandsdeild Transparency International á SFS og sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð að sýna íslensku þjóðinni, eiganda auðlindarinnar sem þau hafa einkarétt til að nýta, þá lágmarksvirðingu að upplýsa hana um hvort þau telja framferði Samherja samræmast stefnu SFS um samfélagsábyrgð sem samtökin hafa sett sér og fyrirtækin hafa með undirritun sinni lýst yfir að þau ætli að fylgja.

Erindi þetta er birt á vef Transparency International á Íslandi, transparency.is