Augljós einkenni spillingar við söluna á Íslandsbanka

Sala fjármálaráðherra á hlut ríkisins í Íslandsbanka er skólabókardæmi um spillingu, aðstöðubrask, vanhæfni og óheilbrigða menningu ábyrgðarleysis undir forystu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Flest bendir nú til þess að hvorki salan sem fram fór í síðasta mánuði né hið almenna útboð í maí á síðasta ári standast réttmætar kröfur um fagleg vinnubrögð, hámörkun verðs eða störf í lýðræðislegu umboði. Salan er enn síður í samræmi við yfirlýst markmið og pólitísk loforð. Enn hrannast upp vísbendingar um spillta meðferð málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Héðan í frá er full ástæða til að ætla að fjármálaráðherra hafi hvorki stöðu né trúverðugleika til að hlutast til um sölu banka í eigu almennings. Hann hefur endurtekið gert sig sekan um að greina ekki með réttum og tryggilegum hætti á milli almannahagsmuna og einka- og/eða sérhagsmuna í störfum sínum sem ráðherra.

Fjármálaráðherra hefur nú óskað eftir því að Ríkisendurskoðun rannsaki bankasöluna og skili áliti sínu þar um. Að réttu lagi ætti Alþingi – en ekki fjármálaráðherra – að taka ákvörðun um meðferð málsins í umboði kjósenda án afskipta framkvæmdavaldsins, þ.m.t. fjármálaráðherra. Ríkisendurskoðun er ein af örfáum stofnunum ríkisins sem heyrir beint undir Alþingi (löggjafarvaldið). ”Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis. Hann er trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins,” segir í fyrstu grein laga um stofnunina. Því mælist Íslandsdeild Transparency International til þess að Alþingi fái frið til þess að ræða bankasöluhneykslið og taka ákvarðanir um meðferð þess án íhlutunar og yfirgangs framkvæmdavaldsins. Sú staða getur nefnilega komið upp, eins og stundum gerist í þroskuðum réttarríkjum, að þingið neyðist til að saksækja ráðherra.

Alþingi hefur auk þess ríka ástæðu til að ræða sérstaklega tengsl Ríkisendurskoðunar við framkvæmdavaldið, einkum fjármálaráðuneytið, en embættið gaf tvívegis fyrri sölu ríkisbankanna árin 2002 og 2003 heilbrigðisvottorð þótt svo síðar hefði komið í ljós (með skipan rannsóknarnefndar á vegum Alþingis) að almenningur og Alþingi var beitt alvarlegum blekkingum við söluna á Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003.

Íslandsdeild Transparency International lítur á það sem prófstein á heilbrigða þrígreiningu ríkisvaldsins að ”aðalleikarinn” í söluferlinu, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, komi hvergi nálægt framvindu málsins úr þessu.

Íslandsdeild Transparency International harmar hvernig tilraunir til siðbóta eru endurtekið misnotaðar og jafnvel beitt gegn almenningi svo tefja megi kröfur um ábyrgð. Aðhald, siðareglur, eftirlitsstofnanir, þingnefndir og lög og vinnureglur eru til að formfesta ábyrgð en ekki til að tefja, þvæla og blekkja. Í hvert sinn sem alvarleg mál koma upp þarf almenningur að sitja undir viðbrögðum stjórnarþingmanna sem virðast hafa það eina markmið að kæfa gagnrýni, búa til ný viðmið ábyrgðar og draga athygli kjósenda frá kjarna málsins. Með þessu móti eru dregnar tennurnar úr tilraunum til umbóta. Tómlæti og útúrsnúningar stjórnvalda koma í stað skipulagðar herferðar gegn spillingavörnum.

Fall íslensku bankanna árið 2008 var þriðja stærsta gjaldþrot heimssögunnar. Það er ófyrirgefanlegt að ríkisstjórnin hafi hafið einkavæðingu ríkisbanka á ný og lært jafn lítið af mistökum fortíðarinnar og raun ber vitni, en kenni nú Bankasýslunni um ófarirnar.

Íslandsdeild Transparency International vill enn sem fyrr undirstrika að stjórnvöld verði að stuðla að gagnsæi en ekki leggja stein í götu þess. Ef aðgerðir og ákvarðanir kjörinna fulltrúa eru sveipaðir huliðshjúpi verða þær að gróðrarstíu hlutdrægni, brotum á mannréttindum og mögulegum lögbrotum. Lögbrot kjörinna fulltrúa, ekki síst ráðherra, skaða mikilvæga þjóðarhagsmuni og eru ógn við heilbrigt lýðræði.

Stöndum saman gegn spillingu!