Aðalfundur Transparency International á Íslandi 27. apríl 2022

Íslandsdeild Transparency international boðar til aðalfundar miðvikudaginn 27. apríl kl 17.30 á Kex Hostel, Skúlagötu 28, 101 Reykjavík. Fundurinn fer fram í sal Kex Hostel, Gym og Tónik en að auki býðst félagsmönnum að taka þátt í gegnum fjarfundarkerfi.

Hægt er að skrá sig í Íslandsdeild Transparency International á vef félagsins: https://transparency.is/vertu-med/skraning-i-samtokin/

Dagskrá aðalfundar hefst á ávarpi áður en hefðbundin aðalfundastörf hefjast.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar og reikningar

3. Stefnuskrá og starfsáætlun til næsta aðalfundar

4. Kjör stjórnar

5. Kjör skoðunarmanns reikninga félagsins.

6. Önnur mál

Til að geta greitt atkvæði þarf að greiða félagsgjöldin, kr. 5.500

Reikningsnúmer 0301-26-011214

kt:701214-1450

Núverandi stjórn sem kjörin var til tveggja ára árið 2021 og hefur því umboð til 27. maí 2023. Tveir stjórnarmenn hafa óskað lausnar. Geir Guðmundsson, gjaldkeri og Þórarinn Eyfjörð meðstjórnandi.

Þau Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og Borghildur Sturludóttir arkitekt hafa þegar boðið fram krafta sína. Kjörgengi hafa allir félagsmenn Transparency International á Íslandi sem skuldlausir eru við félagið viku fyrir aðalfund. Framboðsfrestur rennur út  19. Apríl – skila ber inn framboðum til transparency@transparency.is

Í samræmi við ályktun aðalfundar 2021 leggur stjórn til nokkrar breytingar á lögum samtakanna. Samkvæmt lögum félagsins skal kynna tillögur stjórnar í fundarboði aðalfunds:

Tillögur stjórnar Transparency International á Íslandi um breytingar á samþykktum félagsins.

Með vísan til ákvæða í grein 6.4 í samþykktum Transparency á Íslandi leggur stjórn félagsins til að aðalfundur þess, haldinn 27. Apríl 2022, samþykki eftirfarandi breytingar á samþykktunum:

1. 2. gr. hljóði svo eftir breytingar:

2. gr. Tilgangur

2.1 Tilgangur Transparency International á Íslandi er að stuðla að áreiðanlegri greiningu á spillingu og spillingarhvötum í íslenskum aðstæðum með aðild að Transparency International. Félagið mun starfa í samræmi við markmið og grunngildi alþjóðlegu hreyfingarinnar Transparency International (skammstafað TI), sem á höfuðstöðvar í Berlín í Þýskalandi og samanstendur af tengdum félögum er vinna gegn spillingu.

2.2. Tilgangur Transparency International á Íslandi er að vinna, til verndar hagsmunum almennings og til almannaheilla, með margvíslegum hætti gegn spillingu með því að auka þekkingu í íslensku samfélagi á einkennum og aðstæðum sem geta hvatt til spilltrar hegðunar og efla almennan skilning á afleiðingum spillingar.

Greinin samkvæmt núverandi samþykktum:

2.1 Tilgangur Transparency International á Íslandi er að vinna með margvíslegum hætti gegn spillingu með því að auka þekkingu í íslensku samfélagi á einkennum og aðstæðum sem geta hvatt til spilltrar hegðunar og efla almennan skilning á afleiðingum spillingar. Félagið mun starfa í samræmi við markmið og grunngildi alþjóðlegu hreyfingarinnar Transparency International (skammstafað TI), sem á höfuðstöðvar í Berlín í Þýskalandi og samanstendur af tengdum félögum er vinna gegn spillingu.

2.2 Tilgangur Transparency International á Íslandi er að stuðla að áreiðanlegri greiningu á spillingu og spillingarhvötum í íslenskum aðstæðum meða aðild að Transparency International.

2. 1. málsliður ákvæða 6.2 hljóði svo:

Aðalfund skal halda á öðrum ársfjórðungi ár hvert. Stjórnin undirbýr aðalfund og ákveður dagsetningu hans. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

Stjórnin getur boðað til félagsfunda milli aðalfunda með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.

Greinin samkvæmt núverandi samþykktum:

Aðalfund skal halda eigi síðar en fyrir lok apríl mánaðar ár hvert. Stjórnin undirbýr aðalfund og ákveður dagsetningu hans. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

Stjórnin getur boðað til félagsfunda milli aðalfunda með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.

3. 7. töluliður ákvæða 6.5 hljóði svo:

Kjör stjórnarmanna.

Greinin samkvæmt núverandi samþykktum:

Kjör stjórnar

4. 1. málsliður ákvæða 7.3 hljóði svo:

Þeir félagsmenn Transparency International á Íslandi hafa kosningarétt og kjörgengi til stjórnar sem eru skuldlausir við félagið á aðalfundi.

Greinin samkvæmt núverandi samþykktum:

7.3 Þeir félagsmenn Transparency International á Íslandi hafa kosningarétt og kjörgengi til stjórnar sem eru skuldlausir við félagið viku fyrir aðalfund.

5. 1. málsliður ákvæða 7.5 hljóði svo:

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Verði sæti formanns laust tekur varaformaður sæti hans út kjörtímabil sitt og skal stjórn kjósa sér nýjan varaformann á næsta stjórnarfundi eftir að sæti formanns verður laust.

Greinin samkvæmt núverandi samþykktum:

7.5 Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Verði sæti formanns laust tekur varaformaður sæti hans út kjörtímabilið og skal stjórn kjósa sér nýjan varaformann á næsta stjórnarfundi eftir að sæti formanns verður laust.

6. Við bætist málsliður 7.6 sem hljóði svo:

Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi ár hvert. Fjórir stjórnarmenn til tveggja ára eitt árið og þrír til tveggja ára hið næsta.

– Stjórn Íslandsdeildar Transparency International

Jóhann Hauksson, formaður

Jóna Þórey Pétursdóttir, varaformaður

Geir Guðmundsson, gjaldkeri

Edda Kristjánsdóttir

Halldór Ó. Zoega

Þorbjörg Marinósdóttir

Þórarinn Eyfjörð