„Ríkisstjórnin, sem gæta á almannahagsmuna, getur ekki með góðu móti talað fyrir sérhagsmunum kaupenda hluta í Íslandsbanka.“
Íslandsdeild Transparency International fagnar birtingu skýrslu Ríkisendurskoðanda um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Skýrslan er hvorki endanleg né tæmandi; Fjármálaeftirlitið hefur ýmsa þætti málsins til athugunar sem ríkisendurskoðandi gat ekki athugað vegna skorts á heimildum. Alþingi getur enn kallað eftir rannsóknarskýrslu um málið þar sem slík nefnd gæti fengið allar þær heimildir til upplýsingaöflunar sem nauðsynlegar teljast.
Skýrsla ríkisendurskoðanda lýsir beinum orðum ógagnsæi í söluferlinu og miklum skorti á upplýsingagjöf Bankasýslunnar, ekki síst til Alþingis. Lýst er ófaglegum vinnubrögðum, kunnáttuleysi, grunsemdum um upplýsingaleka sem geti skýrt það að velta með hlutabréf í Íslandsbanka þurrkaðist upp á sama tíma og enginn átti að hafa vitað af yfirvofandi sölu. Þá lýsir Ríkisendurskoðun brotakenndu ferli og jafnvel geðþótta við val á bjóðendum. Ennfremur er ljóst að ekki fékkst hæsta mögulega verð fyrir eign almennings. Íslandsdeild lítur þó svo á að Bankasýslan sé nánast úr sögunni enda hafa stjórnvöld ákveðið að leggja hana niður og töldu sig ekki þurfa skýrslu Ríkisendurskoðanda til að stíga það skref. Þar með beinist athyglin að pólitískri ábyrgð á meðferð opinnberra eigna almennt.
Þær grafalvarlegu ábendingar koma fram hjá Ríkisendurskoðanda að Bankasýslan hafi með vitund fjármálaráðuneytisins blekkt Alþingi, almenning og markaðinn, með óreiðukenndri og ónógri upplýsingagjöf, í þeim tilgangi að „forðast að ræða mögulegan afslátt af dagslokagengi bankans“ eins og gagnrýnt hefur verið af almenningi og þingi í öllu söluferli bankans. Þetta eitt og sér kallar á rannsóknarnefnd. Fjármálaráðherra ber ábyrgð á upplýsingagjöf til þingsins.
Misvísandi upplýsingar koma frá ríkisstjórninni um frekari sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Frumvarp til fjárlaga gerir ráð fyrir því tugmilljarða sölu á næsta ári þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í ljósi hneykslisins í kringum söluna á umræddum hlut í ríkisbanka lýst yfir að ekki verði af frekari sölu á næstunni.
Ríkisstjórnin, sem gæta á almannahagsmuna, getur ekki með góðu móti talað fyrir sérhagsmunum kaupenda hluta í Íslandsbanka. Vel er þekkt víða um lönd að ríkisstjórnum er tamt að klæða sérhagsmuni í búning almannahagsmuna í þeim tilgangi að ná sátt um umdeildar ákvarðanir, sneiða hjá mótmælum og varðveita traust. Til þess eru jafnan fengnir spunameistarar, sem fengið er það verkefni að klæða vilja stjórnvalda í búning almannahagsmuna, lögmætis og hlutleysis.
Þessi hneigð stjórnvalda er sérlega áberandi á tímum mikillar einkavæðingar á stóra gráa svæðinu á mörkum almanna- og sérhagsmuna. Á þetta hefur m.a. GRECO, nefnd Evrópulanda sem vinnur gegn spilligu, bent í skýrslum sínum um Ísland á fyrsta áratug þessarar aldar.
Íslensk stjórnvöld hafa kosið að tefja Íslandsbankamálið, skapa um það upplýsingaóreiðu og reynt ýmsar þæfingaraðgerðir. Ríkisendurskoðandi, sem starfar í nafni Alþingis og hefur virðulega lagalega skyldu til þess að hafa eftirlit með eignum almennings og meðferð skattfjár, hefur nú tekið af öll tvímæli um að engar slíkar refjar stjórnvalda ganga upp. Spuni og aðrar tilraunir stjórnvalda og almannatengla þeirra til að afvegaleiða umræðuna duga ekki til.
Á fyrri stigum umfangsmikillar einkavæðingar íslenskra fyrirtækja (Landsbankans, Búnaðarbankans, Landsímans) var varnaðarorðum og leiðbeiningum, m.a. frá GRECO, stungið undir stól. Enn getur almenningur ekki treyst því að eignum hans sé ráðstafað til einkaaðila á gegnsæjan og faglegan hátt. Bankasýslan ber ekki lagalega og pólitíska ábyrgð á því. Það gera ríkisstjórnir á hverjum tíma.