Er spilling á ábyrgð almennings eða stjórnvalda?
Íslendingar hafa gengið rösklega fram í uppgjörinu við bankahrunið 2008. Hér hefur verið gengið hraðar og hreinna til verks en til dæmis á Írlandi og þó víðar væri leitað. Rannsóknin á írska hruninu virðist vera hvítþvottur samanborið við rannsóknina á aðdraganda og falli íslensku bankanna, sem var bæði ítarleg og afdráttarlaus. Þar voru menn nafngreindir og mál sem talin voru varða við lög send til embættis sérstaks saksóknara, sem stofnað var um svipað leyti. Á annan tug bankamanna og háttsettur opinber embættismaður hafa fengið refsidóma, og í fyrsta sinn í sögunni var Landsdómur kallaður saman til að dæma í máli ráðherra. Þessi viðbrögð eru dæmi um það hvernig opinber ábyrgð virkar eftir að skaðinn er skeður.
Aftur á móti virðist ábyrgð, sem hefur það hlutverk að fyrirbyggja samfélagslegan skaða með því að vakta og vaka yfir stofnunum samfélagsins, lúta öðrum lögmálum hjá landanum. Margir hafa bent á að með virkara opinberu eftirliti, aðhaldi fjölmiðla og háskólasamfélagsins hefði hugsanlega mátt fyrirbyggja hrunið eða lágmarka hrunskaðann. Núna, átta árum eftir hrunið, hefur almenningur orðið vitni að uppákomum í viðskiptum og stjórnmálum, sem aftur og aftur hafa vakið efasemdir um trúverðugleika þeirra sem þar eiga í hlut. Nægir að nefna lekamálið, Matorkumálið, Borgunarmálið, styrkveitingar stjórnmálamanna og viðskiptatengsl menntamálaráðherrans. Ráðherrar, sem eru nátengdir viðskiptalífinu og tengjast vafasömum viðskipta- og stjórnarháttum beint eða óbeint hafa, aðspurðir, ýmist komist upp með að saka fréttamenn um „ómerkilegar dylgjur“, kvarta undan árásum, óbilgirni og jafnvel einelti eða svara engu. Með öðrum orðum: Menn skjóta sendiboðann eða virða hann ekki viðlits.
Siðrofið, rofabörð hrunsins og það sem skiptir máli
Hrunið afhjúpaði siðrof og skildi eftir sig samfélagsleg svöðusár og almenn vonbrigði. Þegar fjárveitingar til eftirlits og rannsókna eru nú skertar og tilraunum til að kalla ráðamenn til fyrirsvars er svarað með viðbrögðum sem kynda undir efasemdir, þá rífur í sárin eftir hrunið. Þetta er það samhengi sem umræðan um spillingu á Íslandi fer fram í.
Svo spyrja menn hvort spilling á Íslandi sé mikil eða lítil, og ýmist réttlæta eða fordæma niðurstöðuna með samanburði við önnur lönd. Spilling er hins vegar aðstæðubundin og hana er erfitt að mæla. Hér á líka ágætlega við að „það sem hægt er að mæla skiptir ekki endilega máli; það sem skiptir máli er ekki endilega hægt að mæla“. Umræðan um það hvort spilling á Íslandi sé mikil eða lítil skiptir ekki endilega máli. Hins vegar beinir hún sjónum okkar frá því sem skiptir meira máli, það er að læra að þekkja spillingu, spillingarhættur og innbyggða spillingarhvata í samfélaginu, og að skoða hvernig við getum dregið úr spilltri hegðun og hvað má gera til að auka tiltrú og traust á stofnanir samfélagsins á Íslandi.
„Þegar alþjóð einu spáir, óláns rætist það”: Áhlaup á kerfið?
Að þessu sögðu þá er athyglisvert að skoða umræðuna innan háskólasamfélagsins. Þar hefur til dæmis komið fram að spilling virðist geta hagað sér líkt og hóphegðunarfyrirbærin sem við kynntumst í aðdraganda hrunsins, það er hjarðhegðun og áhlaup á banka.
Haft er eftir vinnufélaga mínum, Gunnari Helga Kristinssyni, á Visir.is (15. janúar) að það sé „útbreidd trú Íslendinga að á landinu þrífist spilling. Það er stærsta vandamálið óháð því hvort hér þrífist spilling eða ekki því það eykur líkur á að fleiri taki þátt í henni“. Í Fréttablaðinu 29. janúar síðastliðinn skýrir Gunnar þetta nánar og segir spillingu meðal annars geta verið merki um „vanda sameiginlegra aðgerða“ og að opinber starfsmaður gæti samkvæmt þeirri kenningu „freistast til að láta undan freistingum ef hann telur að flestallir aðrir myndu gera það í svipuðum aðstæðum. Með því að standast freistingar væri hann að baka sér kostnað sem aðrir yrðu ekki fyrir“.
Þessa sýn á gangverk spillingar má einnig útskýra með kenningum um hjarðhegðun og áhlaup á banka. Þegar sú trú verður útbreidd að spilling þrífist, gæti kenningin um hjarðhegðun lýst freistingum starfsfólks innan kerfisins eins og Gunnar lýsir þeim, en kenningin um áhlaup á banka viðbrögðum almennings, sem geta leitt til áhlaups á trúverðugleika kerfisins, sem þá hrynur.
Hjarðhegðun má fyrirbyggja með því til dæmis að vinna samkvæmt settum reglum, tryggja gagnsæi, vandaða stjórnsýsluhætti og gott eftirlit, nokkuð sem skorti í aðdraganda hrunsins og skortir enn í dag samkvæmt ábendingum GRECO og OECD til íslenskra stjórnvalda.
Aðgát skal höfð í nærveru valdsins …?
Almenningi og fjölmiðlum er aftur á móti mikill vandi á höndum, ef spilling hagar sér samkvæmt kenningunni um áhlaup á banka. Samkvæmt þeirri kenningu getur umræðan sjálf skaðað kerfið!
Þá vaknar sú spurning hvað kemur á undan, hænan eða eggið. Á málfundi hinn 15. janúar sl. kom fram hjá Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, að það grafi undan almennu trausti á hið opinbera, „ef upplifun fólks er sú að í landinu sé spilling þrátt fyrir að hafa ekki beina reynslu af henni“. Vandinn við þessa útleggingu er sá að þegar traust er annars vegar þá þarf ekki beina reynslu af spillingu til, til að grafa undan trúverðugleika; ásýndin nægir. Þegar horft er yfir svið stjórnmála og viðskipta í dag eins og gert var hér að framan, þá er af nægu að taka.
Brot gegn almennu trausti eða fjölskyldugildi?
Gunnar vísar einnig til þess að spilling geti „verið umboðsvandamál þar sem kjörnir fulltrúar og opinberir starfsmenn bregðast trausti umbjóðenda sinna“. Þessi skilningur er í anda þess sem Gagnsæi, samtök gegn spillingu, hafa meðal annars fjallað um. Þar er byggt á skilgreiningum á þeirri tegund spillingar sem rannsóknir á spillingu í vestrænum lýðræðisríkjum hafa kallað „brot gegn almennu trausti“ (e. violation of public trust).
Í þessu samhengi er samlíking Gunnars við spillingarhættur í þriðja heiminum hæpin. Samanburðurinn við þriðja heiminn er aftur á móti líklegri til að leiða í ljós líkindi með þeirri tegund spillingar, sem þar er útbreidd, og þess sem talið er að einkenni spillingu á Íslandi, það er frændhygli og klíkuráðningar. Sérfræðingar Alþjóðabankans hafa skilgreint frændhygli í nýmarkaðslöndum sem spillingu, meðan heimamenn líta á frændhygli sem fjölskyldugildi.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent og stjórnarmaður í Gagnsæi.