Flokkar og spilling: Fer kannski eitthvað að gerast?
Furðulegasta kjörtímabili síðari tíma er lokið. Guði sé lof fyrir það. Þetta voru reyndar tvö tímabil, fyrir og eftir Panamaskjölin. Fyrri hlutinn var samfelld hrekkjavaka og einkenndist af furðulegri hegðun forsætisráðherrans sem virtist ekki fúnkera almennilega. Seinni hlutinn, síðustu sex mánuðir, var allt öðruvísi því eftirmanni hans tókst að vinna þokkalega með öðru fólki. Enda hældi hann sér af því strax daginn eftir kosningar. Panamaskjölin snerust auðvitað um spillingu – misnotkun á trausti almennings – en þau hafa enn í raun engin áhrif haft á aðgerðir stjórnvalda til að draga úr spillingu eða hættu á spillingu. Fyrst og fremst urðu þau til þess að við losnuðum við óhæfan forsætisráðherra.
Íslensk spilling er merkilegt og dálítið óáþreifanlegt fyrirbæri. Kannski birtist hún ekki síst í þeirri sannfæringu hinna spilltu að þeir séu alls ekki spilltir. Sumir verða jafnvel furðu lostnir þegar því er haldið fram að hér á landi þurfi að bregðast sérstaklega við spillingu og til eru fræðimenn sem halda því fram að fjölmiðlar og álitsgjafar hafi fundið íslenska spillingu upp – eða að minnsta kosti ýkt hana stórlega. Í ofanálag er dáðst að því um allan heim hvað Íslendingar séu duglegir að berjast gegn spillingu, láti dæma bankamenn og fleygi spilltum forsætisráðherra öfugum úr Stjórnarráðinu. Allt slíkt hól vekur þó aðeins gamalkunna tilfinningu vandræðalegheita, sem við könnumst allt of vel við sem enn munum tímana fyrir hrun þegar okkur var stöðugt hrósað fyrir að vera eitt óspilltasta land í heimi.
Hvað ber að gera?
Fyrir kosningar hömruðu stjórnarandstöðuflokkarnir á því að spillingarmál væru ástæða kosninganna. Nýi flokkurinn, Viðreisn, talaði þó minna um spillingu en hinir (kannski ekki neitt) og nokkrir helstu frambjóðendur hans voru byrjaðir með belging um að þjóðin hefði „hafnað vinstristjórn“ strax að kosningum loknum. Ekki traustvekjandi það, dálítið gamaldags. Það verður að búast við því að þeir stjórnarandstöðuflokkar síðasta tímabils sem taka þátt í næstu ríkisstjórn setji aðgerðir til að draga úr spillingu í algjöran forgang. Slík forgangsröðun þýðir ekki nornaveiðar eða ofsóknir: Það þýðir að sett verður upp raunhæf áætlun til að minnka spillingarhættu – draga úr líkum á spillingu með öðrum orðum – með nauðsynlegum lagabreytingum, innleiðingu viðmiða og reglna og almennri vitundarvakningu, jafnvel kerfisbreytingu. Það er verk að vinna. Þótt lítið eitt hafi þokast í rétta átt á síðustu árum var því miður alltaf ljóst að ríkisstjórnin ætlaði ekki að setja varnir gegn spillingu, ekki síst kerfislægri spillingu, í forgang og hafði engan áhuga á að vinna með öllum flokkum að aðgerðum á því sviði.
Vandinn hér á Íslandi er margþættur, og hann er bæði almennur og sértækur – varðar bæði kerfið sem slíkt og venjurnar sem tíðkast í stjórnmálum og stjórnsýslu. Hann er hins vegar ekki djúpstæður: Það er hægt að gera mjög margt til að draga úr spillingu og líkum á spillingu á stuttum tíma ef viljinn er fyrir hendi. Slíkar aðgerðir myndu til lengri tíma stuðla að því að gera stjórnmálamenn, opinbera starfsmenn og fólk í viðskiptalífinu meðvitaðra um þá þætti í stjórnkerfinu og samfélaginu sem skapa hættu og spillingu.
Vernda uppljóstrara
Í fyrsta lagi þarf að setja lög um vernd uppljóstrara í forgang og helst leggja fram frumvarp um þetta mál strax og þingið kemur saman. Þingmannafrumvarp var lagt fram oftar en einu sinni á síðasta kjörtímabili og höfðu þingmenn Bjartrar framtíðar frumkvæðið að því. Það fékk hins vegar litla umræðu. Samtök atvinnulífsins og fleiri aðilar tengdir atvinnulífinu réðust gegn frumvarpinu vegna áhyggna sinna af misnotkun slíkra verndarákvæða. Gagnrýnin var vissulega eðlileg en virtist snúast um að skjóta frumvarpið niður frekar en að stuðla að umræðum um það og hugsanlegum breytingum sem mætti gera á því. Það ætti ekki að þurfa að eyða mörgum vikum í að laga það til og samþykkja það.
Fara eftir ráðleggingum alþjóðasamtaka
Í öðru lagi þurfa stjórnvöld að setja miklu meiri kraft í að bregðast við tilmælum alþjóðlegra samtaka á borð við þingmannasamtökin GRECO, OECD og Sameinuðu þjóðirnar. Þessar stofnanir hafa haldið íslenskum stjórnvöldum við efnið í nokkur ár, en þó hefur margsinnis verið bent á að það gangi alltof seint að innleiða tiltölulega einfaldar umbætur sem bent er á að þurfi að gera í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta. Þannig hafa Íslendingar til dæmis tregðast við að fara eftir ábendingum OECD um að gera stöðu stjórnenda í opinberum fyrirtækjum skýrari gagnvart mútum auk þess sem hámarksrefsing fyrir mútuboð er enn of lág. Stjórnvöld hafa ekki sinnt tilmælum um að veita endurskoðendum nauðsynlega þjálfun í sambandi við erlend mútubrot (þótt ætlunin sé að halda eitt námskeið fyrir þá nú í þessum mánuði), né hnykkt nægilega vel á skyldu opinberra starfsmanna að tilkynna um slík brot sem þeir verða varir við. Eins teljast reglur um opinber innkaup vera gloppóttar svo og gæðaefirlit í tengslum við þróunaraðstoð. Nú getur verið að upptalningar af þessu tagi virki dálítið eins og smámunasemi. En það er svo sannarlega engin smámunasemi. Það vill bara svo til að atriðin eru afar skýr – og þess vegna að sama skapi óskýrt hvers vegna stjórnvöld hafa verið svona treg að taka þau föstum tökum, en þurfa þess í stað að sitja undir gagnrýni alþjóðastofnana. Það er mikilvægt að hafa í huga að slík gagnrýni og efasemdir um heilindi íslenskra stjórnvalda geta haft slæmar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf og útfllutning.
Endurskoða og bæta hagsmunaskráningu
Í þriðja lagi þarf að setja vinnu í gang til að endurskoða og koma réttu lagi á reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra. Þessar reglur þurfa að tryggja að hvers kyns fjárhagslegir hagsmunir séu ekki að flækjast fyrir þegar fólk tekur að sér mikilvæg embætti. Það þarf að vera alveg klárt að enginn setjist í ráðherrastól nema hafa fyrst gert hreint fyrir sínum dyrum um fjárhag og eignir og fjárhagslegar skuldbindingar sín og fjölskyldu sinnar.
Taka siðareglur í gegn og uppfæra þær
Í fjórða lagi þarf að taka siðareglur ráðherra, starfsmanna stjórnarráðsins og þingmanna til endurskoðunar. Siðareglur starfsólks stjórnarráðsins voru settar vorið 2012, en slíkar reglur er eðlilegt að endurskoða reglulega, jafnvel á hverju ári. Siðareglur ráðherra gengu í gegnum einhverja af bjánalegustu flækjum forsætisráðherrans fyrrverandi, sem gat hvorki staðfest þær né afneitað þeim en lét loks gera einhverjar smávægilegar breytingar á reglunum sem eftirmaður hans kom í gegnum ríkisstjórnina. Siðareglur þingmanna voru samþykktar við sérkennilegar kringumstæður, gerðar voru ýmsar málamiðlanir og því er eðlilegt að þær séu teknar upp og unnið með þær áfram – ekki til að kollvarpa þeim, heldur einfaldlega til að þær þróist eðlilega og batni.
Gera úttekt á stöðu dómskerfisins
Eftir rúmt ár taka ný dómstólalög gildi og þá bætist við þriðja dómstigið. Það er hins vegar margt sem bendir til að talsverðar umbætur þurfi að gera á stjórnsýslu dómstóla, helst áður en lögin taka gildi. Þess vegna þyrfti í fimmta lagi að gera sjálfstæða úttekt á stöðu dómskerfisins til að hægt sé að tryggja að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum og reglum. Það virðist vera algengur skilningur dómara á hlutverki sínu að sjálfstæði þeirra krefjist þess að þeir séu óháðir öllu ytra eftirliti – jafningjaeftirlitið eitt dugi. Það eru margar ástæður til að efast um þetta mat. Hafa verður í huga að sjálfstæði dómstóla varðar fyrst og fremst starfsöryggi dómara og dómgæsluhlutverk. Stjórnsýsla dómstólanna ætti hins vegar að lúta sömu kröfum og eftirliti og önnur stjórnsýsla. Það ætti til dæmis alveg að koma til greina að ólöglært fólk eigi sæti í dómstólaráði eða siðanefndum lögmanna og dómara. Sjálfstæði þýðir ekki einangrun. Ef dómskerfið einangrast frá samfélaginu dregur úr getu þess til að standa vörð um réttarríkið, en það er eitt mikilvægasta hlutverk þess og því er mjög mikilvægt að efasemdir um dómskerfið séu ekki útbreiddar í samfélaginu. Kynjahlutfallið eitt í Hæstarétti dregur til dæmis úr trausti á þeirri annars ágætu stofnun, en íslenska dómarasamfélagið virðist engar áhyggjur hafa af því.
Stórbæta þjálfun eftirlitsaðila
Í sjötta lagi vantar talsvert upp á að eftirlits- og löggæsluaðilar fái næga kerfisbundna þjálfun til að sinna störfum sínum – þetta varðar ekki síst endurmenntun og símenntun. Lögreglumenn, tollverðir, dómarar, saksóknarar og fleiri fá litla eða enga beina þjálfun í því að fást við spillingarbrot og það hefur að sjálfsögðu mikil samanlögð áhrif á hvernig samfélagið í heild er í stakk búið til að takast á við slíkt. Einn af mikilvægustu þáttum baráttunnar gegn spillingu til lengri tíma er einmitt menntun og þjálfun og á þessu sviði erum við mjög aftarlega, svo ekki sé meira sagt.
Herða löggjöf um spillingu
Í sjöunda lagi þarf að fara kerfisbundið í lagabreytingar sem gera lögreglu og öðrum rannsóknaraðilum mögulegt að rannsaka spillingarbrot betur. Rannsóknaheimildir verða að vera til staðar, einnig þarf refsirammi fyrir spillingarbrot að endurspegla alvöru þeirra. Nýlega er búið að gera lagabreytingar sem gera rannsókn spillingarbrota auðveldari, en það þarf að gera mun betur.
Stuðla að vitundarvakningu
Í áttunda lagi verður að vinna kerfisbundið að vitundarvakningu í stjórnkerfinu og utan þess um spillingarhættur og leiðir til að draga úr þeim. Slík vitundarvakning fer saman við flest af því sem ég hef nefnt hér fyrir ofan. Lög um vernd uppljóstrara eiga að vera hvatning til þeirra sem vita af brotum gegn lagalegum eða siðferðilegum skyldum að upplýsa um þau. Slík lög eiga hins vegar ekki að verða til þess að tilhæfulausum ásökunum fjölgi.
Auka gagnsæi og almenningsamráð
Loks er ekki mikilla stórra breytinga að vænta ef ekki verður um leið unnið að því að auka gagnsæi og almenningssamráð í stjórnkerfinu. Þetta er það sem Píratar hafa lagt mesta áherslu á, en tæknilega er þetta flóknasta viðfangsefnið og mætir hugsanlega mestri mótstöðu í kerfinu. Það hefur verið talað heilmikið um almenningssamráð undanfarin ár, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, þótt afar lítið hafi þokast á því sviði. Það þarf miklu sterkara og sameinaðra átak og trúverðugar leiðir.
En það væri hægt að koma þessu öllu af stað á innan við eitt hundrað dögum.
Höfundur: Jón Ólafsson