2017: Árið sem hafnaði leyndarhyggju

Meira gagnsæi og minni leyndarhyggju, var sú krafa frá almenningi sem litaði flesta þætti mannlífsins á árinu 2017. Þess vegna má segja að tíðarandinn á Íslandi og mjög víða annarsstaðar í veröldinni gagnvart gagnsæi og leyndarhyggju hafi gjörbreyst.

Þetta kemur skýrt fram bæði í þeim byltingum sem hafa átt sér stað í samfélaginu í ár, sem og í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Íslands sem tók við þann 1. desember 2017. Þar kom orðið „gagnsæi“ kom fyrir í alls átta skipti, ólíkt stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá 2016 þar sem orðið „gagnsæi“ kom aðeins fyrir aðeins einu sinni, rétt eins og hjá ríkisstjórninni þar á undan.

Nú segir fjöldi tiltekinna orða litla sögu um væntingar og efndir, en er þó ákveðin vísbending um það hvort ákveðin mál kallist á við tíðarandann hverju sinni. Þannig má alveg álykta sem svo að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli sér að beita sér fyrir meira gagnsæi í stjórnsýslu og við lagasetning á Alþingi en fyrri ríkisstjórnir hafa gert. Ný ríkisstjórn sýnir þannig fyrst og fremst að hún virðist vera í tengslum við samtímann og hlusta á þær raddir sem tala í samfélaginu.

Leyndarhyggjan sjálf, andstæða gagnsæis, hefur líklega aldrei fundið annan eins mótbyr eins og árið 2017. Rekja má fall síðustu ríkisstjórnar til trúnaðarbrests og leyndarhyggju, nánar til tekið yfir máli um uppreisn æru kynferðisbrotamanna. Andstöðu gegn leyndarhyggju er þó ekki aðeins að finna í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu, heldur má finna kröfuna um að leyndarhyggju skuli hætt á flestum, ef ekki öllum, sviðum samfélagsins.

Og svo er það stóra byltingin gegn leyndarhyggju: #MeToo-byltingin. Í #MeToo byltingunni sem spratt upp í kjölfar stöðuuppfærslu leikkonunnar Alyssa Milano á Twitter, þann 15. október 2017, má segja að hernaður gegn leynd, ofbeldi, kynferðislegri kúgun og gömlum hefðum og venjum hafi hafist fyrir alvöru. Þá sýndu konur um allan heim samstöðu með því að segja sínar sögur af kynferðislegri áreitni í kjölfar kynferðisbrotamála, fyrst gegn leikstjóranum Harvey Weinstein, en síðar gegn fjölmörgum öðrum þekktum karlmönnum í lista- og menningarlífi margra Vesturlanda.

Íslenskar konur úr öllum stéttum og kimum þjóðfélagsins hafa einnig tekið þátt í #MeToo-byltingunni. Konur úr stjórnmálum, leikhúsilífi, heilbrigðisstéttum, vísindasamfélaginu, konur í íþróttum og úr mörgum öðrum hópum hafa stigið fram og sagt sögur sem leynd hefur hvílt yfir þar til nú. Þessar konur hafa birt upplýsingar sem sýna að kynferðislega áreitni og leyndarhyggjan sem henni fylgir er til á ótrúlegustu sviðum samfélagsins. Konur hafa hafnað því að halda inni skömminni sem fylgir leyndinni, og saman hefur samfélagið hafnað leyndarhyggjunni. Merki um þetta sjást þegar þeim fjölmörgu dæmum af skilyrðislausri afsögnum margra þekktra og valdamikilla manna eru bæði af þeim sjálfum (gerendunum) og samfélaginu öllu talin svo sjálfsögð að ekki þarf að ræða það frekar. Þetta er dæmi um breyttan tíðaranda, sem krefst þess að leynd sé vikið á brott og að hverskyns ofbeldi og að óviðurkvæmleg framkoma sé ekki liðin í neinni mynd.

Margir segja að #MeToo-bylting sé aðeins nýhafin og að margar ótrúlegar sögur eigi eftir að losna undan krumlum leyndarinnar og komast í dagsljósið á næstu mánuðum og árum. Einnig má velta fyrir sér hver hliðaráhrifin af #MeToo-byltingunni verða. Hér er því spáð að stóru áhrifin muni snúast um það að leyndarhyggju sé hafnað í hvaða mynd sem er og á hvaða sviðum þjóðlífsins sem er. Það hefur nú þegar komið í ljós að almenningur líður ekki lengur leyndarhyggju, og má því spá að það færist frekar í aukana svo að ekki lengur líðist leyndarhygga af neinu tagi, sérstaklega gagnvart málum sem snerta samfélagið. Hægt er að segja að sú krafa verði upp að upplýsingaleynd verði mjög víkjandi þáttur í samfélaginu, hvort sem um er að ræða samskipti kynjanna, samninga fyrirtækja, eða stjórn landsins. Auðvelt er þannig að hugsa sér að #MeToo-byltingin sé aðeins byrjunin á einhverju mjög gríðarstóru, þó að áhrif hennar séu nú þegar orðin söguleg.

Segja má að #MeToo-byltingin sé í raun upphafið að því að leyndarhyggju sé hafnað á öllum stigum þjóðfélagsins og að gagnsæi verði í æ ríkara mæli talinn grundvöllur allra mála er varða samfélagið í heild.

― ― ―

Höfundar eru: Hallgrímur Óskarsson og Rut Einarsdóttir