Mælingar Transparency International á spillingu
Í nýjustu útgáfu Transparency International á spillingarvísitölu, sem á að endurspegla upplifun á spillingu innan hvers lands, („Corruption Perception Index“), var Ísland í 12. sæti, neðst Norðurlandanna. Árið 2007 var Ísland hins vegar í fyrsta sæti sömu mælingar, en hún byggir á tölfræði frá ýmsum viðurkenndum rannsóknarstofnunum og gagnaveitum.
Spilling – það að misnota opinbert vald í eigin þágu – felur oftar en ekki í sér brot á lögum og siðareglum. Slík brot eru því vísvitandi vel falin og koma einungis fram í dagsljósið í gegnum hneykslismál eða rannsóknir á einstökum málum. Engin áreiðanleg leið er því til að mæla nákvæmlega tíðni eða tegundir spillingar á hverjum stað og tíma. Það sem hins vegar er hægt að mæla er hversu vel í stakk búin eftirlitskerfi, dómstólar og fjölmiðlar eru til að rannsaka og fletta ofan af spillingu. Þess vegna mælir TI „skynjun“ slíkra aðila í hverju landi fyrir sig, á því hversu spillt þeir telja umhverfi sitt vera. Niðurstöðurnar eru síðan bornar saman við sambærilegar mælingar í öðrum löndum. Nauðsynlegt er að rýna í tölurnar og kynna sér á hverju þær byggja.
Ísland mældist hreint (clean) árið 2007, en hefur nú fallið úr efsta sæti og er neðst Norðurlandanna. Það kann e.t.v. að benda til þess að eftirlitskerfið og jafnvel umsagnaraðilar hafi á síðustu sjö árum orðið næmari á hættumerkin og meðvitaðara um birtingarmyndir spillingar.